Lífið er ljóð“ er skemmtileg ljóðabók. Og ekki síður tilurð hennar. Höfundar kalla sig „Ljóðahóp Gjábakka í Kópavogi“, þeir eru 13 að tölu og er þetta 14. ljóðabókin sem þeir senda frá sér sameiginlega, auk þess sem sumir þeirra hafa gefið út ljóðabók sjálfir. Þetta er merkilegt framtak og mikið úthald. Sérstaklega vegna þess að hver höfundur hefur sinn persónulega stíl og þeir draga ekki dám hver af öðrum. Það eykur fjölbreytileik ljóðsins.
„Tindar“ – þetta stutta ljóð eftir Ingu Guðmundsdóttur blasti við mér þar sem bókin opnaðist, og mætti vel kallast „martröð fjallgöngumannsins“:
Fjöllin vefur þoka
hvítu sjali
byrgir þeim sýn
er tróna á tindum.
„Norðurljós“ heita þessar ferskeytlur Hafsteins Reykjalíns:
Nú um miðjan nóvember
nýt ég stjörnugeimsins
er norðurljósin leika sér
með litagleði heimsins.
Útlendingar ætíð hér
undur þessi mynda.
Allt sem fyrir augu ber
undir brosin kynda.
Ólöf Stefanía Eyjólfsdóttir yrkir „hækur“, japanskan bragarhátt, og kallar „Vatnsmýrina“. Hækur hafa fimm atkvæði í 1. og 3. ljóðlínu en sjö í 2. ljóðlínu:
Í Vatnsmýrina
snýr lóan heim úr suðri
syngur vorljóð þýð.
Safnar í sarpinn
við frændgarð Húsatjarnar
dýrðin, dýrðin, dí.
Við aftansönginn
kyrrist borgarbragurinn
við sólarlagið.
Unnur Guttormsdóttir dregur upp þessa skemmtilegu mynd: „Allt búið“:
Þá eru þingmennirnir
hættir að heilsa.
Kosningar
yfirstaðnar
Ég velti því fyrir mér hvort Kjartan Trausti Sigurðsson segi satt í „Satt“:
Oft má satt
kyrrt liggja
sagði lygarinn
og lá ekki
á liði sínu.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is