Aðalskipulag Fyrirhuguð blokkarbyggð norðan Suðurlandsbrautar.
Aðalskipulag Fyrirhuguð blokkarbyggð norðan Suðurlandsbrautar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Björn Jón Bragason: "Blokkirnar munu mynda vegg sem lokar fyrir útsýni til norðurs."

Í nýju aðalskipulagi vinstrimeirihluta Dags B. Eggertssonar í Reykjavík er gert ráð fyrir blokkarbyggð þar sem nú eru trjáreitir norðan Suðurlandsbrautar, sjá meðfylgjandi mynd, en á sama tíma eru uppi ráðagerðir um að Suðurlandsbraut verði þrengd í eina akrein í hvora átt. Hvað sem líður skoðunum fólks á „þéttingu byggðar“ er afar varhugavert að skerða framtíðar íþrótta- og útivistarsvæði borgarbúa.

Allt frá því í borgarstjóratíð Gunnars Thoroddsen hefur verið unnið markvisst að því að efla Laugardalinn sem íþrótta- og útivistarsvæði. Um þetta var sátt allra flokka þar til vinstrimeirihlutinn 1978-1982 setti fram hugmyndir sínar um að þrengja að dalnum. Og síðar beit R-listinn sálugi höfuðið af skömminni og hugðist heimila byggingu skrifstofublokkar og gríðarstórs spilasalar í Laugardal. Borgarbúar hrundu þessum atlögum að útivistarsvæði sínu og höfðu til þess stuðnings sjálfstæðismanna. Hins vegar hefur Sogamýrin verið skert verulega, en áður var gert ráð fyrir einu samhangandi útivistarsvæði frá Laugardal og inn að Elliðaám.

Útivistar- og íþróttasvæðin í Laugardal eru aðgengileg öllum borgarbúum og mikil lífsgæði í því fólgin að búa við græn svæði. Nefna má Berlín sem dæmi, þar sem grænir garðar eru alltumlykjandi til mikils yndis fyrir íbúa jafnt sem gesti. Laugardalurinn er aðalíþróttasvæði borgarinnar og mun verða um ókomin ár. Mikilvægt er að skerða ekki mögulega uppbyggingu íþróttamannvirkja til framtíðar á þessu svæði. Að sama skapi má telja líklegt að borgarbúar muni brátt vilja stækka fjölskyldugarðinn eða lystigarðinn og því brýnt að ekki hafi áður verið gengið of nærri dalnum.

Trjágróðurinn veitir okkur skjól og er borgarbúum til yndis og ánægju. Blokkarbyggð vinstrimeirihlutans norðan megin Suðurlandsbrautar yrði sannkallað umhverfisslys.

Blokkirnar munu mynda vegg sem lokar fyrir útsýni til norðurs, ekki ósvipað því þegar ekið er Sæbraut meðfram Sundahöfn, þar sem vöruskemmur byrgja sýn út á Sundin.

Í stóru og strjálbýlu landi er nægt rými fyrir ný hverfi og engin ástæða til að skerða stórkostlega lífsgæði borgarbúa með þröngri blokkarbyggð á aðalútivistarsvæði borgarinnar. Hugmyndir vinstrimeirihluta Dags B. um múrvegg norðan Suðurlandsbrautar munu vonandi enda á öskuhaugum sögunnar.

Höfundur er íbúi við Laugardal og skipar 11. sæti á D-lista fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Höf.: Björn Jón Bragason