Trúbadorar Frá sýningu Ragnars Kjartanssonar í New Museum.
Trúbadorar Frá sýningu Ragnars Kjartanssonar í New Museum.
Fjölmiðlar vestan hafs og austan beina kastljósinu þessa dagana að fyrstu safnasýningu Ragnars Kjartanssonar í New York, en hún var opnuð í liðinni viku í New Museum samtímalistasafninu.

Fjölmiðlar vestan hafs og austan beina kastljósinu þessa dagana að fyrstu safnasýningu Ragnars Kjartanssonar í New York, en hún var opnuð í liðinni viku í New Museum samtímalistasafninu. Er talað um hann sem einn helsta gjörningalistamann sinnar kynslóðar, maraþonlistamann sem skammast sín ekkert fyrir að vera rómantískur.

Hinn kunni gagnrýnandi Peter Schjehldahl skrifar langa grein í The New Yorker -tímaritið, þar sem hann fylgist meðal annars með Ragnari undirbúa tíu tónlistarmenn sem leika á gítara og syngja tónverk eftir Kjartan Sveinsson, alla daga meðan á sýningunni stendur. Ragnar harmar að hafa ekki tekist að fá leyfi til að þeir reyki í safninu meðan á flutningnum stendur, en texti verksins er byggður á senu í kvikmyndinni Morðsögu frá 1977 þar sem húsmóðir lætur sig dreyma um að tæla pípulagningamann. Þau voru leikin af foreldrum Ragnars.

Gagnrýnandi The Guardian fjallar ítarlega um sýninguna og segir að innihald hennar kunni að hljóma fáránlega, þegar verkunum er lýst á pappír, en í rauninni sé hún eins og draumur, gamaldags og nútímaleg í senn. Tilfinningaleg einlægni listamannsins gangi upp.

Í viðtali í The Art Newspaper er Ragnar spurður að því hvort honum finnist auðveldara að vera einlægur um tilfiningar þegar hann er að þykjast í gjörningum sínum. „Nei,“ svarar hann. „Fyrir mér eru performansarnir frekar flóttaleið frá efasemdum hversdagsins. Þeir hafa verið einskonar flóttaleið frá lífinu.“