Lög á verkfall Flugfreyjur fjölmenntu á þingpalla í október árið 1985 þegar Alþingi samþykkti frumvarp um stöðvun verkfalls flugfreyja.
Lög á verkfall Flugfreyjur fjölmenntu á þingpalla í október árið 1985 þegar Alþingi samþykkti frumvarp um stöðvun verkfalls flugfreyja.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Lagasetning Alþingis í gær sem frestar verkfallsaðgerðum flugmanna hjá Icelandair er 14. löggjöfin frá árinu 1985, þar sem stjórnvöld grípa inn í vinnudeilur og setja bann við verkföllum.

Fréttaskýring

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Lagasetning Alþingis í gær sem frestar verkfallsaðgerðum flugmanna hjá Icelandair er 14. löggjöfin frá árinu 1985, þar sem stjórnvöld grípa inn í vinnudeilur og setja bann við verkföllum.

Rúm milljón vinnudagar töpuðust í 166 verkföllum

Í grein eftir Friðrik Friðriksson, hdl. og MS í mannauðsstjórnun og Gylfa Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild HÍ um verkföll á Íslandi 1985-2010, sem birt var í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla, kemur fram að á árunum 1985 til 2010 kom til 166 verkfalla á vinnumarkaði hérlendis og samtals töpuðust 1.187.411 vinnudagar vegna þessara aðgerða. Gylfi Dalmann og Friðrik komust að því í rannsókn sinni að frá 1985 og til 2010 voru sett 12 lög á verkföll. Þar af tengdust þrjár vinnudeilur flugstarfsemi, fimm farmönnum og fiskimönnum, tvenn lög voru sett vegna opinberra starfsmanna, ein vegna mjólkurfræðinga og loks ein til að banna vinnustöðvanir almennt.

Frá því að greinin birtist á árinu 2010 hefur löggjafinn tvívegis stöðvað verkföll með lagasetningu. Í Herjólfsdeilunni í byrjun apríl sl. og nú síðast með lögunum sem samþykkt voru í gær á verkfall flugmanna hjá Icelandair.

Allur gangur hefur verið á því á hvaða tímapunkti löggjafinn hefur gripið inn í kjaradeilu, ýmist áður en verkfall hefst og þar til langt er liðið á deilu og ekki var útlit fyrir að deilendur næðu sáttum. Rökin sem færð eru fyrir lagasetningu á verkföll hafa verið mismunandi. Gylfi og Friðrik segja að skipta megi ástæðum lagasetningar vegna vinnudeilna í þrennt. ,,Í fyrsta lagi hafa lög verið sett ef efnahagslegt vægi þjóðarbúsins og stöðugleiki á vinnumarkaði eru í húfi, í öðru lagi ef heildarhagsmunir atvinnugreinar eru í húfi og loks ef lögmælt verkefni og framkvæmd þeirra hjá hinu opinbera eru í húfi,“ segir í greininni.

Þegar verkfall flugfreyja var stöðvað með lögum í október 1985 var rökstuðningurinn fyrst og fremst sá að vinnustöðvunin tefldi mun víðtækari hagsmunum í tvísýnu en þeirra sem áttu í kjaradeilunni. Árangri af erlendu kynningarstarfi yrði stefnt í voða og verkfallið myndi skerða nauðsynlegar samgöngur landsins við umheiminn.

Önnur rök voru höfð uppi þegar sett voru lög á verkfall mjólkurfræðinga 1986. Var þá m.a. vísað til þess að kröfur mjólkurfræðinga fælu í sér verulegar hækkanir umfram það sem fælist í samningum sem gerðir höfðu verið á almenna vinnumarkaðinum, auk þess sem verkfallið ylli mikilli röskun í mjólkurframleiðslu og miklu verðmætatjóni.

Þegar flugvirkjar hjá Icelandair fóru í verkfall í mars 2010 fékk ríkisstjórnin samþykkt lög sama dag og það skall á, þar sem vinnustöðvunin var bönnuð. Þá var m.a. vísað til þess í rökstuðningi að flugvirkjar hefðu staðið fast á kröfum um verulega hækkun launa þótt félaginu hefðu verið boðnar sambærilegar eða meiri kjarabætur en samið hefði verið um við aðra launahópa. Verkfallið hefði í för með sér verulega röskun flugs til og frá landinu og mundi valda íslensku efnahagslífi verulegu tjóni, auk þess sem vísað var til þess að launahækkanir umfram það sem þegar hefði verið samið um, hefðu neikvæð áhrif á aðra kjarasamninga og stöðugleika á vinnumarkaði.

„Oft neyðarúrræði“

„Verkföll eru vandmeðfarin úrræði og oft neyðarúrræði launþega,“ segir í grein Gylfa Dalmann og Friðriks. Verkfallsvopnið bítur með mismunandi hætti eftir því hver í hlut á og stéttarfélög eru í ólíkri aðstöðu til að hafa áhrif á viðsemjendur sína. Gylfi og Friðrik benda í grein sinni á að sum stéttarfélög fara með samningsrétt fyrir fámennar stéttir sem eru í lykilstöðu. Þessi stéttarfélög geti farið í verkfall án langs undirbúnings eða mikils kostnaðar fyrir félagsmenn og þau geta haft víðtæk áhrif út í samfélagið. „Sveigjanleiki þeirra og áhrif af stöðvun starfa þeirra getur gefið þeim aukið vægi við gerð kjarasamninga. Dæmi um slík stéttarfélög eru Mjólkurfræðingafélag Íslands, Flugvirkjafélag Íslands og Félag flugumferðarstjóra, svo einhverjir hópar séu nefndir,“ segir í greininni.