Guðmundur Jónsson, bifvélavirkjameistari, fæddist í Reykjavík 15. febrúar 1944. Hann lést á heimili sínu, Hnjúkaseli 11, Reykjavík, 7. maí 2014.

Foreldrar hans voru Jón Eiríksson, f. 3. desember 1911 í Reykjavík, d. 3. september 1986, og Níelsína Guðmundsdóttir, f. 18. júlí 1916, í Nýjubúð í Eyrarsveit, Snæfellsnesi, d. 11. nóvember 1999. Systkini Guðmundar eru Elísabet, f. 28. nóvember 1942, Jensína, f. 9. mars 1946, Ingibjörg, f. 9. mars 1946, og Eiríkur f. 8. september 1947.

Guðmundur kvæntist 7. október 1967 Brynju Baldursdóttur, f. 24. desember 1946. Foreldrar hennar voru Baldur Guðmundsson, útgerðarmaður, f. 14. maí 1911, d. 14. ágúst 1989, og Magnea Guðrún Rafn Jónsdóttir, f. 3. mars 1923, d. 8. júní 1981.

Börn Guðmundar og Brynju eru 1) Magnea, f. 3. ágúst 1967, maki Haukur Sigurðsson, börn þeirra Tinna Rut, f. 12. júlí 1992 og Sigurður, f. 29. janúar 1996. 2) Jónína, f. 28. ágúst 1969, börn hennar Telma Sif, f. 12. nóvember 1996 og Sæbjörn Rafn, f. 26. janúar 1999. Barnsfaðir Steinar Ágústsson. 3) Daníel Rafn, f. 20. júlí 1977, sambýliskona Bergrún Lind Jónasdóttir. Börn hans Brynja Sól, f. 16. janúar 2000 og Saga Lind, f. 4. mars 2005. Barnsmóðir Linda Björk Grétarsdóttir.

Guðmundur ólst upp í Reykjavík. Hann lærði bifvélavirkjun hjá H. Ben., fékk meistararéttindi 1973. Hann vann alla tíð við iðn sína, lengst af hjá Stillingu, eða þar til hann stofnaði eigið verkstæði, Hemil, í október 1981.

Útför Guðmundar fer fram frá Seljakirkju í dag 16. maí 2014, og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku besti pabbi minn, það er svo sárt að þú sért farinn, þú varst besti og yndislegasti pabbi sem ég hefði getað óskað mér.

Minningarnar okkar saman eru svo góðar, alltaf varstu jafn þolinmóður og traustur, sama hvað gekk á. Þú kenndir mér allt það góða sem ég kann þó ég hafi örugglega verið mjög krefjandi lítill strákur í uppeldinu, það er ekkert nema ást og hlýja í hjartanu mínu þegar ég hugsa til þín og þó svo við hefðum verið búnir að ræða saman um allt og búa okkur undir að svona færi er svo margt núna sem ég hefði viljað segja þér og þakka þér fyrir því þú varst alltaf til staðar fyrir mig og hafðir alltaf þinn einstaka kærleika og umburðarlyndi, sama hvað gekk á.

Ég er svo þakklátur fyrir að hafa fengið þann heiður að vera sonur þinn, elsku, hjartans pabbi minn og ég mun gera mitt besta til að standa undir því.

Þú ert mesta hetja sem ég hef nokkurn tímann kynnst og baráttan þín við þennan skelfilega sjúkdóm var mögnuð, þú sýndir aldrei uppgjöf eða ótta við það sem myndi gerast og eins og þú orðaðir það best sjálfur þá stefndir þú einfaldlega bara í rétta átt og tókst því sem koma skyldi óttalaus.

Ég elska þig, pabbi minn, og get ekki komið öllum þeim hugsunum í orð sem ég á þér að þakka og hvað þú gafst mér mikið af þínu hjarta, gæti skrifað endalaust af minningum sem við áttum saman en ætla frekar að geyma þær í hjartanu mínu.

Hvíldu í friði, elsku pabbi minn, ég sakna þín svo sárt, þú ert og verður alltaf í hjartanu mínu og það verður að duga þangað til við hittumst aftur.

Þinn sonur sem er ávallt svo stoltur af því að hafa átt þig sem pabba.

Daníel Rafn.

Elsku besti pabbi minn, nú ertu farinn frá okkur og klárlega kominn í önnur verkefni. Þú barðist hetjulega við þenna hvimleiða vágest „krabbann“ og kvartaðir aldrei, þú varst svo jákvæður og bjartsýnn á að sigrast á þessu allt fram á síðasta dag.

Þú ætlaðir þér að vera hjá okkur aðeins lengur. Það eru svo margar góðar minningar sem koma upp í hugann á svona stundu, þú varst alltaf svo þolinmóður og umburðarlyndur gagnvart öllu. Varst aldrei reiður eða skammaðist í okkur hvað sem á gekk. Þú hefur alltaf verið svo viljugur að gera allt fyrir alla hvenær sem er og hvar sem er en líklega gleymt að gera margt og mikið fyrir þig sjálfan og safnaðir upp verkefnum til að eiga til góða í ellinni.

