Jóhannes Baldvinsson fæddist á Gilsbakka, Árskógsströnd 17. júní 1937. Hann lést á gjörgæsludeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri 5. maí 2014.

Foreldrar: Freydís Þorvaldsdóttir húsfreyja, f. 6.8. 1914 á Stóru Hámundarstöðum á Árskógssandi, d. 4.12. 1985, og Baldvin Jóhannesson sjómaður, f. 6.1. 1904 að Kleif í Þorvaldsdal, d. 13.1. 1975. Systkini hins látna eru: Anton Þór, f. 22.2. 1936, d. 22.3. 2013, Brynjar, f. 22.7. 1939, d. 19. 9. 2013, Þorvaldur, f. 29.7. 1940, Gylfi, f. 8.9. 1941, Zophonías, f. 28.8. 1943, Ragnheiður Ingibjörg, f. 19.6. 1948, Pálína Katrín, f. 27.12. 1951.

Jóhannes kvæntist Ingibjörgu Huldu Ellertsdóttir 26. desember 1961. Hulda er fædd 9. júní 1941 á Akureyri. Börn þeirra eru: 1) Jónína Freydís, f. 19.7. 1961, maki Ingvi Þór Björnson, f. 25.1. 1968. Börn þeirra: Hrafnhildur Gréta Björnsdóttir, f. 10.8. 1986, maki Damian Ksepko, f. 28.5. 1986. Barn þeirra, Natalía Emma, fædd 23.4. 2012, Baldvin Þór Ingvason, f. 15.11 1998, Þorkell Björn Ingvason, f. 9.1. 2001. 2) Anna Hafdís, f. 7.8. 1963, maki Óskar Aðalsteinn Óskarsson, fæddur 6.6. 1964. Börn þeirra: Harpa Rut Heimisdóttir, f. 7.1. 1982, maki Björgvin Björgvinsson, f. 11.1. 1980. Börn þeirra, Maron f. 14.3. 2008, Barri. f. 17.4. 2011, Viggó, f. 22.10. 2013. Marteinn Ari, f. 10.10. 1995, d. 11.10. 1995, Marta Soffía, f. 10.10. 1995, d. 29.1. 1996, Sólrún Anna, f. 26.5. 1996, Sindri Már, f. 26.5. 1996. 3) Agnes Bryndís, f. 30.11. 1965, maki Reimar Helgason, f. 19.3. 1968. Börn þeirra: Jóhannes Svan, f. 5.7. 1984, í sambúð með Hörpu Dís Haraldsdóttur, f. 27.5. 1985. Barn þeirra Elísa Líf, f. 15.10. 2010. 4) Ingibjörg Hulda, f. 24.3. 1989, í sambúð með Andra Fannari Gíslasyni, f. 20.12. 1990. Barn, Natan Breki, f. 1.9. 2008. Axel Brynjar, f. 9.3. 1994, Katrín, f. 22.2. 1991, Kristín, f. 16.5. 1994. 5) Jórunn Eydís, f. 4.1. 1970, maki Páll Viðar Gíslason, f. 17.4. 1970. Dætur þeirra: Amanda Mist, f. 20.7. 1995, Andrea Mist, f. 25.10, 1998, Hanna Vigdís, f. 18.2. 1976, maki Barði Westin, f. 1979. Börn þeirra: Bjartur, f. 8.9. 2008, Júníana, f. 18.8. 2010, Jóhann Örn, f. 8.12. 2012.

Jóhannes ólst upp á Árskógssandi ásamt stórum systkinahópi sínum. Snemma fór hann að stunda sjómennsku með föður sínum. Hann lærði vélstjórn og eftir það var hann vélstjóri á þeim skipum sem hann stundaði sjómennsku á. Jóhannes vann í Slippstöðinni á Akureyri frá árinu 1966 til 1982 eða í 16 ár og lauk meistaranámi í vélvirkjun á því tímabili. Þá kallaði sjórinn á hann aftur og stundaði hann sjómennsku til ársins 1991 þegar hann fékk heilablæðingu. Eftir það fór hann ekki aftur á sjóinn en vann á ýmsum stöðum en lengst af á Plastiðjunni Bjargi þar til hann lét af störfum sjötugur.

