Fljúgandi Kríur í Vatnsmýrinni. Hólmfríður segir auðvelt að stíga fyrstu skrefin í fuglaskoðun. Góður sjónauki og glósubók komi sér þá vel.
Fljúgandi Kríur í Vatnsmýrinni. Hólmfríður segir auðvelt að stíga fyrstu skrefin í fuglaskoðun. Góður sjónauki og glósubók komi sér þá vel. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Núna er skemmtilegasti tími ársins að ganga í garð hjá fuglaskoðurum.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Núna er skemmtilegasti tími ársins að ganga í garð hjá fuglaskoðurum. Tilhugalífið og hreiðurgerðin í fullum gangi, egg að klekjast út og ungar komnir á kreik, og hver veit svo nema einhver framandi flækingur berist til landsins sunnar úr álfunni.

Hólmfriður Arnardóttir er framkvæmdastjóri Fuglaverndarfélags Íslands. Segir hún að fuglaskoðun sé hin skemmtilegasta iðja, og eitthvað sem áhugamenn um útivist og hreyfingu ættu alveg sérstaklega að skoða. „Þegar komið er út í íslenska náttúru, hvort sem það er upp á fjallstind eða inn í gróinn birkiskóg er næsta skref oft að verða forvitinn um það lífríki sem þar þrífst og þá ekki síst fuglalífið.“

Fuglavernd stendur bæði fyrir fuglaskoðunarferðum og fræðslustarfi og í sumar verður ýmislegt í boði jafnt fyrir óreynda byrjendur í fuglaskoðun og lengra komna. „Skráðir félagsmenn eru um 1.200 talsins og felst starfsemin m.a. í útgáfu tímarits, fræðslufundum og myndasýningum. Félagið hefur einnig lagt ríka áherslu á gerð og dreifingu fræðsluefnis fyrir börn í leik- og grunnskólum og stöndum við m.a. fyrir útgáfu kennslurits um haförninn sem dreift er til allra skóla á búsvæði íslenska arnarins,“ útskýrir Hólmfríður. „Félagið gætir líka hagsmuna villtra fugla og hefur auga með því að framkvæmdir valdi ekki raski á heimkynnum þeirra. Að auki safna sjálfboðaliðar félagsins upplýsingum um ástand mikilvægra fuglasvæða og höfum við eftirlit með friðlandi fugla Í Flóa.“

Þeir sem vilja kynnast fuglaskoðun betur ættu að leggja leið sína í Norræna húsið í sumar en þaðan verður farið í fuglaskoðunarferðir um Vatnsmýrina alla laugardaga í júní kl. 4, undir leiðsögn fuglafræðings sem leiðbeinir gestum um hvernig má bera sig að við fuglaskoðunina. Einnig verða skipulagðar ferðir í fuglafriðlandið í Flóa einhverja sunnudaga í júní og í lok maímánaðar er á döfinni hópferð um Suðurland. Verður sú ferð auglýst nánar á www.fuglavernd.is.

Hólmfríður segir fuglaskoðun aðgengilegt áhugamál og auðvelt að byrja. „Góður sjónauki kemur að gagni en hann þarf þó ekki að vera mjög fullkominn. Gott er að hafa meðferðis skrifblokk og blýant til að skrifa hjá sér einkenni s.s. stærð, lögun, lit og flughátt, og eiga greiningarbók til að fræðast um þær tegundir fugla sem fyrir augu ber eða greina hvort fuglinn er karl- eða kvenfugl, ungur eða gamall.“

Þeir sem komnir eru lengra í áhugamálinu hafa margir gaman af að eiga lítið hefti með lista yfir allar fuglategundir landsins og haka þar við þá fugla sem þeir hafa séð. „Tæknin hefur gert það enn auðveldara að stunda fuglaskoðun og á vefnum er með einföldum hætti hægt að finna fjölda greina og leiðbeininga sem nýtast fuglaskoðandanum. Jafnvel snjallsíminn getur komið að gagni við fuglaskoðun því til eru forrit sem nota má til að greina fuglategundir eftir útliti eða jafnvel eftir hljóði. Skilst mér að eitt slíkt sé í smíðum, gert með íslenska fuglafánu í huga.“ ai@mbl.is