Gísli Sigurjón Sigurðsson húsasmíðameistari fæddist á Akranesi 4. nóvember 1934. Hann lést 23. apríl 2014 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.

Útför Gísla fór fram frá Akraneskirkju 14. maí 2014.

Elsku pabbi. Það er sárt að þú sért farinn. Að geta ekki hitt þig aftur, verið með þér og spjallað. En margs er að minnast og þér á ég margt að þakka. Þú varst góð fyrirmynd á svo margan hátt. Það var ávallt gott að leita ráða hjá þér, þú varst góður og traustur vinur og við gátum talað saman um allt, sama hvað var. Þú lagðir ávallt mikla áherslu á heiðarleika, kurteisi og vinnusemi og barst virðingu fyrir fólki og skoðunum þess, þótt þú værir ekki endilega sammála þeim.

Þú varst laginn og hafðir áhuga á að fræða og kenna þegar til þín var leitað. Þú gerðir aldrei kynjamun. Þér fannst t.d. jafnsjálfsagt að kenna okkur systrunum að tálga og beita smíðaverkfærunum og þú hafðir kennt bræðrum okkar áður. Við vorum alin upp við að það væru engin sérstök kvenmanns- eða karlmannsverk á heimilinu, bara verkefni sem leyst voru í sameiningu og samvinnu. Þannig unnuð þið mamma alltaf og voruð samstiga.

Þú varst mikill fjölskyldumaður og þér þótti ofur vænt um mömmu og fjölskyldu þína alla. Það fór aldrei framhjá neinum og það kom einnig svo vel fram í ljóðum þínum og skrifum. Þú varst góður penni og hafðir skemmtilegan frásagnarstíl, bæði hnyttinn og tilfinningaríkan. Ég er ótrúlega glöð yfir því að við skyldum ná að gefa út „Bergrúnir“, bókina ykkar mömmu. Hún er fjársjóður a.m.k. fyrir okkur systkinin og okkar afkomendur. Elsku pabbi, takk fyrir allt. Þín dóttir,

Guðrún.

Elsku besti afi minn. Ég trúi því ekki enn að þú sért farinn frá okkur og vil ekki trúa því. Elsku afi minn, ef þú bara vissir hversu mikið ég sakna þín. Ég vil þakka þér fyrir allar minningarnar í gegnum árin og þakka þér fyrir að vera ein af fyrirmyndum mínum. Ein af uppáhaldsminningum mínum með þér var þegar þú spilaðir oft lagið „Bíddu pabbi, bíddu mín“ fyrir okkur krakkana þegar þið amma áttuð heima á Hjarðarholtinu. Ég get ennþá séð fyrir mér brosin á vörum ykkar ömmu þegar við Sylvía hlupum syngjandi og dansandi út um allt þegar þetta lag var spilað. Þú varst góður maður og hugsaðir vel um fjölskyldu og afkomendur þína. Sú ást sem þú barst til ömmu var ólýsandi og það gleður mig í sorginni að hugsa til þess að þið séuð sameinuð á ný og að Jón Elías hafi ykkur bæði hjá sér eftir langa bið. Eins sárt og það er fyrir okkur að hafa misst þig þá veit ég að það var enn sárara fyrir þig að vera ekki lengur hjá ömmu. Takk fyrir allt og ég elska þig, afi minn. Ég bið þig að knúsa ömmu frá mér því ykkar er sárt saknað og minning ykkar mun aldrei gleymast. Þín,

Ragnheiður Eva

Guðmundsdóttir.