Ævar Halldór Kolbeinsson
Ævar Halldór Kolbeinsson
Eftir Ævar Halldór Kolbeinsson: "Stækkunarferlið sem Ísland gekk inn í hjá ESB einkennist af strangari skilyrðum fyrir inngöngu en áður tíðkaðist."

Ég velti fyrir mér, eins og væntanlega margir aðrir landsmenn, stöðu mála varðandi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Eftir lestur nýlegrar skýrslu Hagfræðistofnunar og annarra gagna um þessi mál, tel ég mig hafa fundið nokkuð góðar upplýsingar varðandi stöðuna í þessum málefnum, sem ég vil koma á framfæri. Tilvitnanir til stuðnings máli mínu vel ég að hafa skáletraðar.

Lykilþætti í umsóknarferlinu tel ég vera sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Í samningum er mikilvægt að tryggja sérhagsmuni Íslendinga í þessum málum. Einnig huga ég að valkostum Íslands í Evrópusamvinnu, án ESB aðildar.

Hvað um að fylgja fordæmi Noregs?

Umsóknarferlið er nú í biðstöðu eftir fjögurra ára viðræður og óvissa með áframhaldið. M.a. er deilt um það hver á að taka ákvörðun um framhald mála. Þjóðaratkvæðagreiðsla um þessi mál er ábyggilega þarfaþing, en ég velti því fyrir mér eins og væntanlega fleiri landsmenn; Af hverju er ekki hægt að ljúka aðildarviðræðum fyrst og fela svo þjóðinni að kjósa um fyrirliggjandi valkosti eins og gert var í Noregi á sínum tíma?

Það virðist því miður ekki vera hægt að gera það á hliðstæðan hátt nú vegna ákv. þróunar hjá Evrópusambandinu. Það er orðið öðruvísi nú en þegar norska þjóðin hafnaði aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu 1994. Sem þýðir að það yrði mun fyrirhafnarmeira á margan hátt fyrir Íslendinga að ljúka aðildarviðræðum fyrst og kjósa svo um framhaldið eins og Norðmenn gerðu fyrir 20 árum.

Aðildarumsókn Íslands að ESB og ferill hennar

Í áðurnefndri skýrslu Hagfræðistofnunar, Úttekt á stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið og þróun sambandsins kemur eftirfarandi fram: „Við mat á stöðu viðræðnanna er mikilvægt að átta sig á helstu einkennum og áherslum stækkunarstefnunnar. Stækkunarstefnan hefur tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina og hafa þær endurspeglað þann efnahagslega og pólitíska veruleika sem við blasir hverju sinni.“

Einnig: „Stækkunarferlið sem Ísland gekk inn í einkennist af strangari skilyrðum fyrir inngöngu en áður tíðkaðist.“ Samtals eru nú 28 ríki í Sambandinu en voru um helmingi færri 1994 þegar Norðmenn tóku sína afstöðu. Síðan þá hafa 11 af nýjum ríkjum ESB verið fyrrverandi austantjaldsríki, sem þörfnuðust endurnýjunar á allri stjórnsýslu og fengu hana á vettvangi ESB, samfara nýrri stækkunarstefnu, sem er óþörf og of umfangsmikil fyrir Ísland.

En hver er staða fyrrnefndra lykilþátta nú?Í skýrslu Hagfræðistofnunar er m.a. vikið að stöðu mála varðandi sjávarútvegsmál: Í framvindu-skýrslum Evrópusambandsins kemur einnig fram að sjávarútvegsstefna Íslendinga sé almennt ekki í samræmi við réttarreglur sambandsins.“ Jafnframt; „Reynsla annarra þjóða sýnir glöggt að erfitt getur reynst að fá varanlegar undanþágur frá sameiginlegri stefnu sambandsins.“

Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur einnig fram að: „þegar viðræðunum var frestað hafði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ekki lagt fram rýniskýrslu sína og Ísland gat því ekki lagt fram formlega samningsaðstöðu sína í sjávarútvegi.“ Eftir fjögur ár!

Í grein eftir Jón Bjarnason, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, í Bændablaðinu þann 5. mars sl. kemur fram að ESB stöðvaði umsóknarferlið í landbúnaði í nóv. 2011, því að kröfum þess var ekki mætt af hálfu Íslands. Í aðildarviðræðunum hafði ESB tekið sér einhliða vald til að setja opnunar- og lokunarskilyrði á hvern samningskafla, og nýtti sér það.

Evrópusamstarf Íslands til þessa

Með EES samningnum 1994 má segja að Ísland hafi orðið fullgildur aðili að víðtæku evrópsku efnahagssamstarfi. Í upphafi komu fleiri þjóðir að EES í gegnum EFTA samstarfið og þá var það mjög eftirsóknarvert fyrir ESB að hafa slíkan samning. Það er ljóst að Ísland hefur haft góðan ávinning af EES samningnum og spursmál hvort hann sé ekki áfram heppilegasti farvegurinn fyrir íslenskt Evrópusamstarf í framtíðinni. Þessi samningur nær ekki til sjávarútvegs og landbúnaðar og þrengir ekki neitt að fullveldi íslensku þjóðarinnar.

Í ljósi þess sem hér hefur komið fram tel ég heppilegast að draga umsóknina til baka. Allt í efnahagslögsögunni er þá aðallega Íslendinga! Síðan væri hægt að taka þráðinn upp aftur frá byrjun ef þurfa þykir.

Það er vel þess virði í tilefni af 150 ára afmæli þýska fræðafrumkvöðulsins Max Weber (1864-1920) að virða þann frábæra árangur ESB að hafa tryggt frið sl. áratugi á mjög fjölmennu svæði í Evrópu. Weber fjallaði í fræðum sínum líka um skriffinnsku en hún viðgengst víðar en í ESB.

Vert að taka fram að hvað sem af aðildarumsókninni verður, þá nýtur Ísland góðs af samstarfi við ESB í margslungnum milliríkjaviðskiptum, þó að stækkunarstefna þess sé orðin vafasöm. Vonandi næst sæmileg sátt um þessi mál í meðferð bæði þings og þjóðar.

Höfundur er öryrki en hefur B.A.-gráðu í félagsfræði og diploma í hagnýtri þýðingafræði frá HÍ. Einnig M.Sc. á sviði fötlunarfræði frá enskum háskóla.

Höf.: Ævar Halldór Kolbeinsson