Samhentar mæðgur Erla ásamt dætrum sínum Guðrúnu og Telmu í nýju vinnunni, á kaffihúsinu þeirra.
Samhentar mæðgur Erla ásamt dætrum sínum Guðrúnu og Telmu í nýju vinnunni, á kaffihúsinu þeirra. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þeim líður eins og þær séu staddar í litlu sveitaþorpi, svo vel hefur þeim verið tekið og allir boðið þær velkomnar í miðbæ Hafnarfjarðar þar sem þær opnuðu nýlega kaffihús.

Þeim líður eins og þær séu staddar í litlu sveitaþorpi, svo vel hefur þeim verið tekið og allir boðið þær velkomnar í miðbæ Hafnarfjarðar þar sem þær opnuðu nýlega kaffihús. Mæðgurnar Erla, Telma og Guðrún skipta með sér verkum og leggja áherslu á heimabakað bakkelsi og bjóða listafólki að láta ljós sitt skína hjá þeim á Café Deluxe.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Það er langt síðan það hefur verið svona gaman hjá mér í vinnunni. Og nú er ég auk þess búin að binda dæturnar við mig,“ segir Erla Sigurðardóttir þar sem hún stendur við eldavél og bakar pönnukökur á kaffihúsinu Cafe DeLuxe í Hafnarfirði. Kaffihúsið opnaði hún á sumardaginn fyrsta ásamt tveimur dætrum sínum, þeim Telmu Björk og Guðrúnu Lizu Bjarkadætrum. „Þessi kaffihúsahugmynd kviknaði þegar ég var að velta fyrir mér hvað mig langaði til að gera það sem eftir væri ævinnar. Elsta dóttir mín, Guðrún Liza, hafði lengi átt sér þann draum að opna kaffihús, en hún setti drauminn á bið þegar hún flutti til Noregs eftir hrun vegna atvinnuleysis á Íslandi. En þegar hún fór að viðra við mig að hún ætlaði að flytja aftur heim, þá spurði ég hana hvort við mæðgurnar ættum ekki bara að skella okkur í að opna saman kaffihús. Og við gerðum það,“ segir Erla og hlær.

Fæddist í sjúkrabílnum

Þær mæðgur eru allar miklir Gaflarar, fæddar og uppaldar í Hafnarfirði. „Mér lá svo mikið á að fæðast Hafnfirðingur að ég fæddist í sjúkrabílnum við Engidal, þegar mamma var á leið inni á Kópavogsspítala til að koma mér í heiminn, en einhverra hluta vegna var lokað á þessum tíma á spítalanum í Hafnarfirði,“ segir Erla. En þrátt fyrir að vera sannir Gaflarar þá ætluðu þær aldrei að hafa kaffihúsið í Hafnarfirði. „Við ætluðum að vera í hundrað og einum í miðbæ Reykjavíkur. Við leituðum að húsnæði þar í níu mánuði, en fundum ekkert. Þá fórum við að spá í önnur bæjarfélög hér í kring en það er enginn miðbær nema hér í Hafnarfirði, svo við enduðum hér heima. Þegar við höfðum tekið þá ákvörðun leið okkur mjög vel með hana og skildum ekkert í hvernig okkur datt í hug að fara eitthvað annað. Hafnarfjörður er æðislegur bær og allir hér í miðbænum hafa tekið okkur mjög vel, bæði fólkið í fyrirtækjunum hér í kring og aðrir. Mér leið fyrstu dagana eins og ég væri stödd í litlu sveitaþorpi í gamla daga þar sem allir bjóða mann velkominn.“

Lifandi tónlist og opinn míkrafónn

Kaffihús þeirra mæðgna er til húsa í gamla sjálfstæðishúsinu við Strandgötuna í Hafnarfirði. „Þetta rými sem við erum hér í var leigt út sem veislusalur, þannig að við þurftum bara að mála og pússa parketið, kaupa húsgögn og græjur. Hér var eldhús og annað sem hentaði vel fyrir kaffihúsarekstur.“ Þær mæðgur leggja áherslu á heimabakað bakkelsi, þetta gamla góða, pönnukökur og fleira girnilegt og heimilislegt. Einnig bjóða þær upp á kjúklingasalat og kjúklingalokur. „Fólk getur líka komið hér á kvöldin og fengið sér köku eftir kvöldmat, en okkur sjálfum hefur fundist lítið um veitingar á kaffihúsum á kvöldin, þá breytast þau oft í bari,“ segir Erla og tekur fram að hjá þeim mæðgum sé líka hægt að fá bjór og léttvín. „Áherslan hjá okkur er á lifandi tónlist, við ætlum að bjóða upp á það sem kallað er „opinn míkrafónn“ þar sem hver sem er getur látið ljós sitt skína, hvort sem það er í söng eða einhverju öðru, uppistandi til dæmis. Stelpurnar í Bergmáli, þær Selma og Elísa, hafa komið hér fram tvisvar og sungið. Einnig hefur söngkonan Lena Mist verið eitt kvöld ásamt Helga sem spilaði undir á gítar. Svo komu Linda og Heiða og spiluðu saman á píanó og sungu, og síðast voru trúbadorarnir Kjartan Arnaldur og Sveinn Guðmundsson. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt. Á þessu kaffihúsi viljum við skapa vettvang fyrir listafólk til að koma fram, allskonar listafólk er velkomið.“