Útför Jóhannesar verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, 16. maí 2014, klukkan 13.30.

Þegar maður horfir upp á pabba sinn kveðja þennan heim verða allir hversdagslegir hlutir lítilvægir. Söknuðurinn og sorgin sem fyllir huga manns verða svo yfirgnæfandi að lítið annað skiptir máli. Minningarnar hrannast upp og einhvernvegin man maður bara þær góðu sem maður getur yljað sér við. Og þegar tárin streyma niður kinnarnar getur maður ekki annað en fyllst gleði og þakklæti fyrir að hafa alltaf átt hann að. Þakklæti fyrir að geta leitað í viskubrunninn hans sem bæði var tær og djúpur.

Pabbi var mjög sterkur maður bæði líkamlega og andlega. Hann hafði alveg sérstaka nærveru sem einkenndist af ákveðinni innri ró sem börn sóttu í. Þau skriðu upp í fangið á honum hvenær sem þau gátu og alltaf gaf hann sér tíma til að spjalla og miðla af visku sinni.

Pabbi var metnaðargjarn og þá sérstaklega fyrir okkur dætur sínar og aðra afkomendur því hann vildi að fólkið sitt rataði rétta leið í lífinu. Hann lagði mikla áherslu á menntun og vinnusemi, það myndi tryggja tekjur, öryggi og gott lífsviðurværi. Þá var hann bóngóður og vildi allt fyrir alla gera og aldrei heyrðum við hann hallmæla nokkrum manni. Á unglingsárum okkar slógum við oft peningalán hjá honum sem erfitt var að fá að borga til baka.

Pabbi var mikill húmoristi og sá oft spaugilegu hliðar lífsins sérstaklega ef þær snéru að honum sjálfum og gerði hann óspart grín. En líklega var stærsti kosturinn við pabba réttlætiskenndin sem hann hafði. Hann var heiðarlegur maður og lagði mikið upp úr því í uppeldi okkar að við kæmum vel fram við aðra. Hann kenndi okkur líka að virðingu þyrfti maður að ávinna sér með sinni hegðun og sinni hugsun. Ekkert væri ókeypis í lífinu.

Það eru flóknar tilfinningar sem hafa flogið í gegnum huga okkar undanfarna daga sem byggja á söknuði, gleði, tárum og umburðarlyndi en umfram allt þakklæti fyrir að hafa átt hann að.

Við fylgjum pabba til grafar í dag og munum við bera hann síðast spölinn.

Minning hans mun lifa áfram í hjörtum okkar.

Dísirnar þínar fimm.

Jónína Freydís, Anna Hafdís, Agnes Bryndís, Jórunn Eydís og Hanna Vigdís.

Að eiga ömmu og afa er gulls ígildi, hjá þeim má allt og allir dagar eru laugardagar. Mín fyrsta minning af afa var við fjögurra ára aldur þegar ég kom í pössun og það fyrsta sem hann gerði þegar ég kom inn var að gefa mér stóran bita af súkkulaði inn í búri. Ég á margar matarvenjur mínar að rekja til afa eins og súkkulaðirúsínur, siginn fiskur, skata, súkkulaðiís og eihnú eihnú eihnú („einn snúð“ endurtekið). Svo ég tali nú ekki um súpurnar hans afa sem maður fékk ósjaldan og var skylda að dýfa brauði út í. Stuttu áður en hann fór á sjúkrahúsið var ég heima hjá ömmu og afa þegar hann kom úr búðinni með tæplega tíu súpupakkningar. Enda gat hann ekki varist brosi þegar ég kom með innpakkaðan súpupakka á sjúkrahúsið til hans í gríni.

