Fanndís Friðriksdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er gengin til liðs við Breiðablik á nýjan leik eftir að hafa leikið í hálft annað ár í Noregi. Hún var ósátt við gang mála hjá norska liðinu Arna-Björnar, sem hún gekk til liðs við í vetur, og ákvað að snúa aftur í Kópavoginn.
„Það var bara ekki staðið við gerða samninga hérna í Noregi og það var orðið margítrekað. Þannig að ég vildi bara fara,“ sagði Fanndís við mbl.is í gær en hún sagðist hafa haft samband við Breiðablik af fyrra bragði þegar það lá fyrir að hún væri á förum frá Noregi.
Fanndís fékk leikheimild með Breiðabliki í gær, á lokadegi félagaskiptanna, en sagðist ekki viss hvort hún næði næsta leik liðsins sem er gegn Fylki á þriðjudaginn kemur.
Fanndís, sem hefur leikið 49 landsleiki fyrir Ísland, er 24 ára gömul. Hún hefur skorað 50 mörk í 107 leikjum fyrir Breiðablik í efstu deild. Fanndís gekk til liðs við Kolbotn á síðasta ári. Þar var hún markahæst, spilaði alla 22 leiki liðsins og skoraði 7 mörk. Í ár hefur hún leikið fjóra fyrstu leiki Arna-Björnar og skorað eitt mark.
thorkell@mbl.is/vs@mbl.is