Efnahagshrunið á Íslandi í október 2008 var að mörgu leyti sérstakt í umfangi og hraða og eru enn ófyrirséð þau áhrif sem efnahagshrunið mun mögulega hafa á heilsufar þjóðarinnar. Fyrri erlendar rannsóknir hafa gefið vísbendingar um neikvæð áhrif en einnig jákvæð áhrif. Markmið þessarar rannsóknar var að rannsaka áhrif efnahagshrunsins á Íslandi á andlega líðan og heilsutengda hegðun. Allar rannsóknirnar voru unnar úr stórri heilsufarsrannsókn sem framkvæmd var á vegum Embættis landlæknis árin 2007 og 2009. Upphaflegt þýði rannsóknarinnar var byggt á lagskiptu slembiúrtaki íslensku þjóðarinnar. Helstu útkomubreyturnar voru andleg líðan (streita (N=3755) og þunglyndiseinkenni (N=3783)), reykingar (N=3755) og tannheilsa (N=4100). Streita var mæld með íslenskri útgáfu af Perceived Stress Scale (PSS-4) og þunglyndiseinkenni voru mæld með WHO-5 spurningalistanum.
Niðurstöðurnar benda til þess að efnahagsþrengingarnar árið 2008 hafi haft neikvæð áhrif á andlega líðan fullorðinna á Íslandi, þá sérstaklega meðal kvenna. Á hinn bóginn komu í ljós jákvæðar breytingar í heilsutengdri hegðun, t.d. með minna algengi reykinga og hegðun sem gæti leitt til betri tannheilsu. Frekari rannsóknir ættu að beinast að langtíma eftirfylgd á þróun andlegrar líðanar og samspili við heilsutengda hegðun. Leiðbeinandi var dr. Arna Hauksdóttir.