Niwattumrong Boonsongpaisan
Niwattumrong Boonsongpaisan
Bangkok. AFP. | Yfirmaður taílenska heraflans, hershöfðinginn Prayut Chan-O-Cha, varaði við því í gær að herinn myndi ekki láta það viðgangast að ofbeldi og vopnum væri beitt gegn almennum borgurum.

Bangkok. AFP. | Yfirmaður taílenska heraflans, hershöfðinginn Prayut Chan-O-Cha, varaði við því í gær að herinn myndi ekki láta það viðgangast að ofbeldi og vopnum væri beitt gegn almennum borgurum. Ummælin lét hann falla eftir að þrír létust og 23 særðust þegar vopnaðir menn köstuðu handsprengjum og skutu á mannfjöldann í mótmælum stjórnarandstæðinga í Bangkok. Hershöfðinginn hótaði því að herinn myndi grípa til aðgerða til að stilla til friðar og koma á lögum og reglu en fylgismenn stjórnarinnar, svokallaðir rauðstakkar, hafa varað við því að valdarán hersins sé yfirvofandi.

Rauðstakkar hafa sömuleiðis sagt að borgarastyrjöld muni brjótast út ef stjórnarandstæðingar fá sínu framgengt en mótmælendur vilja að efri deild taílenska þingsins útnefni nýjan forsætisráðherra á grundvelli ákvæða stjórnarskrárinnar.

Sitjandi forsætisráðherra, Niwattumrong Boonsongpaisan, sem var útnefndur af stjórninni þegar Yingluck Shinawatra var vikið úr embætti vegna spillingar í síðustu viku, var tilneyddur að flýja í gær þegar mótmælendur trufluðu fund ráðherra og yfirkjörstjórnar landsins. Kosningayfirvöld sögðu í samtali við AFP í gær að ómögulegt yrði að halda kosningar 20. júlín nk. líkt og til stóð vegna óróans í landinu en mögulega yrði efnt til kosninga í byrjun ágúst.

Stjórnarandstæðingar hafa tekið yfir eina álmu stjórnarráðsbyggingarinnar í Bangkok, þar sem þeir halda blaðamannafundi til að sýna fram á að ríkisstjórnin sé óstjórnhæf. Þeir hafna því að efnt verði til kosninga fyrr en ákveðnum umbótum hefur verið komið í gegn en hafa þó ekki skilgreint nákvæmlega hverjar þær eiga að vera.