Fastagestirnir eru farnir að sjást með plastpokana sína á bekkjunum við Austurvöll. Það er eitt merki sumarkomu og allt gott um það að segja en einhverjir eru þó stöðugt að amast út í plastpokana.

Fastagestirnir eru farnir að sjást með plastpokana sína á bekkjunum við Austurvöll. Það er eitt merki sumarkomu og allt gott um það að segja en einhverjir eru þó stöðugt að amast út í plastpokana.

Víkverji botnar hvorki upp né niður í umræðunni um plastpoka. Þeir sem telja sig allt vita og sjálfkjörna til að hafa vit fyrir öðrum láta eins og himinn og jörð sé að farast vegna plastpokanotkunar og heimta nú að hún verði bönnuð með öllu.

Einn snillingurinn var í útvarpsviðtali á dögunum. Hann sagði að málið snerist ekki um pokana sem slíka heldur úrganginn. Fólk yrði að kunna sér hóf þegar að úrgangi kæmi. Ekki henda einum fullum poka á dag heldur kannski einum fullum poka á viku. Flokkun væri töfraorðið.

Þegar flokkun rusls komst í tísku í lok liðinnar aldar tók kona sig til á Miklubrautinni og flokkaði allt rusl. Pappír fór í eina tunnuna, aðrar umbúðir, plast og fleira í aðra og matarúrgangur í þá þriðju. Konan brýndi fyrir nágrönnum sínum að taka upp sömu hætti, en hún áttaði sig ekki á því að þegar ruslið var tekið var því öllu saman blandað í ruslabílnum og urðað saman. Þetta var allt sama tóbakið.

Það hefur löngum sýnt sig að allt þetta „gáfaða“ plastfólk er ekki í góðum tengslum við veruleikann. Ekkert má framleiða nema það eyðist á svipstundu að lokinni notkun. Maðurinn má ekki skilja eftir sig nein merki þess að hann hafi yfirhöfuð verið til. Við þurfum að skila landinu til barna okkar í betra ásigkomulagi en það var þegar við tókum við því, kyrjar kórinn. Allt saman gott og blessað en einhvers staðar verða vondir að vera. Líka plastpokar, þar til önnur betri lausn finnst. Meðan ekki er boðið upp á annan valkost undir ruslið verður fólk að fá að nota plastpoka til þess í friði.