Dómur Hús Hæstaréttar.
Dómur Hús Hæstaréttar.
Hæstiréttur staðfesti í gær sakfellingu yfir Wojciech Marcin Sadowski sem ákærður var fyrir frelsissviptingu, nauðgun og sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart ástralskri konu í Reykjavík í apríl í fyrra.

Hæstiréttur staðfesti í gær sakfellingu yfir Wojciech Marcin Sadowski sem ákærður var fyrir frelsissviptingu, nauðgun og sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart ástralskri konu í Reykjavík í apríl í fyrra.

Hann var dæmdur í fimm ára fangelsi og til að greiða konunni 3.176.114 krónur í bætur.

Ríkissaksóknari ákærði manninn þann 2. júlí síðastliðinn fyrir frelsissviptingu með því að halda konunni nauðugri í húsnæði Vídeóhallarinnar að Lágmúla í Reykjavík í 30 til 40 mínútur. Allan þann tíma beitti hann hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, veitti henni mörg högg og sparkaði m.a. í höfuð hennar og andlit. Í dómi Hæstaréttar segir að frelsisskerðingin hafi verið alvarleg og „aðstæður brotaþola ógnvænlegar enda átti ákærði alls kostar við hana í átökum þeirra“ eins og segir í dómnum.

Sadowski hleypti konunni ekki út þrátt fyrir að hún bæði hann um það. Þá kemur fram að hún hafi reynt að komast út úr húsnæðinu, sem var læst, m.a. með því að brjóta gler í útidyrahurð. Eftir að hún beit í kynfæri hans jókst ofbeldi hans til muna.

Konan var á Íslandi í tveggja daga helgarferð og þáði far hjá Sadowski. Í stað þess að fara með hana á Kex Hostel þar sem hún gisti ók Sadowski sem leið lá að húsnæði Vídeóhallarinnar í Lágmúla. Húsnæðið stóð autt. Sökum ókunnugleika átti konan erfitt með að segja hvar árásin hefði átt sér stað, en í ökuferð með lögreglunni tók hún eftir brotnu rúðunni. Haft var uppi á eiganda húsnæðisins sem benti á Sadowski.