Hjarta Árni segir Elliðárnar perlu sem Reykvíkingar geti verið stoltir af.
Hjarta Árni segir Elliðárnar perlu sem Reykvíkingar geti verið stoltir af. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Með sumrinu fara bakkar Elliðaáa og Elliaðvatns að fyllast af alsælum stangveiðimönnum. Ofan í vatninu eða ánni standa þeir í veiðivöðlunum og sveifla stönginni af mikilli fimi.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Með sumrinu fara bakkar Elliðaáa og Elliaðvatns að fyllast af alsælum stangveiðimönnum. Ofan í vatninu eða ánni standa þeir í veiðivöðlunum og sveifla stönginni af mikilli fimi. Árni Friðleifsson hefur engar áhyggjur af því að vinsældir stangveiði kunni að dvína á tímum háskerpusjónvarps, snjallsíma og internets. „Þetta eru bestu sumardagarnir: úti í á með veiðistöngina, hlustandi á árniðinn og fuglasönginn, í náinni snertingu við íslenska náttúru.“

Árni er formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur en þar er sumarstarfið núna að fara af stað. Veiðar í Elliðavatni hófust venju samkvæmt á sumardaginn fyrsta og Elliðaár verða opnaðar 20. júní. Núna um helgina verður svo haldin afmælisveisla en þá verða liðin 75 ár frá stofnun félagsins, en það var stofnað 17. maí 1939.

Pulsur og fluguhnýtingar

„Laugardaginn 17. maí verður opið hús á skrifstofu okkar á Rafstöðvarvegi milli kl. 13 og 16 og ýmislegt um að vera. Flugukastsmenn verða með kastsýningu, gestum gefst tækifæri á að spreyta sig sjálfir á að kasta, og mælt hver nær að kasta lengst. Innandyra verða fluguhnýtingamenn að störfum, boðið verður upp á grillaðar pylsur og gos. Upp úr kl. 15 mun stórveiðimaðurinn Ásgeir Heiðar ganga með gestum með Elliðaánum, fræða um svæðið og miðla af reynslu sinn um hvernig best er að bera sig að við veiðarnar á hverjum stað. Þeir sem eiga veiðileyfi í ánni í sumar ættu endilega að mæta og hlusta á hvað hann hefur að segja. Þá verður Jóhannes Sturlaugsson frá Laxfiskum á bökkum Elliðaáa við Rafstöðvarveg um kl. 14 og mun sýna gestum hvernig seiði eru merkt en það er liður í rannsóknum á lífríki Elliðaáa.“

Í Stangaveiðifélaginu eru samtals um 3.500 félagsmenn og starfar félagið allt árið. Þegar ekki er hægt að veiða eru haldin fræðslukvöld og sýningar, og á sumrin er staðið fyrir metnaðarfullu barna- og unglingastarfi. „Börnum og unglingum sem eru meðlimir í félaginu er boðið að veiða í Elliðaánum yfir fimm daga tímabil á sumrin og einnig eigum við í nánu samstarfi við Klettaskóla og bjóðum nemendum þar að koma í urriðaveiði í maí ár hvert, í samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur.“

Hjartað í starfsemi félagsins er Elliðaárnar og Elliðavatn en félagið hefur gert samninga við bændur víða um land um aðgang að veiðiám. „Félagsmenn hafa aðgang að á fjórða tug veiðisvæða á borð við Sogið, Andakílsá, Langá á Mýrum, Hítará á Mýrum, Varmá og hinum geysifallegu urriðasvæðum í Laxá í Mývatnssveit.“

Árni reiknar með góðu veiðisumri og virðist lífríkið við Elliðaár koma vel undan vetri. „Ágætisveiði hefur verið í Elliðavatni. Fiskarnir sem ég hef séð hefa verið feitir og pattaralegir og seiðabúskapurinn er góður.“

Árni vill hvetja alla sem áhuga hafa á veiði að skoða þá veiðimöguleika sem í boði eru. Laxveiðileyfin í Ellliðaám geti kostað sitt en ódýrara sé að veiða í vatninu og hægt að gera mjög góð kaup með veiðikortinu. „Þá fá börn undir 12 ára aldri að veiða frítt í Elliðavatni ef þau eru í fylgd með fullorðnum. Sömuleiðis að reykvískir ellilífeyrisþegar fá að veiða án endurgjalds í Elliðavatni.“