Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Lögin hans Gunnars Þórðarsonar eru löngu búin að vinna hug og hjarta landsmanna,“ segir Oliver Kentish, stjórnandi Selkórsins, en kórinn heldur tvenna tónleika tileinkaða Gunnari Þórðarsyni í Norðurljósasal Hörpu sunnudaginn 18. maí kl. 17 og kl. 20 undir yfirskriftinni „Við Reykjavíkurtjörn“.

„Hugmyndin að tónleikunum kom upp fyrir rúmu ári og því löngu áður en Ragnheiður sló í gegn,“ segir Oliver, þegar hann er spurður um tilurð tónleikanna. „Okkur fannst kominn tími til að gera þessu merka tónskáldi skil á tónleikum, en þetta er í fyrsta sinn sem kór heldur tónleika eingöngu með tónlist Gunnars.“

Að sögn Olivers verða dægurlög Gunnars í forgrunni fyrir hlé. „Selkórinn mun syngja helstu dægurperlur Gunnars sem þjóðin hefur tekið ástfóstri við og eru löngu orðnar sígildar,“ segir Oliver og tekur fram að þeir Þórir Baldursson og Daníel Þorsteinsson hafi útsett tvö lög hvor fyrir kórinn, sem alls flytur átta lög. Selkórnum til halds og trausts verða karlraddirnar úr Raddbandafélagi Reykjavíkur, sem einnig mun syngja tvö lög eftir Gunnar sem Skarphéðinn Hjartarson hefur útsett fyrir þá.

„Svo skemmtilega vill til að Gunnar mun sjálfur ásamt hljómsveit leika með á tónleikunum. Hann er svo mikill öðlingur og því frábært að hafa hann með okkur. Fyrsta æfing með bandinu var í gær [miðvikudag] og það gekk allt eins og í sögu, enda miklir fagmenn þar á ferð.“

Venda kvæði sínu í kross

Eftir hlé vendir kórinn kvæði sínu í kross og einbeitir sér að óperunni Ragnheiði . „Í ljósi þess að nýjasta tónsmíð Gunnars, óperan Ragnheiður , hefur verið á fjölum Hörpu nú á vormánuðum við metaðsókn og fádæma lof áheyrenda, fannst okkur tilvalið að fá Þóru Einarsdóttur sópran og Garðar Thór Cortes tenór til að flytja aríur og dúetta Ragnheiðar og Daða úr óperunni ásamt kórnum,“ segir Oliver og bendir á að þar sem færri hafi komist að en vildu á sýningar Íslensku óperunnar gefist nú kjörið tækifæri til að hlýða á nokkur atriði úr óperunni.

Þess má geta að Snorri Sigfús Birgisson tónskáld umritaði tónlist Gunnars fyrir píanó sem flutt er úr óperunni og leikur sjálfur með á flygil á tónleikunum. Miðasala er á midi.is og harpa.is.