Ég var voðalega utan við mig þegar ég var yngri og var sífellt að týna eða gleyma húslyklunum mínum. Þá var aðeins einn staður þar sem ég gat alltaf leitað húsaskjóls og félagsskapar en það var hjá ömmu og afa, enda var oft grínast með það hvar ég væri eiginlega stödd ef ég hefði ekki ömmu og afa í Steinó. Það besta sem ég gerði var að fara þangað eftir skóla, spila við afa, spjalla við hann í reykkompunni með pípuna sína eða horfa á sjónvarpið á meðan hann nuddaði á manni tærnar. Það er að segja þangað til að fréttir eða alþingi byrjuðu en þá „var hans tími kominn“ í sjónvarpinu. Einnig fannst mér oft voða gott að læra með afa yfir mér en hann var mjög áhugasamur um einkunnir mínar og sagði hann að allt fyrir neðan 7 væri óásættanlegt og það mun alltaf drífa metnaðinn minn áfram. Hann meira að segja gaf mér einkunn fyrir bakkelsi sem ég bakaði og kom með handa honum en að ná hærra en 8,5 var nærri ómögulegt.

Eins og ég segi þá metur maður afa sinn og ömmu aldrei nógu mikils, þau hafa ístruna til að kúra á, faðminn til að liggja í, nammireglurnar til að brjóta, hafa góða nærveru og ekki síst kenna manni að setja ekki meira en eina teskeið af nesquick í mjólkina eða borða fleiri en tvær kókópuffsskálar. Þessar minningar ásamt fleirum munu alltaf eiga stað í hjarta mínu og huga þegar ég hugsa til afa ásamt því hversu glaður og kátur hann var alltaf og sló öllu upp í grín. Hvíldu í friði, elsku afi minn, og takk fyrir að kenna mér margt sem ég bý að í dag, megi englar vaka yfir þér og þinni yndislegu sál.

Ingibjörg Hulda Jónsdóttir.

Með gleði í hjarta og söknuði kveð ég í dag elskulegan afa minn, hann Jóa Bald. Yndislegar minningar fullar af svo mikilli gleði, glensi og þakklæti rifjast upp þegar ég reyni að sætta mig við að kallið þitt sé komið. Tilhugsunin er sár og gríðarlega erfið en mikið má ég vera þakklát fyrir að hafa fengið að vera afastelpan þín. Þú svo sannarlega mótaðir líf mitt á margan hátt með gríni þínu, glensi, prakkaraskap og hressileika alla tíð. Það var alltaf svo gaman í návist þinni og gátum við tvö hlegið og grínast endalaust saman, enda húmoristar bæði tvö.

Ég naut þeirra forréttinda að búa hjá ykkur Huldu ömmu fyrstu æviárin mín og skilst mér að þú hafi verið ansi duglegur í því dekra við litlu afastelpuna með allskonar fíniríi þegar þú komst meðal annars heim úr siglingunum. Þú gafst þér oftar en ekki tíma til að leika og fíflast í okkur barnabörnunum og oft varð það fyrir valinu að fá að setjast á sköflungana á þér þegar þú sast í sófastólnum og láta þig rugga sér upp og niður, nú eða fara á hestbak sem endaði ekki alltaf vel þegar þú breyttist í ótemju í hamaganginum. Ekki fór það framhjá mér afi minn frekar en öðrum sem til þín þekktu að þú varst mikill matmaður og tel ég það ekki vera að ástæðulausu að ég hámi í mig siginn fisk, hákarl og annan „ellimat“ ef svo má kallast. Maður var varla búinn að kyngja hádegismatnum þegar þú varst byrjaður að elda kvöldmatinn, hvort sem það yrði stórsteik eða jafnvel bara súpa á boðstólum. Í millitíðinni varstu þá eflaust búinn að skutla manni í bakaríið í Sunnuhlíð og kaupa handa manni súkkulaðisnúð eða með öðrum orðum einn snúð, einn snúð, einn snúð. Þú varst algjör snillingur, einstaklega skemmtilegur karakter, ófeiminn og fordómalaus þar sem allir voru jafnir fyrir þér. Þú tókst manni alltaf fagnandi og fylgdist með því sem maður var að gera hverju sinni og lýstir áhuga þínum með hvatningu og það þótti mér alltaf vænt um. Mér tókst aldeilis að gera þig ríkan af langafastrákum og mun ég viðhalda og deila minningunum um rúsínuafann hjá dótabúðinni með þeim. Elsku afi, ég mun sakna samveru þinnar, hörðu kossanna, grínsins og gleðinnar sem fylgdi þér alla tíð og allt fram til síðasta dags! Ég mun varðveita yndislegar minningar um þig og ykkur ömmu í hjarta mér alla tíð.

