Elísabet Jóhanna Sigurðardóttir fæddist 1. október 1911. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri, 4. maí 2014. Útför hennar fór fram 9. maí 2014.

Nú þegar sumarið hefur sigrað veturinn og lóan vappar um grundir kveður þú okkur, elsku besta mamma mín. Langri vegferð er lokið og hvíldin þér kærkomin. Þú undir þér ekki alltaf hvíldar þegar mannmargt var á heimilinu, varst fyrst á fætur og síðust í rúmið.

Geislar morgunsólar glöddu ekki síður en sólarlagið sem blasti við úr eldhúsglugganum. Dásemdir náttúrunnar sem birtust jafnt í hinu smáa sem því stærra létu þig ekki ósnortna og þú kenndir mér og börnum mínum að njóta þessara gjafa lífsins. Það varð hreint ævintýri að setja niður kartöflur með þér og taka þær aftur upp að hausti. Ekki voru berjaferðirnar síðri og ótrúlegt hvað þið pabbi voruð dugleg að nýta ykkur gjafir jarðar. Í viðtali við þig í skólablaði Menntaskólans á Akureyri, en þar varst þú í tvö ár, kemur fram að þér hafi fundist gaman að mála og teikna enda bera myndirnar þínar þess merki. Einnig varst þú dugleg að yrkja og semja sögur. Ömmubörnin eiga margar uppáhaldssögur og ævintýri eftir þig.

Á þínum yngri árum var ekki mikið um fjallgöngur ef ekki var neitt erindið. Hér lést þú löngun og þrár ráða för og vílaðir ekki við að skreppa upp á Tindastól þegar svo bar undir. Þetta fjallapríl heldur áfram hjá afkomendum þínum. Það voru ekki bara fjöllin sem heilluðu. Bræður þínir voru duglegir og virtir sigmenn í Drangey og ekki linntir þú látunum fyrr en þú fékkst einnig að síga eftir eggjum. Sennilega fyrsta konan sem seig í Drangey.

Ástúð, umhyggja og hlýja einkenndu þig alla tíð. Gestrisni var þér í blóð borin sem kom vel í ljós þegar vini og vandamenn bar að garði sem gerðist æði oft. En þig einkenndi einnig metnaður í garð okkar og þú fylgdist stolt með skólagöngu og vegferð barna minna og langömmubarna. Þú áttir sjálf þann draum að ganga menntaveg og verða kennari. Sá draumur rættist ekki vegna veikinda ömmu en þú hvattir óspart þá sem yngri voru til skólagöngu og þar komu kennarar á öllum skólastigum. Nú er dagur að kveldi kominn og tími til að kveðja. Kærar þakkir, elsku mamma fyrir allt sem þú gafst okkur.

Þín dóttir,

Ásta.

Elsku amma mín. Nú er hið margrómaða ríkidæmi bernsku minnar orðið að fallegum minningum, ei meir. Að eiga, auk ömmu og afa beggja vegna, tvær langömmur og tvo langafa, allt fram á fullorðinsár var ómetanlegt og man ég hvað ég stærði mig af ríkidæmi mínu sem barn. Og ekki voru það orðin tóm þegar ég fullvissaði forvitin eyru um að amma mín yrði nú örugglega 100 ára áður en hún kveddi okkur; ég var alltaf handviss um að svo yrði. Nú hefur þú sett okkur enn eitt fordæmið til að fylgja, því nú getum við hin sem eftir komum ekki farið að deyja heldur fyrr en fullum hundrað árum er náð!

Elsku amma, þú varst fyrirmynd á svo margan hátt og þrátt fyrir breitt kynslóðabil lítum við barnabarnabörnin alltaf upp til þín, þó að núna sé örlítið lengra upp til þín en bara upp á Klettaborgina. Þú varst alltaf „amma á Klettó“ í huga okkar barnabarnabarnanna, okkur þótti óþarft að vera að „lengja“ ömmu okkar á nokkurn hátt. Þú varst alltaf í huga mínum ímynd hinnar menntuðu og gáfuðu konu, ímynd góðmennsku og þolinmæði, hlýju og botnslauss vísdóms.

Þú lagðir fyrir mig gátur, helst í vísnaformi og kenndir mér um fjöllin og náttúruna. Þú kenndir mér að slá gras með orfi og ljá og hjálpaðir mér að útbúa fyrstu ljóðabókina mína.

„Hvurslags ljóð er þetta?“ spurðir þú stundum. „Þetta er bara ljóð um ljóð,“ var svarið eitt sinnið. „Jaaáá,“ svaraðir þú, hallaðir undir flatt og brostir, „um þau þarf víst að yrkja líka“. Þú hvattir mig alltaf við skrif og raunar allt sem ég gerði, og studdir mig á svo margan hátt, allt fram á fullorðinsár.

Því gleymi ég aldrei og fyrir það get ég aldrei þakkað þér nógsamlega. Bréfin frá þér voru alltaf svo falleg og unaðsleg aflestrar, þau gat ég lesið aftur og aftur og óskaði ég þess alltaf að geta skrifað jafn fallega og þú.

Mínar fyrstu minningar eru frá því ég var tveggja ára og bjó hjá ykkur afa á Klettaborginni. Að vera í fanginu á afa á meðan hann fékk sér brauð með appelsínum. Að fá eina teskeið af mysingi og eina teskeið af hunangi hjá ömmu. Amma mín, þú sem aldrei settist niður í minningunni, flögraðir ýmist um eldhúsið, hrærðir í pottum og hagræddir katlinum, eða varst á einhvern undraverðan hátt komin beint fyrir utan eldhúsgluggann að hengja upp þvott út á snúru.

Víst bjó mamma þarna líka, en henni bregður ekki fyrir í þessum minningabrotum. Hið fyrsta sem ég man í þessu lífi er að kúra í litlu rúmi, við hliðina á rúminu ykkar afa, og þú svæfðir mig með bæn. Því vil ég kveðja þig með sömu bæn:

Vertu, guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

(Hallgrímur Pétursson.)

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson.)

Þín dótturdótturdóttir,

Ásta Sóley.