Ung leikkona Hafdís Eva Pálsdóttir leikur í tveimur myndum sem verða frumsýndar með nokkurra daga millibili.
Ung leikkona Hafdís Eva Pálsdóttir leikur í tveimur myndum sem verða frumsýndar með nokkurra daga millibili. — Ljósmynd/Heiður María Rúnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Mér finnst skemmtilegast að leika í bíómyndum og mér finnst líka rosalega gaman í sundi,“ segir Hafdís Eva Pálsdóttir, 10 ára, sem fer með stórt hlutverk í kvikmyndinni Vonarstræti, sem verður frumsýnd í dag. Hún er líka í aðalhlutverki í stuttmyndinni Handan hafsins sem verður frumsýnd 21. maí, er afreksstúlka í sundi og afburðanemandi í skólanum.

Hafdís segir að sér finnist gaman að vinna með atvinnuleikurum. Það sé eins og að vera í Hollywood. Hún hefur ákveðnar skoðanir á Vonarstræti. „Myndin er mjög sorgleg, en samt rosalega skemmtileg,“ segir hún. Bætir við að það hafi verið undarlegt að sjá sjálfa sig á hvíta tjaldinu. „Mér fannst röddin í mér rosalega skrýtin og það var skrýtin tilfinning að sjá mig á stórum skjá.“

Nóg að gera

Hafdís Eva æfir sund hjá Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar, ÍBR, sex daga í viku og er þar afrekskona eins og annars staðar. Hún tók síðast þátt í sundmóti um liðna helgi og stóð sig með prýði. „Ég var sprettsundsdrottning, ofurhugi og fékk afreksverðlaun og fór þrisvar á pall, fékk tvenn gullverðlaun og eitt brons.“ Hún býr á Ásbrú en æfir í Keflavík. „Ég er rosalega sjálfstæð og tek bara strætó,“ segir hún.

Þó að mikið sé að gera í frístundum bitnar það ekki á náminu. „Ég fékk 10 í stærðfræði í samræmdu prófunum og mér gekk mjög vel og fékk verðlaun frá bæjarstjóranum í Keflavík.“

Þrátt fyrir gott gengi á hinum ýmsu sviðum hefur Hafdís nægan tíma til að rækta vinskapinn og fjölskylduna. „Mér finnst rosalega skemmtilegt að leika við vinkonur mínar og þegar ég fer til pabba í Reykjavík um pabbahelgar gerum við margt skemmtilegt saman. Svo fer ég oft með Óskari pabba á hreystivöllinn, en hann er Íslandsmeistari í bekkpressu.“

Hafdís segir að stundum sé erfitt að sinna öllu í einu. „Þegar ég var að leika í bíómyndunum fékk ég alveg fjóra daga í frí, því ég var í bíómyndunum frá klukkan átta til átta alla dagana. Í Vonarstræti lék ég bara á nóttunni, var gjörsamlega uppgefin og svaf næstum því í heilan dag á eftir.“

Hæfileikarnir eru á mörgum sviðum en markmiðin eru skýr. „Mig langar helst að vera í öllu en markmiðin mín eru að komast til Hollywood og reyna að komast á Ólympíuleikana,“ segir Hafdís Eva Pálsdóttir.

Hefur sett upp leikrit í mörg ár

Hafdís Eva Pálsdóttir er dóttir Maríu Hauksdóttur og Páls Kristinssonar en fósturfaðir hennar er Óskar Ingi Víglundsson. María segir að fyrstu fimm ár ævinnar hafi Hafdís verið langveik. Þá hafi hún gjarnan verið með geislaspilara, spilað barnaleikrit, verið með búninga og spegil og verið heilu dagana í hlutverki. „Hún hefur stöðugt verið að setja upp leikrit og verið með leiksýningar og danssýningar,“ segir María. Hafdís byrjaði í leiklistarskóla sex ára. „Þar lék ég tré og var sögumaður,“ segir hún. „Pabbi er rosalega duglegur að sýna mér bíómyndir og hann er líka í kvikmyndabransanum eins og ég.“ Nýlega fór hún í áheyrnarprufur fyrir söngleikinn Billy Elliot. „Ég vona bara að ég komist áfram.“

María leggur áherslu á að Hafdís, sem hafi fengið 10 á samræmdu prófunum, hafi ekkert þurft að hafa fyrir náminu og þess vegna hafi hún fengið að vera eins mikið í leiklistinni og sundinu og raun beri vitni. „Hún hefur þurft að fá frí í skólanum vegna kvikmyndanna, en það hefur gengið.“