Hægt miðar í samningaviðræðum Sjúkraliðafélags Íslands og SFR, en fólk úr þessum félögum sem starfar hjá sjálfseignarstofnunum í heilbrigðisþjónustu er nú í kjaraaðgerðum. Vinnustöðvun var á þriðjudag og í gær.

Hægt miðar í samningaviðræðum Sjúkraliðafélags Íslands og SFR, en fólk úr þessum félögum sem starfar hjá sjálfseignarstofnunum í heilbrigðisþjónustu er nú í kjaraaðgerðum. Vinnustöðvun var á þriðjudag og í gær. Sólarhringsstopp verður á mánudag og náist ekki samningar fyrir næsta fimmtudag kemur til allsherjarverkfalls. Deiluaðilar funduðu á miðvikudag og í gær hafði nýr fundur ekki verið boðaður.

Að sögn Árna Stefáns Jóhannssonar, formanns SFR, steytir einkum á réttindamálum, en krafa stéttarfélaganna er sú að þeirra fólk verði jafnsett þeim sem vinna hjá opinberum stofnunum, til dæmis varðandi réttarstöðu komi til uppsagnar. „Fyrirtækin hafa í þessum efnum til fjölda ára breytt líkt og ríkið. Því er sérstakt að þeir vilji nú ekki samningsbinda réttinn, sem þó ætti að vera öllum útgjaldalaus,“ sagði Árni Stefán. sbs@mbl.is