Meirihluti Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í Hafnarfirði er fallinn samkvæmt nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið. Samfylkingin tapar miklu, fer úr 40,1% árið 2010 í 24% núna.

Meirihluti Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í Hafnarfirði er fallinn samkvæmt nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið. Samfylkingin tapar miklu, fer úr 40,1% árið 2010 í 24% núna. Flokkurinn fær þrjá bæjarfulltrúa í stað fimm. Vinstri græn tapa einnig miklu fylgi, fá 8,2% í stað 14,6% árið 2010, en halda sínum eina fulltrúa.

Björt framtíð og Píratar verða sigurvegarar kosninganna samkvæmt könnuninni. Hvorugur flokkanna hefur áður boðið fram til sveitarstjórnar. Fylgi Bjartrar framtíðar mælist 20,4% sem gefur tvo bæjarfulltrúa. Píratar eru með 8,1% fylgi sem tryggir þeim einn mann í bæjarstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn verður stærsti flokkurinn í bænum en tapar talsverðu fylgi og missir einn bæjarfulltrúa. Fylgi hans mælist 31,6% en var 37,2% fyrir fjórum árum. Fær flokkurinn fjóra bæjarfulltrúa.

Könnunin var gerð 5. til 11. maí. Af heildinni voru 17% þátttakenda óákveðin í afstöðu sinni. 44-45