Hafðu þökk fyrir allt, elsku Jói afi.

Þín,

Harpa Rut.

Þegar ég sit hér í Ungverjalandi og hugsa um það að afi minn, Jóhannes, sé farinn, þá á ég erfitt með að trúa því og ég fyllist tómleikatilfinningu. Þó að sorgin hellist yfir mig get ég ekki annað en verið glöð yfir því hversu óendanlega heppin ég var að hafa átt hann að.

Ég man eftir því þegar ég var sjö ára og bjó hjá ömmu og afa í hálfan vetur. Það var ekki í fá skipti sem við sátum saman og spiluðum olsen, olsen, ýmist við tvö eða með öðrum barnabörnum, t.d. Huldu og Jóa. Afa leiddist ekki þegar hann hló að því hversu tapsár ég var (og hótaði því í vælutón að hringja í mömmu í hvert sinn sem ég tapaði). Hann minntist oft á þetta og gerði grín að þessu, seinast bara núna í vetur. Hann gerði líka grín að sjálfum og í hvert skipti sem hann tapaði spilinu hótaði hann að hringja í mömmu sína (sem þá var farin til Guðs). Það var ansi oft á þessum tíma að maður fékk að skríða upp í rúm til ömmu og afa ef maður átti eitthvað erfitt með það að sofna. Yfirleitt vildi ég sofna í ömmu holu en einhverra hluta vegna vaknaði ég alltaf í afa holu.

Þegar við mamma fluttum svo til Akureyrar ári seinna var ekki málið að fá mig í hádegismat á hverjum degi eftir skóla. Og þá fékk maður verðlaun eftir matinn ef maður var duglegur að borða (yfirleitt búðing, súkkulaðirúsinur eða ís).

Afi var líka alltaf tilbúinn að gefa manni tíma sinn og koma manni til bjargar ef á þurfti að halda. Hann nennti endalaust að skutla manni eða ná í mann, t.d. á æfingar í köldu veðri og var alltaf til í að koma og horfa á ballettsýningar hjá mér. Hann hvatti mann til þess að vera með metnað og gera sitt besta í skóla. Hann gaf manni oft „prik“ eða einkunn fyrir það sem maður gerði og það var sko ekki auðvelt að fá fullt hús „prika“.

Ég mun ætíð minnast þess þegar afarnir mínir báðir, Jói og Halldór, bæði í fermingarveislunni minni og síðan aftur í útskriftarveislunni minni úr MA, þurftu alltaf að „fara út að kíkja á fjöllin“ sem þýddi í rauninni að fara út og fá sér vindil. Og glottið á þeim gröllurunum var alveg yndislegt þegar þeir komu til baka, svolítið lýsandi fyrir þá báða.

Elsku afi, þú varst alltaf svo hress, skemmtilegur og þolinmóður við okkur barnabörnin. Það hefur alltaf verið svo gott að koma heim til ykkar ömmu og maður kemur alltaf endurnærður frá ykkur. Þið hafið alltaf verið svo dugleg að rækta samskiptin og fylgjast með þótt maður búi langt í burtu. Þið pössuðuð upp á það að bjóða manni í mat, pitsu, Mjöllara eða Hagkaups „kjúlla“ með reglulegu millibili og ég vona að þið vitið hversu dýrmætt það er.

Elsku amma mín, guð veri með þér á þessum erfiðu tímum.

Ykkar afabarn,

Hrafnhildur Gréta Björnsdóttir.

