Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Staðfesting á vinnu, sakavottorð og upplýsingar um skuldastöðu ásamt ýmsu öðru, sem ekki er skylt að gefa upp, er meðal þess sem leigutakar eru krafðir um af leigusala ef þeir vilja eiga möguleika á að fá húsnæði til leigu.

„Leigusalar fara jafnvel fram á að leigjandi skili húsnæði nýmáluðu, en það er skýrt í húsaleigulögum hver á að sjá um viðhald fasteignar,“ segir Jóhann Már Sigurbjörnsson formaður Samtaka leigjenda. Ástandið á leigumarkaði hafi orðið sérlega slæmt síðasta haust og farið versnandi síðan. Framboð húsnæðis sé lítið og örvænting leigjenda mikil. Því geti leigusalar komist upp með ýmislegt.

Jóhann segir samtökin fá margar kvartanir inn á sitt borð, þær snúi m.a. að framangreindum kröfum leigusala og háum tryggingum sem leigutaki þarf að reiða fram. Dæmi séu um að leigusalinn neiti að greiða trygginguna til baka þegar leigusamningi er sagt upp, hann búi til tjón eða segist hafa eytt tryggingafénu og geti ekki borgað það til baka. Þá sé kvartað yfir því að fólk leigi út húsnæði sem það eigi ekki og segir Jóhann leigjendur þurfa að fylgjast vel með hver sé skráður fyrir fasteigninni.

Lítið að gera hjá leigumiðlurum

„Fólk er farið að selja sig á ýmsan hátt með von um húsnæði og leigusalar eru farnir að setja ákvæði í leigusamninga sem standast ekki húsaleigulög,“ segir Svanur Guðmundsson, formaður Félags löggiltra leigumiðlara. Þrátt fyrir stækkandi leigumarkað er orðið minna að gera hjá löggiltum leigumiðlurum. Ástæðan er lítið framboð á eignum til leigu. Þeir fái aftur á móti margar fyrirspurnir frá leigutökum um laust húsnæði og brot á réttindum.

Jóhann og Svanur segjast báðir vita til þess að jafnvel atvinnuhúsnæði sem er leigt út til einstaklinga sé umsetið og þar inn séu komnir einstæðir foreldrar með börn. Svo mikil sé örvæntingin.