Hermann Guðmundsson fæddist 7. október 1922. Hann lést 2. maí 2014. Útför Hermanns fór fram 10. maí 2014.

Við bræðurnir erum lánsamir að mörgu leyti. Ein af ástæðunum fyrir því er að við áttum „afa í sveitinni“ að. Hjá honum og ömmu vörðum við drjúgum tíma æsku okkar, sem við minnumst með hlýju. Við litum upp til afa. Hann borðaði kjöt af beininu með vasahníf og sló með hnúum í borðið þegar hann lagði niður í spilum. Hvort tveggja var reynt að leika eftir með miður góðum árangri. Þá eru öll spilin, stundirnar á púttvellinum og í kartöflugarðinum, auk annarra ævintýra í sveitinni okkur óþrjótandi gleðiminningar. Of langt mál yrði að gera grein fyrir þeim öllum hér. Þó verður tveggja minnst, sem við erum sammála um að standi upp úr.

Annars vegar þegar afi og amma ferðuðust með okkur fjölskyldunni hringinn í kringum landið. Ferðast var á tveimur bílum og kusum við yfirleitt að sitja í bíl afa og ömmu. Þar hafði áhrif að þau sögðu okkur sögur um allt milli himins og jarðar alla ferðina og fræddu okkur jafnóðum um það sem fyrir augu bar, en margar þessara sagna eru okkur enn ferskar í minni. Efalaust hefur það einnig haft einhver áhrif á ákvarðanatöku okkar, að alltaf var unnt að nálgast „sveitatyggjó“ hjá afa, þ.e. grænt Extra tyggjó. Hins vegar er okkur afar minnisstæð rúmlega vikulöng pössun hjá afa og ömmu. Á þeim tíma var margt skemmtilegt brallað, farið í fjölda sundferða, hjólað um sveitina, spilað við Seljalandsfoss, auk óhóflegs ísáts og margs fleira. Þessi tími hafði mikið að segja fyrir samband okkar við afa og ömmu, enda kynntumst við þeim þá vel. Á þessum árum litum við á afa sem skemmtilegan vin. Flest var látið eftir okkur og alltaf var stutt í brosið. Afi sinnti okkur bræðrum einfaldlega af einstakri alúð.

En árin færast yfir okkur öll og ný barnabörn og barnabarnabörn komu í stað okkar bræðra. Á sama tíma vorum við komnir í ný hlutverk. Við það breytist ásýnd þeirra manna sem maður augum lítur. Það sem okkur bræðrum þótti í æsku þess virði að reyna að leika eftir ber vott um aðra tíma; t.a.m. sé ráðvendni sem aðstæður kröfðust af afa. Hann var vitur maður og æðrulaus. Þá varð manni það einnig ljóst að sú gæska sem afi sýndi okkur sem börnum, og þeim sem komu í okkar stað, bar vott um einstaka hjartahlýju, lífsgleði og afar mikla þolinmæði.

Á vissum tímapunkti rennur það upp fyrir manni að það er ekki sjálfgefið að eiga slíka manneskju að, sem minningargrein þessi fjallar um. Afi er fyrirmynd sem við munum alltaf hafa að leiðarljósi, þó það ljós lýsi mismunandi leiðir eftir hlutverkunum sem við fáumst við hverju sinni. Við erum þakklátir fyrir að hafa átt hann að og gleðjumst yfir öllum þeirm dýrmætu minningum sem við áttum um hann.

Hermann Haukur

Hauksson og Þorvaldur Hauksson.