Elsku afi minn og nafni hefur nú kvatt þetta líf og eftir standa góðar minningar um frábæran mann. Minningar sem margar hverjar eru sprenghlægilegar. Í æsku var ég mikið hjá afa og ömmu í steinahlíð 1a, þetta var mitt annað heimili þar sem ég bjó stutt frá. Afi var mikið heima við og var hann duglegur að elda fisk. Fiskinum hefur maður svo sannarlega haft gott af enda lofaði afi því að ég yrði hraustur af honum. Yfirleitt fengum við barnabörnin súkkulaðirúsínur eða ísblóm í verðlaun, hann kunni þetta sá gamli. Afi lagði mikið upp úr því að ég yrði að vera hraustur og lét hann mig æfa bæði sjómann og kreppa lófaklemmur. Það var oft tekist á í sjómanni og langt fram eftir aldri hafði ég ekki þann gamla. Afi var duglegur að fara með mig niður við sjó að veiða, enda þótti honum það ekki síður gaman. Ég minnist þess þegar ég var um 11-12 ára aldurinn. Við keyrðum niður á Leiruveg og stoppuðum við álitlegan veiðistað. Þar sem æsingurinn var mikill hljóp ég út á undan og ætlaði að kasta út agninu en kastaði þess í stað allri stönginni út í sjó. Á meðan ég sat skælandi við bakkann út af glataðri veiðistöng náði afi með ótrúlegum hætti að húkka í stöngina og draga hana í land. Þetta þótti afa mínum ekkert lítið fyndið og hafði hann alltaf gaman af því að rifja þetta upp reglulega. Ég gleymi heldur aldrei svartfuglsskyttiríinu með afa og Binna bróður hans heitnum. Ég var að fara í fyrsta skipti í svartfugl og þótti þetta mjög spennandi. Þar sem ég var ekki vanur skyttiríi úr bát kom fyrir í eitt skipti að ég skaut beint niður í sjó þegar alda skall á bátinn. Afi og Binni bróðir hans hlógu að unga manninum alla heimferðina. Afi var maður af gamla skólanum og var ekki mikið að kvarta, hann var alltaf jafn jákvæður og aldrei sá ég hann í vondu skapi, það var bara þannig. Aldrei man ég hann afa minn tala illa um neina manneskju. Hann var hjartahlýr maður og hafði gaman af því að hafa okkur barnabörnin í kringum sig. Ég hef ekki tölu á því hversu oft maður spilaði olsen olsen við gamla, hann var lunkinn í því spili og var ekkert á því að leyfa manni að vinna. Eitt var þó á hreinu, fréttatíminn var hans heilaga stund og átti maður síst að vera með einhver læti á þeim tíma. Afi gat oft verið stríðinn en aldrei fór hann yfir strikið í þeim efnum. Hann var maður með skemmtilega nærveru og húmor, ekkert var eins gaman og að fá hann til að skella upp úr í einhverju gríni. Ég hlaut þann heiður að vera skírður í höfuðið á afa mínum sem mér þótti óskaplega vænt um og á ég eftir að minnast hans alla tíð með gleði í hjarta. Hjá mér hvílir líka mikill söknuður og voru þau skipti sem við hittumst síðustu árin í lífi þínu alltof fá. Því eru allar þær stundir gullnar í mínum huga. Elsku Jói afi, að hafa átt þig að gerir mig að ríkari manni. Vertu sæll í bili, elsku afi minn og nafni. Guð geymi þig þangað til við sjáumst næst. Kveðja,

Jóhannes yngri.

Í dag kveð ég þriðja bróðurinn á rúmu ári. Við vorum átta Sælandssystkinin, sex bræður og tvær systur. Anton Þór, sá elsti, og Valgerður kona hans létust með stuttu millibili í mars á sl. ári og í september sl. lést Brynjar.

Það er mikið að takast á við. Við Jói Bald, eins og hann var oftast kallaður, vorum mikið saman til sjós, nokkur ár á Ólafi Magnússyni EA og einnig á Heiðrúnu EA og á ég margar góðar minningar frá þessum tímum. Við fórum með Heiðrúnu EA til Noregs í slipp, Jói var alveg frábær vélstjóri og í Noregi hélt hann uppá fimmtugsafmælið sitt. Tíu árum síðar fórum við Jói ásamt Soffa bróður og konunum okkar til Kanada og þar var haldið uppá sextugsafmæli Jóa. Já, það er margs að minnast og oft var glatt á hjalla þar sem Jói var einhvers staðar nálægt og þakka ég og fjölskylda mín fyrir allar frábæru stundirnar sem við áttum saman.

Við sendum Huldu, dætrum, tengdasonum og fjölskyldum þeirra , okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Gylfi Baldvinsson og fjölskylda.

Mig setti hljóða er ég fékk andlátsfrétt bróður míns, Jóa Bald. Þrír bræður farnir og mágkona á nokkra mánaða tímabili. Stórt skarð hefur verið rist í systkinahópinn frá Sælandi á skömmum tíma.

