Rannveig Elín Sigurtryggvadóttir fæddist á Litlu-Völlum í Bárðardal 26. september 1920. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi 28. apríl 2014.

Útför hennar fór fram frá Blönduóskirkju 9. maí 2014.

Í liðinni viku féll frá hún amma mín, Rannveig Elín Sigurtryggvadóttir, sem kallaði sig alltaf Elínu eða Ellu. Hún var orðin 94 ára gömul og hafði sjálf sagt að nú væri komið að leiðarlokum hjá sér, en samt hefði maður viljað hafa hana svo miklu lengur hjá okkur.

Hún amma mín var kjarnorkukona sem sagði alltaf það sem hún meinti og kunni svo vel skil á réttu og röngu. Hún var ófeimin við að tjá skoðanir sínar og lét mann ekkert eiga hjá sér ef rökrætt var um málefni sem skiptu hana miklu, hvort sem það voru byggðamál, stjórnmál, skattlagning ríkisvaldsins eða síðan seinni árin aðstæður aldraðra á Íslandi. Það sem var einna best við ömmu er að hún hafði skoðanir á öllu. Hún var þannig frábær fyrirmynd fyrir okkur barnabörnin sín og kenndi okkur að maður ætti að láta sig hlutina varða, setja sig inn í þá og hafa á þeim skoðanir vegna þess að t.d. stjórnmál væru jú mál fólksins og það væri enginn betur gefinn til að taka þar afstöðu en einmitt við. Hún kenndi mér líka að standa með sjálfri mér og láta ekki skoðanir annarra ráða í eigin ákvörðunum, hvort sem er stórum eða litlum. Þær stundir sem við áttum saman í húsinu hennar á Blönduósi síðustu áratugina voru alltaf skemmtilegar og eftir stendur minningin um góða konu sem gaf okkur svo mikið.

Þegar mikið er misst er margs að sakna og við Óli, Kittý og Jón eigum eftir að sakna þess að koma við hjá ömmu á Blönduósi og höldum örugglega áfram að staldra við hjá henni í huganum í hvert sem við eigum leið þar um. Við munum sakna yndislega viðmótsins, gestrisninnar og áhugaverðra umræðna um alla mögulega hluti, ekki síst um börnin hennar, börn, barnabörn og barnabarnabörn sem voru henni ávallt efst í huga.

Og ég mun líka sakna þess að þurfa ekki lengur að svara fyrir hvert einasta verk starfsfélaga minna í lögfræðistéttinni enda taldi amma að þar mættu ýmsir gera betur hreint fyrir sínum dyrum. Fyrst og fremst vil ég þó þakka allt sem hún amma mín gaf mér á langri ævi og þá fyrirmynd sem hún var mér og verður ávallt.

Þorbjörg Inga Jónsdóttir.

Elsku Ella frænka, í dag kveðjum við þig er þú ferð á slóðir foreldra og systkina þinna og ég veit að þar verður kátt. Þú kvaddir síðust þinna systkina og ég veit að þú kvaddir með ró í hjarta og með vissu um að það yrði tekið vel á móti þér.

Ég var svo heppin að fá að dvelja í sveitinni þinni fallegu og eru mín æskuár lituð góðum minningum um gott fólk, öruggt umhverfi og gott atlæti. Heppin ég.

Ég man þær stundir er þú tókst á móti endalausum skara af fólki. Ekkert kynslóðabil, fullorðnir og börn voru velkomin. Þú hugsaðir vel um alla og ekki heyrði maður annað en dillandi hláturinn sem ég heyri enn hljóma þegar ég hugsa til þeirra stunda sem við dvöldum í Vatnsdalnum á Kornsá.

Fólkið sem þú tókst á móti var oft talið í tugum, þá var hrært í pottum og pönnum svo allir fengju nægju sína af mat og drykk. Þú vaknaðir fyrir allar aldir og vinnudagurinn var langur. Oft hugsaði maður „hvenær sefur hún Ella frænka?“

Miklir kærleikar voru milli systkinanna, stelpurnar tvær og strákarnir sex voru kát, stríðin og góð. Virðing og tillitssemi var það sem einkenndi ykkar samband. Þar var sannarlega gott að alast upp við þau gæði sem einkenndi ykkur í daglegu amstri.

Þú átt yndislegan skara af börnum, sem hafa verið sveitinni þinni trú og ég efa ekki að þangað hugsi þau oft með gleði í hjarta og nú með söknuði yfir því að þessum kafla í lífi okkar sé lokið.

Minningar okkar Ingu dóttur þinnar eru vel geymdar í huga og hjarta þar sem við jafnöldrur áttum góða tíma og ýmislegt var brallað, flest gott en þó sumt sem ekki mátti fréttast. Þó er ég viss um að ekki hafi margt farið fram hjá húsfrúnni á bænum.

Það virðist svo stutt síðan við krakkarnir hlupum um túnin full af gleði og hlátri og litum upp til ykkar sem vísuðu okkur veginn. Þið stóðuð ykkur vel og skiljið eftir falleg spor sem verða minning um ykkur til þeirra sem á eftir koma.

Full þakklætis og með virðingu kveð ég þig og sendi börnum þínum, tengdabörnum og börnum þeirra innilegar samúðarkveðjur. Þar til við hittumst næst, gott faðmlag og koss á kinn til þín, elsku Ella frænka. Kveðja,

Unnur Sæmundsdóttir.

Hérna kveður mikil kona

kvödd af skara barna.

Hún vill enda ævin svona

en ætíð varstu þarna.

Öllum var hún lífsins ljós

leikandi afkomendum,

ætíð átti' hún hlýju og hrós

hinstu kveðju sendum.

(AH)

Sigurður, Anna Hulda

og synir.