Hjálmar Árnason
Hjálmar Árnason
Eftir Hjálmar Árnason: "Í raun er dapurlegt að sjá hvernig hin skapandi og forvitna sál barnsins er kæfð á ótrúlega skömmum tíma eftir að skólagangan hefst"

Má ekki halda því fram með rökum að forvitni sé grunnur menntunar? Forvitnin hlýtur að vera það afl sem knýr einstaklinginn áfram til að svala fróðleiksfýsn sinni. Í ljósi þess ætti að vera keppikefli allra skóla að viðhalda og örva forvitni nemenda. Nýta sér hana til að nemandinn spyrji og leiti svara – mennti sig. Nú getum við spurt hvort skólakerfið sé sá heilsubrunnur sem fróðleiksþyrstir fái svalað þorsta sínum. Líklega eru fleiri en bréfritari er telja að svo sé alls ekki. Í raun er dapurlegt að sjá hvernig hin skapandi og forvitna sál barnsins er kæfð á ótrúlega skömmum tíma eftir að skólagangan hefst. Hvað veldur? Fyrir því eru margar ástæður enda um að ræða flókið samspil margra þátta. Einn drjúgur þáttur þar í er örugglega kerfið sjálft.

Öll eins?

Menntakerfi okkar byggir í grunninn á skipulagi iðnaðarsamfélags þar sem leitað er eftir því að flokka fólk eftir fyrirfram gefinni kunnáttu. Þeir sem ekki féllu/falla að henni lenda utan kerfis – sum hver eftir mismiklar uppákomur. Þannig má segja að listgreinar, verklegar og nýsköpun falli ekki að „kerfinu“ enda erfitt að mæla þær á hefðbundinn hátt. Samræmd próf og áherslur í skólastarfi byggja á normi sem býr fólk undir samfélag sem er og var en síður undir óljósa framtíð. Allt kerfi okkar er sniðið að þessum markmiðum – kjarasamningar, próf, skólabyggingar o.s.frv. Og til þess notum við löngu úr sér gengna kennsluhætti. Við röðum í bekki eftir aldri fremur en þroska og hæfileikum, kennsluhættir gera ráð fyrir kennaranum sem miðpunkti kennslustundar. Bara heitið KENNSLUstund segir allt sem segja þarf og lýsir verknaðinum. Kennarinn er virkur megnið af tímanum og nemendur eiga að þiggja fróðleiksmolana af borði hans. Væri ekki nær að tala um lærdómsstund þar sem áherslan væri á nemandanum fremur en kennaranum?

Prófin valda kvíða

Margar rannsóknir sýna að hræddur einstaklingur eða kvíðinn nýtur sín ekki til fulls. Of mikil orka hans rennur til að yfirvinna óttann. Samt sem áður ríghöldum við í gamla prófaformið. Við fyllumst ofurtrú á samræmdum prófum, Pisa-prófum og öðru slíku sem í raun gera lítið annað en að mæla afmarkaða færni við afmörkuð skilyrði. Verra er jafnvel að ofurtrú okkar á prófum leiðir til þess að við látum þau stýra menntakerfinu í þágu hinnar dáðu normalkúrfu. Fróðlegt væri að vita hve margir einstaklingar hafa orðið fórnarlömb normalkúrfunnar og hvað það hefur kostað samfélagið. Próf sem leið til að sanna kunnáttu er algjörlega á skjön við daglegt líf okkar. Á vinnustöðum, í fjölskyldum, félagasamtökum og víðar talar fólk sig saman um viðfangsefni. Gagnkvæm samskipti um málefni örvar hugsun og hugmyndir. Þannig vinnur fólk í daglegu lífi sínu. Skólakerfið í raun hafnar þeirri leið af ótta sínum við að fólk svindli eða í bjargleysi sínu til að komast að kunnáttu einstaklinga. Þannig má segja að með svipunni sem nefnist próf er kvíði fjölmargra einstaklinga vakinn um leið og hafnað er möguleikanum á að maður verði manns gaman við úrlausn viðfangsefna. Um leið og herpist að nýsköpun meðal nemenda, tækifærum þeirra til að njóta þess að skapa og skreyta þá herðist á prófalotum. Svo er auðvitað ekkert rúm eða leið að prófa nýsköpun, listir eða annað sem fellur utan rammans.

Hættum prófalotum!

Fjölmargir hafa orðið til þess á liðnum árum að benda á einhverja af ofanrituðum þáttum. Í raun eru þeir færri sem hafa stigið fram til að verja gamla kerfið. Samt lifir það betra lífi en nokkru sinni. Löngu er orðið tímabært að stokka upp. Byrjum á að fella niður hefðbundin próf og leyfum nemendum að sanna kunnáttu sína með aðferðum sem eru nær raunveruleikanum. Hættum að láta kjarasamninga stjórna skólastarfinu. Færum kennsluhætti að veruleika nemendanna og þeirri einföldu staðreynd að tæknin hefur opnað nýja leið til þekkingaröflunar. Notum hana og gefum kennurunum nýtt og spennandi hlutverk í vendinámi og hlítarnámi þar sem nemandinn er hinn virki sem nýtur aðstoðar kennarans. Búum til óttalaust umhverfi þar sem hlutverk kennarans verður m.a. það að svara spurningum forvitinna nemenda sinna í stað þess að kæfa þær. Þá hygg ég fleiri nemendur muni finna sig í skólum, starfsgleði þeirra muni vaxa í réttu hlutfalli við lifandi forvitni og sköpunargleði. Þar með værum við að leggja grunn að lifandi skóla.

Höfundur er framkvæmdastjóri Keilis.

Höf.: Hjálmar Árnason