Biophilia-tónvísindasmiðjur fyrir yngstu kynslóðina og lifandi vísindaveisla fyrir alla fjölskylduna verður í boði þegar Háskólalest Háskóla Íslands heimsækir Vestmannaeyjar í dag og á morgun.

Biophilia-tónvísindasmiðjur fyrir yngstu kynslóðina og lifandi vísindaveisla fyrir alla fjölskylduna verður í boði þegar Háskólalest Háskóla Íslands heimsækir Vestmannaeyjar í dag og á morgun. Háskólalestin fer nú í fjórða sinn um landið en hún fór í sínar fyrstu ferðir á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011.

Í ferðum lestarinnar er lögð áhersla á lifandi og skemmtilega vísindamiðlun til ungs fólks og litríka dagskrá fyrir alla fjölskylduna að því er segir í fréttatilkynningu. Í dag sækja nemendur í elstu bekkjum Grunnskóla Vestmannaeyja valin námskeið í Háskóla unga fólksins. Á morgun verður svo slegið upp veglegri vísindaveislu í Höllinni í Eyjum milli kl. 12 og 16. Þar verða m.a. sýnitilraunir, japanskir búningar og skrautskrift, leikir og þrautir, legósmiðja og ýmis tæki og tól, furðuspeglar og óvæntar uppgötvanir.