[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BAKSVIÐ Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Meirihluti Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í Hafnarfirði er fallinn samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur gert fyrir Morgunblaðið á fylgi flokka í bænum.

BAKSVIÐ

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Meirihluti Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í Hafnarfirði er fallinn samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur gert fyrir Morgunblaðið á fylgi flokka í bænum. Samfylkingin tapar tveimur af fimm fulltrúum sínum í bæjarstjórninni. Sjálfstæðisflokkurinn tapar einum manni. Björt framtíð vinnur tvo og Píratar einn. Vinstri græn halda sínum fulltrúa.

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í Hafnarfirði, en fylgið er á niðurleið. Það mælist 31,2% af þeim sem afstöðu taka. Það er talsvert minna en í kosningunum fyrir fjórum árum þegar flokkurinn fékk 37,2% atkvæða og fimm menn kjörna. Þetta er einnig minna fylgi en í könnun Félagsvísindastofnunar í mars þegar flokkurinn mældist með 37,2% fylgi.

Mikið tap Samfylkingarinnar

Fylgi Samfylkingarinnar í könnuninni er 24%. Hún fengi þrjá bæjarfulltrúa. Í kosningunum 2010 var flokkurinn með 40,1% atkvæða og fimm menn. Í könnuninni í mars var Samfylkingin með 20,9% þannig að fylgið hefur aukist.

Björt framtíð fylgir fast á hæla Samfylkingarinnar. Hún er með 20,4% fylgi og fengi tvo bæjarfulltrúa. Flokkurinn hefur ekki áður boðið fram til sveitarstjórnar. Í síðustu könnun var hann með 15,3% fylgi í Hafnarfirði.

Vinstri græn rétta nægilega úr kútnum til að ná áfram einum fulltrúa í bæjarstjórn. Fylgið er 8,2% en var 14,6% í kosningunum 2010. Í síðustu tveimur könnunum hefur fulltrúi þeirra verið úti. Það er bæjarstjórinn í Hafnarfirði, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, sem er oddviti listans.

Píratar njóta álíka fylgis í Hafnarfirði og VG. Það er 8,1% sem gefur einn fulltrúa í bæjarstjórn. Píratar hafa ekki áður boðið fram til sveitarstjórnar.

Framsóknarflokkurinn hefur 7,1% fylgi, svipað og í kosningunum 2010, og það dugar ekki nú frekar en þá fyrir manni.

Af heildinni kváðust 17,4% ekki hafa gert upp hug sinn til framboðslistanna.

Könnunin var gerð dagana 5. til 11. maí. Spurt var: Ef sveitarstjórnarkosningar væru haldnar á morgun, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa? Tvær leiðir voru notaðar til að ná til kjósenda. Annars vegar var hringt í 220 manna tilviljunarúrtak úr þjóðskrá meðal fólks á aldrinum 18 ára og eldri. Hins vegar var send netkönnun til 380 manna úrtaks úr netpanel Félagsvísindastofnunar. Alls fékkst 421 svar frá svarendum á aldrinum 18 til 90 ára og var svarhlutfall 72%. Vigtaður svarendafjöldi var sömuleiðis 421.

Talsverður munur er á stuðningi við suma flokkana eftir kynferði. Samfylkinguna styðja 32% kvenna en 17% karla. Þessu er öfugt farið hjá sjálfstæðismönnum og Pírötum þar sem karlar eru mun fleiri meðal fylgismanna.

Fáir ungir styðja VG

Meðal aldurshópa er áberandi hve lítið af ungu fólki styður Vinstri græn. Meðal yngstu kjósendanna í Hafnarfirði, fólks á aldrinum 18 til 29 ára, nýtur flokkurinn aðeins stuðnings 3% kjósenda. Aftur á móti er fylgi flokksins meðal elstu kjósendanna, 60 ára og eldri, 14%. Píratar njóta aftur á móti meiri stuðnings meðal yngstu kjósendanna en meðalfylgi þeirra er.

Lítil aðgreining er á milli flokka eftir menntun kjósenda. Tekjur spilar hins vegar inn í. Meðal þeirra sem hæstu launin hafa, 600 þúsund krónur eða meira á mánuði, er fylgi við Sjálfstæðisflokkinn 44%.

Fjórðungur þeirra sem ætla að kjósa Bjarta framtíð kaus Samfylkinguna árið 2010. Litlu fleiri, 27%, kusu Vinstri græn og 10% Sjálfstæðisflokkinn. 12% þeirra sem kusu Samfylkinguna síðast ætla núna að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Jafnaðarmenn hafa lengi verið sterkir í Hafnarfirði. Frá 2002 til 2010 var Samfylkingin með hreinan meirihluta í bæjarstjórninni. Eftir nokkurt tap í kosningunum vorið 2010 varð flokkurinn að láta bæjarstjórastólinn af hendi Vinstri grænna til þess að skapa grundvöll fyrir meirihlutasamstarfi. Nú virðist flokkurinn vera að lenda í sögulegri lægð í bænum sem helst er hægt að líkja við erfiðleikaár Alþýðuflokksins 1962 til 1986 þegar hann var lengst af með aðeins tvo bæjarfulltrúa.

