Ræktun Kjötmjölsdreifing á vegum Hekluskóga hefur gefið góða raun.
Ræktun Kjötmjölsdreifing á vegum Hekluskóga hefur gefið góða raun. — Ljósmynd/Hreinn Óskarsson
Niðurskurður til landbótaverkefnisins Hekluskóga hefur verið dreginn til baka að hluta með þriggja milljóna króna viðbótarframlagi frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og verður nú 22,4 milljónir.

Niðurskurður til landbótaverkefnisins Hekluskóga hefur verið dreginn til baka að hluta með þriggja milljóna króna viðbótarframlagi frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og verður nú 22,4 milljónir. Á vef Skógræktar ríkisins er haft eftir Hreini Óskarssyni, framkvæmdastjóra Hekluskóga og skógarverði á Suðurlandi, að viðbótarféð renni óskipt til ræktunarstarfsins. Nú eru gerðar tilraunir með að köggla birkifræ með mold og kjötmjöli.

Stefnt er að því að gróðursetja um 260.000 trjáplöntur á vegum Hekluskóga í sumar, um 250.000 birkiplöntur og 10.000 af reynivið. Á vegum Hekluskóga hafa verið gerðir um 200 samningar við landeigendur sem sjá sjálfir um að gróðursetja hátt í helming af trjáplöntum sem settar eru niður undir hatti Hekluskóga.

Notkun kjötmjöls er snar þáttur í starfi Hekluskóga. Að sögn Hreins er kjötmjölið frábært efni til landgræðslu af þessum toga og á þessum slóðum gefi það ekki síðri raun að dreifa kjötmjöli en sú hefðbundna aðferð að dreifa grasfræi og áburði enda sé mjög mikið af fræi í vikrinum sem spíri þegar næringarríku kjötmjölinu er dreift yfir gróðurlaust landið. Næringin úr mjölinu endist gróðrinum í um það bil þrjú ár. Þá er lag að koma inn með trjáplöntur og gróðursetja birki og reynivið. Um 150 tonnum af kjötmjöli verður dreift á svæði Hekluskóga í sumar, segir á skogur.is

Hraust planta upp af fræinu

Í fyrrahaust söfnuðu velunnarar verkefnisins birkifræi og sendu Hekluskógum og verður því blandað saman við kjötmjöl og gróðurmold í sumar. Með því að dreifa slíkri blöndu fær fræið gott veganesti til að spíra og róta sig. Nú eru gerðar tilraunir með að köggla þessa blöndu líkt og gras- eða viðarköggla.

Ef í ljós kemur að fræið þolir þessa meðferð verður auðveldara að dreifa blöndunni og mögulegt að nota til þess dráttarvélar og áburðardreifara. Köggullinn leysist fljótlega upp og þá verður áburður, mold og fræ á sama blettinum.