Umgjörð „Hvort sem litið er á verkin sem hús eða húsgögn þá skírskota þau til þeirrar hlutlægu umgjarðar sem maðurinn skapar sér, umgjarðar sem jafnframt mótar tilveruna í líkamlegum sem huglægum skilningi,“ segir í gagnrýni um sýningu Guðjóns Ketilssonar, sem er hér meðal verka í Hverfisgalleríi.
Umgjörð „Hvort sem litið er á verkin sem hús eða húsgögn þá skírskota þau til þeirrar hlutlægu umgjarðar sem maðurinn skapar sér, umgjarðar sem jafnframt mótar tilveruna í líkamlegum sem huglægum skilningi,“ segir í gagnrýni um sýningu Guðjóns Ketilssonar, sem er hér meðal verka í Hverfisgalleríi. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til 17. maí. Opið þriðjud.-föstud. kl. 11-17 og laugard. kl. 13-16. Aðgangur ókeypis.

Hillur, skápar, kommóður og aðrar hirslur hafa breyst í húsablokkir á myndlistarsýningu í Hverfisgalleríi við Hverfisgötu. Á gólfi gallerísins standa þau eins og þyrping voldugra „bygginga“ með reglulegum gluggaröðum. Eða hafa byggingarnar í nágrenninu skroppið saman og komið sér fyrir í galleríinu? Sýningargesturinn getur þá sett sig í spor Gúllívers í Putalandi og skimað inn um glugga „húsanna“ eftir smáfólkinu innandyra. Þar er þó hvorki fólk né innanstokksmuni að sjá. Á hinn bóginn eru húsin sjálf húsgögn, eins og áður segir, og áhorfandinn freistast því í hugskoti sínu til að sjá sjálfan sig þar sem hann er staddur í rúmgóðu herbergi (galleríinu) í nokkuð stórri blokk. Efniviður þessara sérkennilegu „húsa“ er húsgögn sem hæfa stærð gallerígesta; eitt þeirra gæti upprunalega hafa verið skrifborð úr næsta húsi, annað klæðaskápur, hið þriðja bókahilla o.s.frv. Núna eru þau hins vegar skúlptúrar á sýningu Guðjóns Ketilssonar sem ber yfirskriftina „Ný verk“.

Þau eru verk og ný í þeim skilningi að Guðjón hefur nostrað heilmikið við húsgögnin sem orðið hafa á vegi hans og breytt þeim. Þetta eru fremur þunglamaleg, „gamaldags“ viðarhúsgögn, vönduð smíðaverk sem Guðjón hefur gefið sér tíma til að slípa, skera út „glugga“, fjarlægja höldur og skraut eða bæta við krossviðarplötu, stafla einu húsgagni ofan á annað til að framkalla ásýnd húsablokka. Antíkhúsgögnin virðast þannig svipt sérkennum sínum, þau eru afmynduð og þau þvinguð í staðlað form – ef til vill sem ádeila á byggingarframkvæmdir í borginni þar sem saga og sérkenni er fótum troðin af græðgislegum nýbyggingum sem reist eru án tillits til umhverfisins. Dæmin eru mýmörg. Byggingar Guðjóns eru þó á hinn bóginn einmitt sérkennilegar og gæddar annarlegri og ankannalegri fegurð forms og áferðar. Þær kveikja hughrif innileika og snertingar sem tengist innviðum; viðaráferð, innri rýmum og innanstokksmunum: sem „gögn“ varðveita húsgögn sögur, minningar og hugmyndir sem tengjast gildi þeirra og gagn semi. Hvort sem litið er á verkin sem hús eða húsgögn þá skírskota þau til þeirrar hlutlægu umgjarðar sem maðurinn skapar sér, umgjarðar sem jafnframt mótar tilveruna í líkamlegum sem huglægum skilningi. Leikur með stærðarhlutföll milli sýningargestsins og „húsanna“ gerir hann jafnframt meðvitaðri en ella um líkama sinn og tengsl sín við hina ytri umgjörð. Herbergi húsanna, nú eða hólf og skúffur húsgagnanna, gætu allt eins verið hans innri hirslur eða rými er gengið hafa í samband við umlykjandi rými. Og hvað býr í slíku rými? Nú reynir á hvern og einn að lesa merkingu inn í verkin og geta þá kviknað ýmsar kenndir og hugrenningar. Þannig tekst listamanninum að fá áhorfandann til liðs við sig í hinni skapandi íhugun.

Teikningar á vegg – útfærðar af sömu vandvirkni og skúlptúrarnir – sýna hrá og hálfreist hús úr steypu þar sem þau skyggja á fjallasýn og umbreyta henni. Sjónarhorn teiknarans varpar ljósi á hvernig byggingarnar koma inn í umhverfið og móta það um leið. Teikningarnar styðja þannig túlkun á skúlptúrunum sem gagnrýnum vangaveltum um samband menningar og umhverfis – og í heild vekur þessi fallega sýning til umhugsunar um mannleg gildi og samleik tilvistar, vistarvera og umheims.

Anna Jóa

Höf.: Anna Jóa