Marta Guðjónsdóttir
Marta Guðjónsdóttir
Eftir Mörtu Guðjónsdóttur: "Samfylkingin og Björt framtíð ætla að halda áfram að vinna að þessu umdeilda hverfaskipulagi fái þeir stuðning til þess í borgarstjórnarkosningum."

Vesturbærinn í Reykjavík er heillandi borgarhluti, misgamalla en heilsteyptra íbúðahverfa og rótgróins mannlífs. Hann á sér langa og fjölbreytta sögu og þar má ljóslega lesa reykvíska byggingarsögu, allt frá elstu húsunum við Vesturgötu frá því á 19. öld, og fikra sig til nútímans, upp Stýrimannastíginn, yfir Landakotshæðina og suður á Haga og Ægisíðu.

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur og útfærslur þess í nýlegum hugmyndum að hverfaskipulagi, eru alvarleg ögrun við mörg íbúðahverfi þessa borgarhluta, sérkenni þeirra og yfirbragð.

Þrenging – ekki þétting

Innan skamms eiga að rísa drungalegir íbúðakassar við Mýrargötu í hrópandi misræmi við gömlu húsin við Nýlendugötu, Bakkastíg og Vesturgötu.

Þrengja á mjög að byggðinni í fullbyggðum hverfum með því að fara inn á lóðir íbúa og nýta þær til uppbyggingar. Þannig er gert ráð fyrir byggingum á bílskúrslóðum og bílastæðum við Hjarðarhaga, Meistaravelli og á KR-svæðinu við Flyðrugranda. Gert er ráð fyrir að byggt verði á lóð skólagarðanna við Þorragötu. Fá græn svæði eru orðin eftir í hverfinu og með þessu skipulagi fær ekki einn einasti grænn blettur að vera í friði.

Hringbraut þrengd og henni breytt eins og Hofsvallagötunni

Einnig er gert ráð fyrir miklum breytingum á gatnakerfinu í hverfinu. Opna á götur og þrengja stofnæðar. Grenimelur og Reynimelur verða opnaðir út á Hofsvallagötu, Kaplaskjólsvegur út á Hringbraut, Víðimelur út á Birkimel, Hagamelur út á Hagatorg sem gerir Melskólann að umferðareyju og síðast en ekki síst þá verður Hringbrautin þrengd og gerð að svokallaðri borgargötu eins og Borgartúnið og Hofsvallagatan er.

Þessar þrengingar munu beina bílaumferð í síauknum mæli inn í íbúðahverfin. Þrengingar við Hofsvallagötu hafa nú þegar aukið umferð ökutækja gegnum íbúðahverfi Melanna um 1.000 bíla á dag. Hvað ætli þeir verði margir þegar búið er að þrengja Hringbrautina líka?

Ekki hætt við hverfaskipulagið

Vesturbæingum var illa brugðið þegar þeir sáu þessar hugmyndir og urðu agndofa og gagnrýndu þetta skipulag harðlega. Þá brá borgarstjórnarmeirihlutinn á það ráð að svæfa málið. Það er ekki nýlunda hjá þeim að svæfa óþægileg mál og það er heldur ekki tilviljun að bakkað er í málinu einmitt á þessum tímapunkti rétt fyrir kosningar. Það er augljóst mál að Samfylkingin og Björt framtíð ætla sér að halda áfram að vinna að þessu umdeilda hverfaskipulagi fái þeir stuðning til þess í komandi borgarstjórnarkosningum. Enda byggist hverfaskipulagið á Aðalskipulaginu sem Dagur B. Eggertsson fullyrti á borgarstjórnarfundi 6. maí sl. að ekki ætti að bakka með. Meirihlutinn hefur unnið að þessu skipulagi allt kjörtímabilið og kostnaðurinn við það verður kominn upp í 150 milljónir á þessu ári. Það er því ekki trúverðugt að Samfylkingin og Björt framtíð séu hætt við þessi áform sín, það er einfaldlega verið að kaupa sér tíma rétt fram yfir kosningar og svo verður skipulagið keyrt í gegn, ekki bara í Vesturbænum heldur um alla borg.

Lýðræði borgaryfirvalda

Borgarbúar hafa því miður reynslu af slíkum vinnubrögðum Samfylkingar og Bjartrar framtíðar. Þegar 12.000 foreldrar mótmæltu skólasameiningum í borginni þá var málið svæft rétt á meðan mestu mótmælin áttu sér stað og voru svo keyrðar í gegn. Vesturbæingar muna líka fundinn í Hagaskóla þegar þess var krafist að breytingarnar á Hofsvallagötu yrðu dregnar til baka. Á þessum sama fundi lýstu íbúar yfir áhyggjum sínum af stóraukinni umferð inn í hverfið eftir breytingarnar á Hofsvallagötunni og bentu á að öryggi barna sem eru að leik eða á leið í og úr skóla væri ógnað. Á þetta hefur ekki verið hlustað og þessar framkvæmdir hafa ekki verið dregnar til baka að fullu þrátt fyrir vilja íbúa og nú stendur til að setja 150 milljónir í að breyta götunni enn meira. Þá hefur heldur ekki verið hlustað á þá 70 þúsund einstaklinga sem mótmælt hafa lokun Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni. Undirskriftasöfnuninni var stungið undir stól og látið eins og hún hafi aldrei átt sér stað. Þetta er nú allt samráðið og íbúalýðræðið sem Samfylkingin og Besti flokkurinn/Björt framtíð boðuðu og staðfestir hvernig farið er gegn hagsmunum og vilja borgarbúa í hverju málinu á fætur öðru.

Höfundur er varaborgarfulltrúi og skipar 6. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Mörtu Guðjónsdóttur