Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur fékk fyrst í gær bréf Isavia frá 23. apríl 2014.

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur fékk fyrst í gær bréf Isavia frá 23. apríl 2014. Bréfið er stílað á Reykjavíkurborg – Umhverfis- og skipulagssvið, Skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík og varðar: „Staðreyndavillur í umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar: „Samantekt á athugasemdum vegna breytinga á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar“, 10. mars 2014“.

Morgunblaðið greindi í gær frá efni bréfs Isavia. Við vinnslu þeirrar fréttar var leitað viðbragða hjá Reykjavíkurborg. Þau bárust ekki í tæka tíð svo hægt væri að birta þau með fréttinni. Skýringin á því kom í gær. Að sögn Björns Axelssonar, skipulagsfulltrúa, barst bréfið fyrst í gærmorgun eftir að hann hafði haft samband við Isavia. Öll bréf eru skráð inn hjá Umhverfis- og skipulagssviði, en þar hafði það aldrei verið skráð.

Björn sagði að athugasemdirnar yrðu að sjálfsögðu skoðaðar og tekið tillit til þeirra, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg.

gudni@mbl.is