Ég tilheyri yngri hópnum, svo Jóa þekkti ég meira í seinni tíð. Hann byrjaði ungur til sjós eins og algengt var með pilta á hans unglingsárum. Aðeins var komið heim á milli vertíða. Í minningunni var alltaf tilhlökkun þegar Jói kom heim, oft með eitthvað í pússi sínu til þess að gleðja okkur sem yngri vorum. Sérstök minning er þegar hann kom með gítar og gaf mér. Ég var þá tíu ára og hefur það að geta glamrað á gítar veitt mér og samferðafólki ómælda ánægju í gegnum árin. Jóa þótti gaman að syngja með mér „Lóan er komin“ en sagði svo að ég yrði að redda sér því hann væri svo laglaus, þá var okkur skemmt.

Ég á Jóa margt að þakka. Ég bjó á fallegu heimili þeirra Huldu á Akureyri sem unglingur þar sem ég gekk í skóla. Í seinni tíð þegar ég hef verið á ferðinni norðan heiða hefur heimili þeirra Huldu og Jóa staðið opið fyrir mig og mína eins og væri mitt annað heimili. Þó að Jói gengi ekki heill til skógar eftir veikindi sem dundu yfir hann 54 ára, náði hann sér nokkuð og hélt alltaf sinni glettni og gamansemi fram til hins síðasta. Mér fannst þú svo skemmtilegur og það var þér lagið að eiga góð samskipti við fólk á öllum aldri.

Það var honum mikið metnaðarmál að dætur hans menntuðust og yrðu góðir þjóðfélagsþegnar. Hann var stoltur af þeim þó að hann flíkaði því ekki.

Jói hefði ekki viljað neina lofræðu en ég held að honum hafi fundist hann bera ábyrgð á mér, litlu systur sinni og stóru systur dætra sinna.

Elsku kallinn, þakka þér fyrir allt sem ég hef notið með þér og þínum í gegnum tíðina.

Ég þakka þér samfylgdina.

Elsku Hulda, Jóna Dísa, Habba, Bryndís, Jórunn, Hanna og fjölskyldur, okkar samúð er hjá ykkur.

Þín systir

Ragnheiður (Heiða).

Jói Bald, eins og við sem best þekktum hann kölluðum hann oftast, er fallinn frá. Hann var fljótur í heimanbúnaði þegar hann kvaddi blessaður. Þannig var lífshlaup hans. Hann var snöggur að bregða við er á hann var kallað, þótt verkefnin væru oft af ólíkum toga. Hann var óvílinn og tók því sem að höndum bar. Hann byrjaði ekki að karpa um kaup og kjör sér til handa, heldur tókst á við viðfangsefnin af dugnaði og ósérhlífni. Ég kynntist Jóa fyrst þegar hann var níu ára gamall. Þá kom hann til sumardvalar í sveitinni á heimili foreldra minna. Þá voru engin lög eða reglugerðir um að börn mættu ekki vinna þau verk sem hentuðu þeim að fást við. Jói hafði strax á unga aldri metnað og vilja til að standa sig vel, helst að skara fram úr, vera ekki eftirbátur annarra. Hann var fljótur að læra ný vinnubrögð og vildi laga sig að aðstæðum og umfram allt að ná árangri, sem öðrum líkaði. Best man ég er við vorum í steypuvinnu. Öllu var mokað með skóflum, borið í fötum upp í tunnu, sem Jarpur gamli var látinn snúa með því að draga út kaðal og vefja annan upp á hinn endann á tunnunni og þannig var steypan hrærð. Svo þurfti að moka steypunni upp í hjólbörur og keyra í mótin eða bera upp í fötum. Jói mokaði í föturnar og vildi halda áfram jafn lengi og aðrir, svo það varð að passa að hann gengi ekki fram af sér, slík var harkan þegar á unga aldri. Á fullorðinsárunum var hann eftirsóttur starfskraftur bæði til sjós og lands. Sjómennskan varð hans aðalstarf um áratugaskeið, hann hafði vélskólamenntun, sem einnig nýttist honum til starfa í sínu fagi á verkstæðum í landi. Hvar sem hann starfaði var hann vinsæll og vinmargur. Eftir áfall sem hann varð fyrir heilsufarslega sýndi hann og sannaði með sinni hörku og seiglu að hann náði með endurhæfingu ótrúlegum árangri. Jói spilaði knattspyrnu frá unga aldri um áratuga skeið, þar sýndi hann sama áræðið og úthaldið, aldrei að gefa eftir, heldur að standa sig fyrir þá sem á hann treystu. Hann var mikill fjölskyldumaður og naut sín best að sinna og sýna í verki hve mikils hann mat sinn stóra frændgarð. Hann var ungmennafélagi, þar sem hann var bæði keppnismaður og hvatti aðra til dáða. Hann barðist ekki fyrir metorðum fyrir sjálfan sig, var grandvar og heiðarlegur og ætlaði öðrum það sama. Kannski væri mannlíf í landinu okkar öðruvísi ef við almennt hefðum borið gæfu til að fylgja hans lyndiseinkunn. Við Ása sendum Huldu og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sveinn Jónsson.

