Minningar Fjögur ný frímerkjaverk eru með verkum Gunnars Arnar.
Minningar Fjögur ný frímerkjaverk eru með verkum Gunnars Arnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Mig hafði dreymt um að færa myndlistina inn í þennan litla ramma frímerkjanna og fyrir sjö árum lét ég verða af því,“ segir danski galleristinn og myndlistarmaðurinn Sam Jedig og dreifir úr frímerkjaörkum á...

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Mig hafði dreymt um að færa myndlistina inn í þennan litla ramma frímerkjanna og fyrir sjö árum lét ég verða af því,“ segir danski galleristinn og myndlistarmaðurinn Sam Jedig og dreifir úr frímerkjaörkum á borðið. Frímerkin eru myndlistarverk fjölda listamanna, og þar á meðal eftir hann sjálfan. Jedig er eigandi gamalgróins gallerís í Danmörku, Stalke gallerísins, og hefur meðal annars sett þar upp sýningar með verkum íslenskra listamanna á borð við Gunnar Örn Gunnarsson, Helga Þorgils Friðjónsson, Guðmund Ingólfsson og Sigurgeir Sigurjónsson En nú er Jedig á Íslandi og opnar í dag klukkan 17 sýningu í Galleríi Gangi, heimagalleríi Helga Þorgils að Rekagranda 8, þar sem allir eru velkomnir, á frímerkjum sem hann framleiðir undir yfirskriftinni Artstamp.dk.

Gott samstarf við Íslendinga

Í tilefni opnunarinnar gefur Artstamp.dk út ný upplagsverk í dag, með verkum eftir Gunnar Örn, sem lést árið 2008 en Jedig starfaði lengi með, og Helga Þorgils. Þá hefur Jedig gert nokkur frímerjaverk eftir eldri íslenskum frímerkjum; eftir bankahrunið 2008 breytti hann til að mynda nokkrum á persónulegan hátt. Jedig hannar merkin sjálfur, prentar þau og sker til. Frímerkin eru gefin út í litlum upplögum, 50 til 3000 af hverju, arkirnar eru tölusettar og listamennirnir fá helming upplagsins og geta annaðhvort sýnt þær sem heilar arkir, eða bútað þau sundur, sett á umslög og sent, eins og farandlistaverk út um heiminn.

„Þessi frímerki hafa vakið athygli víða,“ segir hann. „Fyrst var ég að hugsa um að skapa ímyndað land sem gæfi út þessi myndlistarmerki, því hin opinberu frímerki í Danmörku eru frekar leiðinleg.“ Hann tekur fram fyrsta frímerkið sem hann bjó til, með myndverki eftir listamanninn Albert Mertz.

„Hann var beðin um að gera mynd fyrir opinbert danskt frímerki, skilaði þessu fína verki af sér, en þegar á reyndi kunni einn í valnefndinni ekki að meta það. Albert reiddist því og tók frummyndina frá þeim. Eftir að hann lést fékk ég teikninguna hjá dóttur hans og gaf hana út, eins og til stóð. Það vakti athygli.

Þessi listaverk fara út um heiminn á umslögum en hér á sýningunni má sjá arkirnar heilar, og auk þess umslög eins og þau sem ég geri alltaf með frímerkjunum í samstarfi við listamennina. Ég sendi þau svo til mín hvar sem ég er staddur í heminum og þegar þau hafa skilað sér með póststimplunum eru þau tilbúin sem listaverk.“

Hann tekur fram umslög sem hann hefur unnið hér síðustu daga með frímerkjunum með verkum Gunnars Arnar og Helga Þorgils, auk þess sem hann hefur notað opinbert frímerki með myndum af glerhjúp Ólafs Elíassonar á Hörpu. Jedig finnst ánægjulegt að geta notað myndir af verki þess gamla vinar síns og samstarfsmanns.

Gegnum tíðina hefur Jedig átt í margvíslegum samskiptum við íslenska listarmenn. Hann var unglingur þegar hann kynntist Gunnari Erni fyrst og fyrstu myndverkin sem hann eignaðist voru eftir Gunnar. Löngu síðar, árið 1994, leiddi Ólafur Elíasson, sem var þá starfsmaður í galleríi Jedig, þá Gunnar aftur saman. Ólafur starfaði hjá Jedig í galleríinu í nokkur ár, samhliða námi, og þar voru fyrstu tvær einkasýningarnar á verkum hans. „Gunnar Örn mælti með fleiri íslenskum listamönnum til sýninga og síðan hef ég haldið þeim góðu tengslum við,“ segir Sam Jedig.