Við sem vorum búin að plana Noregsferð fyrir ykkur, þú vildir koma og taka út nýja heimilið okkar og sjá hvort þú þyrftir ekki að laga eitthvað, pússa útihúsgögnin eða reyta arfa i garðinum. Þér leið alltaf svo vel þegar þú komst til okkar til Noregs, gast slappað svo vel af þar langt frá amstri hversdagsins. Um leið og við þökkum þér fyrir samfylgdina og allt sem þú hefur gert fyrir okkur, elsku besti pabbi og tengdapabbi, með góðri von um að þú hafir það gott þar sem þú ert.

Megi Guð styðja og styrkja elsku mömmu á þessum erfiðu tímum, það er erfitt að missa sinn besta vin og félaga til 50 ára.

Hvíl i friði, elsku besti pabbi og tengdapabbi.

Magnea og Haukur.

Það er skrítið að hugsa til þess að næst þegar við komum heim í Hnjúkaselið verða ekki allir þar til þess að taka á móti okkur eins og vanalega.

Afi talaði alltaf um að við ættum að njóta lífsins og gera allt það sem okkur langaði til að gera meðan við hefðum tök á því. Elsku besti afi, við ætlum sko að taka þig á orðinu og njóta lífsins eins mikið og við höfum tök á, eins og við töluðum alltaf um.

Jákvæðari, ákveðnari, duglegri og þrjóskari laumusprellara er ekki hægt að finna. Þú barðist eins og hetja í gegnum þetta allt saman og færð 1.000 rokkstig fyrir það, elsku besti afi minn. En því miður hafði krabbinn, eins og við kölluðum hann, betur og tók þig alltof snemma frá okkur. Þetta líf er ósanngjarnt og óréttlátt og ég held að ég átti mig ekki alveg á þessu.

Jákvæðnin þín og ákveðnin í gegnum þetta allt, er eitthvað sem við munum taka með okkur áfram í gegnum lífið.

Ég mun halda áfram að vera seinisteini, og halda tímaskyninu okkar á réttum stað svo amma komi nú ekki alltof snemma í allt.

Þú varst yndislegasti og góðhjartaðasti maðurinn sem virkilega áttir allt það besta í lífinu skilið. Þú varst maðurinn sem var alltaf sanngjarn, sá allt það besta í fólki, sá sem var alltaf að kenna okkur krökkunum eitthvað nýtt um hluti sem við ekki vissum um eða vildum læra meira um og alltaf tilbúinn að hjálpa öllum eins mikið og hann hafði tök á eða oftar en ekki of mikið en hann hafði tök á, meira að segja vængbrotna geitungnum sem lenti á tröppunum í Hnjúkaselinu.

Það að geta aldrei fengið afa spjall aftur um allt og ekkert er svo óraunverulegt í alla staði.

Telma og Brynja Sól halda því fram að guð sé orðinn leiður á að starfa sem guð og að afi hafi verið besti valkosturinn til þess að taka við af honum. Því ætlum við að trúa.

Það er ekki til betri afi eða bara maður en hann afi okkar og við erum svo heppin að hafa fengið hann sem afa. Við viljum að við hugsum um jákvæðu minningarnar sem við höfum átt með honum afa, því hann hefði ekki viljað að við sætum öll hér grátandi og syrgjandi yfir því að hann væri farinn frá okkur heldur hefði hann viljað að við fögnuðum lífinu sem hann átti og deildi með okkur öllum. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið allar þessar minningar með honum og fjölskyldunni, og þakka fyrir að við séum öll búin að vera jafn lengi saman og við vorum. Það eru ekki allir jafn heppnir og við.

Við vitum að þú ert kominn á betri stað núna og að þér líður betur.

Við treystum á þig að fylgjast með okkur öllum og minna okkur reglulega á að njóta lífsins. Þú munt alltaf eiga stóran hluta í hjörtunum okkar allra sem eru svo lítil og viðkvæm akkúrat núna

Við elskum þig, afi, hvíldu í friði.

Þín afabörn

Tinna Rut Hauksdóttir og Sigurður Hauksson.

Elsku besti og yndislegasti afi minn, þú varst alltaf svo jákvæður og barðist eins og hetja alla leiðina, en núna er baráttu þinni lokið og þú ert kominn á miklu betri stað þar sem þú vakir yfir okkur og passar okkur. Ég elska þig svo mikið, elsku afi minn, þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa öllum og gera allt fyrir alla, það er bara ekki hægt að setja það í orð hversu góður og yndislegur maður þú varst. Ég sakna þín svo mikið, elsku afi minn, þú varst og ert ennþá svo mikilvægur partur af lífi mínu og fjölskyldunnar, þú átt stóran stað í hjörtum okkar allra og þín verður ávallt sárt saknað, hvíldu í friði, elsku afi minn.

Þín afastelpa,

Brynja Sól Daníelsdóttir.

