Stefán Eggert Pétursson fæddist 23. júní 1932. Hann lést 20. apríl 2014. Útför hans fór fram 2. maí 2014.

Eins og gerist í lífinu kynntist ég þér seint, en kynntist þér ásamt öllu því góða fólki sem var í kringum þig. Ég vissi lítið um þig fram eftir ævinni en var þó forvitinn um hver þú værir og hvern mann þú hefðir að geyma. Þegar ég var að vinna á elliheimili norður í Skagafirði á síðustu öld var ég að sinna gömlum manni sem var byrjaður að týna minni og sagði ekki mikið fram eftir degi svona yfir höfuð. En ég vissi að gamli maðurinn hefði verið smiður og gröfumaður og unnið mikið af vegum og alls konar drasli um allt land. Ég vissi að þú hefðir verið ýtustjóri svo að ég spurði gamla manninn: „Þekkir þú mann sem heitir Stefán og á ýtu?“ Það var mjög sérstakt að horfa á hvernig ljóminn kom yfir andlit mannsins og hann sagði: „Stefán Eggert Pétursson þekki ég, já hann var til dæmis að búa til Alexandersflugvöll þarna.“ Eitthvað innra með mér hlýnaði því að ég hafði aldrei hitt eða einu sinni séð Stefán. Hann bætti við:

„Afskaplega duglegur og skemmtilegur karl hann Stefán, þekkir þú hann?“ „Já,“ sagði ég, „hann er afi minn.“ En það breyttist, það var bara bankað heima á dyrnar vestur í sveitinni og pabbi átti allt í einu haug af systkinum. Þú varst ljúfur og góður karl, allt fólkið þitt er ljúft, gott og hlýtt. Mér þykir leitt að ég kom mér ekki til að segja þér það, enda feimnismál hjá hverjum og einum, en ég bað fyrir þér. Ég bað fyrir þér frá því að ég var barn og vissi að þú værir til.

Það er minning þar sem ég spyr mömmu mína: „Af hverju er pabbi minn ekki með sama nafn og afi?“ og mamma sagði: „Sko, bla bla bla“ og útskýrði fyrir labbakútnum sem var bara fjögurra ára hvernig í pottinn var búið. Ég bætti þér því á ömmu- og afalistann eftir faðirvorið (sko, það er nefnilega svona fjölskyldubæn sem ég samdi sjálfur þegar ég var púki fyrir ykkur, því að mér þykir svo vænt um ættingjana mína).

Það er þó nokkuð af ömmum og öfum í bæninni því að pabbi minn átti nefnilega svolítið marga svona aukaforeldra í föðurstað, því sjáðu til hann var í sveit og í þorpi vestur á fjörðum til skiptis o.s.frv.

Sem sagt, ég hef beðið fyrir öllum í minni fjölskyldu frá því að ég var barn hvern einasta dag, þér meðtöldum, elsku afi minn, og áður en ég þekkti þig. Ég hef alltaf átt trúna þótt ekki sæki ég messur en trúmál fólks eru einkamál hvers og eins. Hérna er þessu deilt af hinni mestu auðmýkt að ég hef alltaf beðið fyrir þér og fjölskyldunni og mun gera það áfram. Það var gaman að skreppa til þín og hennar Jóhönnu þinnar í kaffi. Núna eruð þið bæði farin til himnaföðurins þangað sem við förum öll að lokum. Þú talaðir bara um vinnuna sem mér finnst langsamlega skemmtilegasta umræðuefnið, alveg eins og hann pabbi, enda ekkert annað merkilegra í fullri alvöru því allt annað er bara andskotans tímaþjófur og eintóm vitleysa, og mikið áttir þú erfitt með að vera kyrr! Það gengur margt í erfðir, það er ekki bara uppeldið. Megir þú ýta og plægja um jarðir himnaföðurins. Hvíldu í friði elsku afi minn, þú átt góðan stað í hjarta mínu.

Páll Jens Reynisson.

Elsku afi. Þá kom að því að þú kveddir þennan heim, stuttu eftir að amma kvaddi okkur. Það hefur oft verið erfitt fyrir mig að vera svo langt frá þér og ömmu síðastliðin ár og sérstaklega síðasta hálfa árið og að hafa ekki getað kvatt ykkur almennilega, en hlutirnir gera víst ekki alltaf boð á undan sér. Mér hefur alltaf þótt ég vera náinn ykkur ömmu og þá sérstaklega á yngri árum, en afa ekkert síður seinni ár þegar ég fullorðnaðist því mér fannst alltaf gaman og heimilislegt að koma í Miðgarðinn og ræða hin ýmsu mál, þar á meðal allt sem viðkemur vegagerð og pólitík. Ekki var ég heldur spar á að spyrja þig út í þín yngri ár en ég veit að þú naust þess að segja sögur af þínum yngri árum sem sjómaður og þeim tíma sem þú vannst við vegagerð um landið allt.

Mér verður títt hugsað til þín í mínu daglega starfi og hugsa ég oft hversu gott það væri nú að geta spurt hann afa út í ýmis mál varðandi hönnun vega. Oft hef ég einnig hugsað til þess að það væri nú fínt ef danskurinn fengi hann afa lánaðan í eins og eina viku til að kenna þeim hvernig ætti að gera hlutina, þá myndi skrattinn nú hitta ömmu sína og er ég ekki í vafa um að helmingurinn af dönskum vegavinnumönnum væri kominn ískaldur, blautur og jafnvel handleggsbrotinn út á Norðursjó að læra sína lexíu eftir þá viku.

Ég á seint eftir að gleyma þeim tíma sem ég eyddi með þér í Brúarholti og þá sérstaklega í fjárhúsunum og í ýtunni þinni. Ég man þegar ég var lítill að þá var ég ekki í vafa um að ég ætti þann allra magnaðasta afa sem fyrirfyndist, hann átti jarðýtu og Ford-traktora. Ég á heldur aldrei eftir að gleyma sviðalyktinni þegar þú varst að brenna sviðahausana, eða vindlalyktinni og lyktinni af rauðum Opal sem var alltaf í bílnum þínum.

Þó að síðastliðin ár hafi vafalaust verið þér erfið þá er margt sem þú getur verið stoltur af, því þú ert af þeirri kynslóð sem hefur gengið í gegnum svo miklar breytingar og hefur upplifað svo marga hluti í gegnum þína löngu ævi.

Þín verður sárt saknað afi minn.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

Eg veit einn,

að aldrei deyr;

dómur um dauðan hvern.

(Úr Hávamálum)

Stefán Þór Pétursson.