Helmut Kohl
Helmut Kohl
Helmut Kohl, fyrrverandi kanslari Þýskalands, hvatti í gær til frekari sameiningar Evrópu og sagði að Evrópa ætti að vera íbúum álfunnar hjartans mál. „Evrópa er framtíð okkar,“ sagði Kohl í viðtali við dagblaðið Bild.

Helmut Kohl, fyrrverandi kanslari Þýskalands, hvatti í gær til frekari sameiningar Evrópu og sagði að Evrópa ætti að vera íbúum álfunnar hjartans mál.

„Evrópa er framtíð okkar,“ sagði Kohl í viðtali við dagblaðið Bild. „Evrópa er örlög okkar. Evrópa er spurning um stríð og frið, með öllu sem það felur í sér, þar á meðal ekki bara frið heldur frelsi, velmegun og lýðræði.“

Kohl, sem er 84 ára, sagðist uggandi vegna ástandsins í Úkraínu og sagði mikilvægt að taka upp viðræður að nýju. Hann sagði reynsluna hafa kennt sér að það væri mögulegt, ef menn hefðu raunverulega vilja til þess.

Kanslarinn fyrrverandi sagði enn fremur að hann vonaðist eftir sigri íhaldsflokkanna á Evrópuþinginu og að vinur hans Jean-Claude Juncker yrði næsti forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hann sagði brýnt að koma efnahagsmálum aðildarríkjanna á réttan kjöl en því næst ætti að setja pólitískan samruna aftur á dagskrána.