— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Rífandi stemming var á heimavelli Hauka á Ásvöllum í Hafnarfirði í gærkvöld þegar heimamenn tóku á móti ÍBV frá Vestmannaeyjum í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Rífandi stemming var á heimavelli Hauka á Ásvöllum í Hafnarfirði í gærkvöld þegar heimamenn tóku á móti ÍBV frá Vestmannaeyjum í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Rúmlega tvö þúsund áhorfendur voru á vellinum, þar af nærri því helmingurinn Eyjamenn sem lögðu leið sína upp á land til að styðja sitt lið. Skiptust stúkurnar í haf rauðra og hvítra treyja liðanna tveggja en svo fór að ÍBV fór með sigur af hólmi með einu marki, 28-29.

„Þetta er með því flottara sem ég hef séð, hversu vel áhorfendur taka þátt í leiknum og hve stemmingin er frábær,“ sagði Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, í gærkvöld. Hann líkir stemmingunni við þá sem var á Ásvöllum á leik Íslands við Eistland skömmu eftir að liðið vann silfur á Ólympíuleikunum 2008.

„Þetta er báðum félögum til mikils sóma. Þetta hafa verið frábærar viðureignir. Handboltinn fær að njóta sín, það er það sem skiptir öllu máli.“

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, sagði stemminguna í Hafnarfirði einstaka þegar blaðamaður náði af honum tali í hálfleik.

„Hér voru allir mættir klukkutíma fyrir leik og byrjaðir að syngja og skemmta sér. Stuðningsmennirnir eru duglegir við að styðja sitt lið. Þetta er bara frábær handboltaleikur og mikil og góð auglýsing fyrir handboltann,“ sagði hann.