Hafnarfjörður lifir á fornri frægð sem „kratabærinn“

Hafnarfjörður er stundum kallaður „kratabærinn.“. Þar lifir bærinn á fornri frægð. Alþýðuflokkurinn sálugi varð snemma sterkur í Hafnarfirði og um árabil á öldinni sem leið var hann með hreinan meirihluta í bæjarstjórn. Nafnið fékk Hafnarfjörður líka af því að þar var fyrr en víðast hvar annars staðar gripið til ýmissa félagslegra úrræða í málaflokkum bæjarfélagsins. Þannig stofnuðu Hafnfirðingar fyrstu bæjarútgerðina á Íslandi í upphafi heimskreppunnar til að vinna gegn atvinnuleysi.

En þótt jafnaðarmenn hafi oft fengið góða kosningu í Hafnarfirði hafa aðrir flokkar einnig risið til mikilla áhrifa þar, einkum Sjálfstæðisflokkurinn og á tíma framboðslisti óháðra borgara. Alþýðuflokkurinn missti hreinan meirihluta í bæjarstjórninni þegar árið 1954 og endurheimti hann ekki aftur fyrr en 1990. Tapaði honum aftur í lok þess kjörtímabils, en síðan var arftaki hans, Samfylkingin, ein við völd í bænum á árunum 2002 til 2010. Síðustu fjögur árin hefur Samfylkingin verið í meirihlutasamstarfi með Vinstri grænum.

Sjálfstæðismenn hafa einnig lengi verið sterkir í Hafnarfirði. Á viðreisnarárunum, þegar mörgum þótti skilin á milli Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins orðin óglögg, urðu sjálfstæðismenn stærsti flokkurinn í bænum. Þeir fengu fjóra af sjö bæjarfulltrúum árið 1962 og tóku upp meirihlutasamstarf við framsóknarmenn. Þeir hafa þó aldrei náð hreinum meirihluta í bæjarstjórninni.

„Hafnfirðingar vilja breytingar“

• „Við ætlum að sæka fjórða manninn“ • „Óskaplega spennandi vor“ „Við í Samfylkingunni finnum að landið er að rísa og bæjarbúar kunna að meta þá ábyrgð reynslu og skýru framtíðarsýn sem við stöndum fyrir. Við ætlum að sækja fjórða manninn. Það er okkar markmið,“ sagði Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar, þegar Morgunblaðið leitaði álits hans á niðurstöðum könnunar Félagsvísindastofnunar á fylgi flokka í Hafnarfirði.

„Þetta staðfestir að Hafnfirðingar vilja breytingar á stjórn bæjarins. Það er ánægjulegt að Sjálfstæðisflokkurinn er að mælast langstærsti flokkurinn. En fylgið er greinilega á mikilli hreyfingu. Við sjálfstæðismenn munum gefa í núna,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Stutt barátta og snörp

„Þetta verður óskaplega spennandi vor. Við sem erum í pólitík eigum engin atkvæði. Það eina sem við getum gert er að vinna vel og leggja verk okkar í dóm kjósenda og vonast til að verða metin að verðleikum. Þetta er hinn nýi veruleiki í stjórnmálunum,“ sagði Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri og oddviti Vinstri grænna. Guðrún sagðist heyra það á fólki að því fyndist kosningabaráttan ekki farin af stað. Líklega yrði þetta stutt barátta og snörp.

Samvinnu þvert á flokka

„Við höfum fundið það síðan kosningamiðstöð okkar var opnuð og við fórum að fara út meðal bæjarbúa að það er mjög góð stemning fyrir okkar framboði í bænum. Við mætum hvarvetna gleði og velvild,“ sagði Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar.

Guðlaug sagði að í síðustu kosningum hefði þátttaka verið í sögulegu lágmarki og margir skilað auðu. „Það hefur verið mikil löngum eftir breytingum. Við erum í þeim hópi sem vill sjá fleiri valkosti.“ Guðlaug sagði að Björt framtíð legði áherslu á samvinnu þvert á flokka og væri reiðubúin til samstarfs við alla sem vildu koma upp úr skotgröfunum og vinna að langtímastefnu fyrir bæinn.

Opna bókhaldið

„Það er jákvætt að vera með mann inni,“ sagði Brynjar Guðnason, oddviti Pírata. Hann sagði að Píratar hefðu ekki mótað stefnu um það hvernig staðið yrði að myndun meirihluta. „En við myndum setja það á oddinn að opna bókhaldið og öll gögn í kerfinu,“ sagði hann.