Umboðslausir komissarar ESB stóðu fyrir samsæri um að bola frá forsætisráðherra eins stærsta ríkis sambandsins

Ný bók Timothy Geithner, sem var seðlabankastjóri í New York, hefur vakið nokkra athygli. Hann var þá, ásamt Hank Paulson fjármálaráðherra og Bernanke seðlabankastjóra Bandaríkjanna, í því óvænta verkefni að ákvarða björgunaraðgerðir í bankaskjálftanum 2008. Það eru engar ýkjur að verkefnið hafi komið óvænt. Enda voru engin plön um viðbrögð fyrir hendi og Paulson fjármálaráðherra hefur í sinni bók um sama efni lýst því, hvernig hinar stórkarlalegu ákvarðanir, sem taka þurfti, voru nánast spilaðar eftir eyranu, og án þess að nokkur minnisblöð eða fundargerðir væru skrifaðar. (Íslenska nefndin sem rannsakaði hið smávaxna íslenska afbrigði þessara atburða var áhugasömust um að finna slíka pappíra og hvort ekki hefði verið farið út í hörgul eftir viðbragðsáætlunum úr gömlum möppum!)

En það virðast fleiri atriði hafa vakið athygli úr hinni nýju bók Geithners, sem tók við embætti fjármálaráðherra af Hank Paulson. Þannig segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, frá því að í bókinni komi fram að embættismenn frá Evrópusambandinu hafi leitað eftir aðstoð Bandaríkjamanna við að koma Silvio Berlusconi frá völdum sem forsætisráðherra Ítalíu haustið 2011. Geithner segist hafa neitað að taka þátt í samsærinu, með þessum orðum: „Við getum ekki verið ataðir blóði.“

Fram kemur að ESB-mennirnir vildu að Bandaríkin neituðu Ítalíu um aðstoð frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum nema með því skilyrði að Berlusconi færi frá. Um þetta segir Styrmir:

„Þetta eru óneitanlega athyglisverðar fréttir, sem ekki verða dregnar í efa vegna þess hver sögumaðurinn er. Þær sýna að æðstu stjórnendur ESB skirrast ekki við að beita ólýðræðislegum aðferðum til þess að koma frá völdum í einstökum aðildarríkjum ESB mönnum sem þeim líkar ekki við.

Sama haust hafði þáverandi forsætisráðherra Grikklands, George Papandreou, lýst því yfir opinberlega að hann mundi efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi í byrjun desember um björgunarsamninga, sem ríkisstjórn hans hafði gert við ESB/AGS/SE. Hann var þvingaður til þess, nánast fyrir opnum tjöldum, að falla frá þeim áformum.

Nú liggja fyrir margar heimildir um að ESB og Seðlabanki Evrópu þvinguðu írsku ríkisstjórnina á sínum tíma til þess að lýsa yfir ábyrgð írska ríkisins á öllum skuldbindingum írsku bankanna, þegar fjármálakreppan var skollin á.

Svona eru vinnubrögðin.

Hvað ætli Íslendingar mundu segja ef löglega kjörin ríkisstjórn á Ísland yrði sett frá með bolabrögðum af þessu tagi?“