[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Júdó Þorkell Gunnar Sigurbjörnss. thorkell@mbl.is Þormóður Árni Jónsson náði frábærum árangri í júdói um síðustu helgi þegar hann krækti í silfur í þungavigtarflokki á Opna breska meistaramótinu í júdói.

Júdó

Þorkell Gunnar Sigurbjörnss.

thorkell@mbl.is

Þormóður Árni Jónsson náði frábærum árangri í júdói um síðustu helgi þegar hann krækti í silfur í þungavigtarflokki á Opna breska meistaramótinu í júdói. Þormóður beið lægri hlut fyrir Ítalanum Alessio Mascetti í úrslitum á þessu sterka móti, en Mascetti er í 9. sæti á stigalista Evrópska júdósambandsins í +100 kg þyngdarflokki.

Þetta var fyrsta keppni Þormóðs á erlendum vettvangi í heilt ár, eða síðan hann sleit vöðvafestingu í upphandleggsvöðva á Norðurlandamótinu í fyrra. „Þar sem ég hef ekkert keppt neitt erlendis í talsverðan tíma var ég öðruvísi stemmdur en fyrir önnur mót. Ég var svolítið stressaðari heldur en venjulega, “ sagði Þormóður þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær.

Ætlaði sér í undanúrslit

„Þegar ég sá hverjum ég myndi mæta þá fann ég strax að ég vildi að minnsta kosti komast í fjögurra manna úrslit og sagði við sjálfan mig að þegar ég væri kominn þangað – þá fyrst myndi mótið byrja. Svo gekk það bara allt upp. Undanúrslitaglíman var þvílíkur barningur reyndar, en ég hafði það í restina þar,“ sagði Þormóður Árni en hann sigraði Marmo Luco frá Ítalíu í undanúrslitum um helgina.

Árangur Þormóðs er ákaflega góður, sérstaklega vegna þess hve langt er síðan hann hefur keppt á erlendum vettvangi, en Opna breska meistaramótið er sterkasta mótið í Evrópubikarsmótaröðinni.

Hástökkvari á stigalista

Silfrið á Opna breska meistaramótinu skilaði Þormóði Árna 42 stigum á stigalista Evrópska júdósambandsins í þungavigtarflokki, +100kg. Það skaut honum beint upp í 18. sæti listans en nær allir sem eru fyrir ofan Þormóð á stigalistunum hafa eitt eða fleiri mót frá síðasta ári sem telja inn á listann.

Þetta var hins vegar fyrsta mótið hjá Þormóði sem telur til stiga á listann. „Ég hef ekki keppt í Evrópubikarnum í tvö ár og var þess vegna dottinn út af stigalistanum. Af þeim sökum gat ég mætt hverjum sem var um helgina og þurfti bara að vinna mig upp. Þannig ef ég myndi keppa aftur á næstunni á Evrópubikarmóti fengi ég líklega lakari andstæðinga í upphafi keppni,“ sagði Þormóður.

„Stigin í Evrópubikarnum telja ekki fyrir Ólympíuleikana. Það eru bara stigin í heimsbikarnum. En miðað við það að ég hef verið meiddur og eytt mestu púðri í skólann þá var fínt að gera alvöruhluti á mínu fyrsta alvörumóti eftir þetta allt saman,“ sagði Þormóður.

Ákveður sig með ÓL í haust

Þormóður Árni vann sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og í London 2012 en liggur enn undir feldi hvort hann stefni til Ríó de Janeiro á leikana þar 2016. „Ég legg upp með það að standa mig vel á heimsmeistaramótinu sem verður í Síberíu í haust og svo getur verið að ég fari og keppi á heimsbikarmóti í Miami í ágúst. Næstu 3-4 mánuðir snúast um að gera sig kláran fyrir HM. Að sjálfsögðu ef mér gengur vel, þá er ég að safna stigum fyrir Ólympíuleikana. Þannig mitt markmið í dag vinnur í raun að því markmiði að fara á Ólympíuleika, ég ákveð það,“ sagði Þormóður sem vill setjast niður með fjölskyldu sinni áður en hann tekur ákvörðun um það hvort hann stefni til Ríó eður ei.

ÍSÍ mætti fara að hringja

„Ef ég held uppteknum hætti og verð áfram vaxandi næstu mánuði og gengur vel bæði í Miami og á HM þá er ég náttúrlega búinn að vinna mig vel upp stigalistann fyrir Ólympíuleika og þá verð ég að taka ákvörðun. En þetta er gríðarlega stór ákvörðun því ég verð af miklum tekjum og öðru og ég þarf eiginlega bara að lifa eins og munkur. Það þarf helst líka að verða mikil breyting hjá ÍSÍ gagnvart mér. Ég er mjög ósáttur með stöðu mína vegna afreksstyrkja. Það hefur kannski ekki verið gefið út neitt plan hjá þeim núna. En mér finnst að þau hjá ÍSÍ megi fara að hringja í mig fljótlega,“ sagði júdókappinn Þormóður Árni Jónsson.