Elsku Jói.

Það er erfitt að trúa því að þú sért farinn frá okkur. Það eru margar minningar sem fara í gegnum hugann, alltaf varst þú traustur og góður vinur og hlýr í viðmóti. Við þökkum þér samfylgnina í gegnum lífið og biðjum góðan guð að varðveita þig. Hafðu þökk fyrir allt og allt, kæri mágur og svili.

Nú sit ég hér hljóður og hugsi

og horfi yfir gömul kynni.

Og söknuðurinn breytist í blessun

og bæn yfir minningu þinni

(Sigurjón Friðjónsson)

Elsku Hulda og fjölskylda, innilegustu samúðarkveðjur og guð gefi ykkur styrk í sorg ykkar.

Þóra og Sæmundur.

Í dag, föstudaginn 16. maí, verður borinn til grafar frá Akureyrarkirkju Jóhannes Baldvinsson vélstjóri, Brekkugötu 38, Akureyri. Jói Bald. eins og flestir þekktu hann, lést á Sjúkrahúsi Akureyrar þann 5 maí sl. eftir að hafa barist og lifað með erfiðan sjúkdóm til margra ára.

Jóhannes fæddist á Gilsbakka á Litla-Árskógssandi þann 17. júní 1937, annar í röð átta systkina og ólst þar upp til unglingsára. Ekki var um framhaldsskóla að ræða, aðeins barnaskóli í sveitinni og því lítið annað framundan en vinna og þá helst til sjós.

Má því segja um Jóa eins og nær alla sem ólust upp á þessum tíma að eftir fermingu komu menn varla á heimaslóðir nema sem gestir vegna vinnu sinnar sem var oftast langt frá heimahögum.

Árið 1956 öðlaðist Jói mótorvélstjóraréttindi og varð vélstjórn hans aðalatvinna alla tíð eftir það til sjós og lands.

Jói Bald var með eindæmum viðræðugóður og traustur félagi, léttur í lundu og alltaf tilbúinn að hjálpa til ef með þurfti, enda oft leitað til hans hér áður fyrr meðan heilsan hélst.

Það er ósk okkar að þú komist sem fyrst á meðal ættingjana sem flytjast svo ört frá okkar jörð. Ykkar er sárt saknað.

Árið 1961 gekk Jóhannes í hjónaband með eftirlifandi konu sinni, Huldu Ellertsdóttur, og eignuðust þau fimm dætur.

Hulda, dætur og fjölskyldur, megi almættið styðja ykkur í sorginni

Við vottum ykkur innilega samúð.

Þorvaldur og fjölskylda.

Elsku Jói.

Við eigum erfitt með að trúa að þú sért farinn frá okkur. Við eigum svo margar yndislegar minningar úr ferðalögum okkar saman í gegnum tíðina, bæði innanlands og utan. Þú varst ætíð traustur vinur og félagi og alltaf var gott að vera með ykkur Huldu.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn,

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Jói minn, hafðu þökk fyrir allt og allt. Elsku Hulda og fjölskylda, Guð gefi ykkur styrk í ykkar miklu sorg.

Inga Ellertsdóttir og fjölskylda.