[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Viðkomum skemmtiferðaskipa í höfnum Íslands fjölgar verulega frá síðasta ári. Þannig er reiknað með 89 komum skipa til Reykjavíkur á móti 80 á síðasta ári.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Viðkomum skemmtiferðaskipa í höfnum Íslands fjölgar verulega frá síðasta ári. Þannig er reiknað með 89 komum skipa til Reykjavíkur á móti 80 á síðasta ári. Áætlað er að 98 þúsund farþegar verði með skipunum á móti rúmlega 92 þúsund farþegum á síðasta ári. Sama þróun er á Akureyri þar sem flest skipin koma líka við og á fleiri stöðum.

Vertíðin við móttöku skemmtiferðaskipa hefst heldur fyrr en áður. Þannig koma fjögur skip í maí, það fyrsta næstkomandi mánudag. Fyrsta risaskipið kemur 3. júní. Vertíðin stendur síðan út september. „Þetta dreifir álaginu yfir á mánuði þegar minna er um að vera í ferðaþjónustunni,“ segir Ágúst Ágústsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna.

Ísland orðið þekkt stærð

„Það er sífelld vinna í markaðsmálum sem skiptir máli. Ísland er orðið þekkt stærð í þessum heimi,“ segir Ágúst um ástæður stöðugrar fjölgunar í viðkomum skemmtiferðaskipa.

Hann segir ánægjulega þróun að sífellt fleiri skip hafi viðdvöl yfir nótt við Skarfabakka. Það á við um 25 skip í ár. „Þá hafa farþegarnir meiri tíma til að skoða Reykjavík og nágrenni og verja meiri peningum í kaup á vörum og þjónustu,“ segir Ágúst.

Þreföldun í Grímsey

Fjögur skip velja að hafa viðkomu í Hafnarfjarðarhöfn í stað Reykjavíkur. Þar eru staðfestar 9 skipakomur en reiknað með að þær verði 11 í heildina. Þetta eru frekar minni skip sem gera út frá Hafnarfirði og sigla hringinn í kringum landið með viðkomu á mörgum stöðum og skipta jafnvel um farþega í Hafnarfirði.

Flest skipanna hafa einnig viðkomu á Akureyri. Von er á 78 komum skemmtiferðaskipa til Hafnasamlag Norðurlands í sumar með alls um 77 þúsund farþega. Þar af eru 66 komur til Akureyrar og 12 til Grímseyjar.

Margföldun er á skipakomum til Grímseyjar í sumar því þangað komu fjögur skip á síðasta sumri. Skipin geta ekki lagst að bryggju og eru farþegarnir ferjaðir með skipsbátunum í land. Vinsælast er að ganga norður fyrir heimskautsbaug.

6. júlí verður væntanlega mesti annadagurinn á Akureyri. Þá hafa tvö skip með alls á fimmta þúsund farþega viðdvöl þar sama daginn. 1. ágúst verða þar 4 skip sem öll eru frekar í minni kantinum.

Pétur Ólafsson, markaðsstjóri Hafnasamlags Norðurlands, segir að aðstaðan leyfi að það sé tekið við tveimur stórum skipum og minni með. Það reyni hinsvegar á alla þegar þjóna þurfi mörgum skipum og farþegum á sama tíma.

„Þetta skiptir okkur miklu máli. 25-30% af tekjum hafnarinnar koma af skemmtiferðaskipunum. Þar fyrir utan eru öll þau umsvif, tekjur og atvinna sem þetta skapar í ferðaþjónustunni,“ segir Pétur.

Enginn „sprengidagur“

Miklar endurbætur hafa verið gerðar á aðstöðunni við Skarfabakka í Reykjavík. Bakkinn var lengdur á síðasta ári svo þar má koma fyrir tveimur risaskipum í einu. Í sumar hefur verið unnið að merkingu bílastæða og aðstöðu fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og ýmsum frágangi.

Síðustu ár hafa komið einstaka dagar þar sem mörg skip eru í höfn á sama tíma. Ágúst á ekki von á neinum slíkum „sprengidögum“ í sumar. „Þetta lítur út fyrir að verða nokkuð þægilegt, oft tvö skip á dag og stundum þrjú.“ Ágúst segir að 8. júlí verði annasamur, þá komi þrjú frekar stór skip með alls á sjötta þúsund farþega. 3. ágúst og 4. september verði líka stórir.

„Þetta er eins og í öðru, þegar menn eru búnir að læra á þetta verður þessi ógnvænlegi fjöldi sem okkur þótti fyrir nokkrum árum viðráðanlegur,“ segir Ágúst Ágústsson.