Elsku bestu afi minn, þú ert besti afi sem maður gæti átt, þú teiknaðir alltaf með mér þegar ég þurfti hjálp og þú sagðir alltaf sögu með þegar þú varst að hjálpa mér að teikna. Þegar við fórum í Kiwanis-útilegur þá var alltaf gaman. Einu sinni varst þú nammikallinn og dreifðir namminu.

Ég á bara góðar minningar um þig. þú ert alltaf afi minn þótt þú sért farinn, ég mun aldrei gleyma þér, sama hvað gerist, þú ert rosastór partur af hjartanu mínu og verður alltaf stór partur af lífinu mínu, ég mun alltaf elska þig. Ég á svo margar góðar minningar um þig, maður gæti aldrei gleymt þér, þú ert svo yndislegur maður. Þín afastelpa,

Saga Lind Daníelsdóttir.

Í dag kveð ég æskuvin minn Guðmund í hinsta sinn en kveðjan sú er með miklum trega.

Við Guðmundur deildum vináttu í meira en sex áratugi þar sem aldrei brá skugga á, fyrstu árunum í Vesturbænum í Kamp Knox þar sem allt hverfið var einn leikvöllur fyrir allan þann skara af krökkum sem þar bjó. Leikir okkar strákanna einkenndust eins og oftast af bardagaleikjum, hjólatúrum og uppátækjum sem oftast fengu góðan endi, skrámur og minni háttar meiðsl voru strokin burt með hundasúrum og njóla. Þetta voru góð ár við ærsl og margskonar uppgötvanir og við krakkarnir í hverfinu samheldinn og góður hópur sem enn hittist á góðum stundum.

Síðar flytja fjölskyldur okkar á Réttarholtsveginn og búum við vinirnir í sömu raðhúsalengjunni. Þar verður til alveg nýr heimur, stærri og örlítið flóknari en samt svo spennandi fyrir stráka sem keppast við að verða fullorðnir.

Nú voru það skellinöðrurnar sem áttu hug okkar Guðmundar, við á útopnu um allt hverfið og miklu lengra en það. Þessi stórmerkilegu farartæki voru líf okkar og yndi, alltaf stífpússuð og flott, hávaðinn eins og fallegasta músík og við riddarar götunnar.

Við byggðum meira að segja vandaðan vinnuskúr þar sem farartækin áttu að eiga samastað fyrir viðgerðir og bón og áttum við bara eftir að opna hann formlega þegar starfsmenn borgarinnar mættu á svæðið með stórar teikningar og framtíðarplön sem báru nöfn eins og borgarskipulag og framtíðar vegalagning. Skúrinn var látinn fjúka og eftir stóðum við kapparnir dálítið hnípnir.

En ungir menn láta svona smámuni ekki slá sig út af laginu heldur ákváðum við að fara í viku ferðalag á skellinöðrunum vestur í Eyrarsveit til ættmenna Guðmundar. Það sómafólk tók vel á móti okkur og við áttum þar afar góða daga við veiðiskap, berjatínslu og náttúruskoðun. Ferðalagið var eitt ævintýri sem við töluðum oft um og gerði sú reynsla okkur örugglega að betri mönnum.

Svo komu bílarnir til skjalanna með öllu því sem þeim tilheyrir og þar var minn maður á heimavelli þar sem hann lærði bifvélavirkjun og kunni skil á flóknu gangverki bílsins. Það er ekki ofsögum sagt að Guðmundur var vinnusamur, handlaginn og mikill atorkumaður. Vinnuþjarkur á kannski betur við því hann var stöðugt að og gott var að koma á verkstæði Hemils og fá úrlausn sinna mála.

Þegar við vorum orðnir ráðsettir menn lágu leiðir okkar saman í Kiwanisklúbbnum Jörfa en sá félagsskapur gerir góða menn betri. Þar höfum við starfað saman í frábærum hópi í hartnær 40 ár og nú er skarð fyrir skildi. Jörfi hefur misst öflugan liðsmann en hans verður minnst um ókomin ár.

Þú ert kært kvaddur gamli góði vin.

Elsku Brynju, Magneu, Jónínu og Daníel, systkinum Guðmundar og fjölskyldunni allri sendum við Ásta innilegustu samúðarkveðjur.

Ævar Breiðfjörð.

Að fá tilkynningu í síma um andlát góðs vinar og félaga er alltaf áfall. Jafnvel þótt vitað hafi verið um skeið að hverju stefndi.

Þegar sú er staðreyndin að hann Guðmundur svili minn er látinn leitar hugurinn til baka til allra þeirra ótal gleðistunda sem við áttum saman með fjölskyldum okkar og vinum. Hjálpsemi hans var einstök og hvar sem hann fór vildi hann leggja hönd á plóg ef það mætti verða einhverjum til góðs. Hann taldi ekki eftir sér að hjálpa fólki við nánast hvað sem er og jafnvel smæstu dýr fengu sinn skerf af hlýju hans. Undir það tækju með mér köngulærnar í garðinum í Hnjúkaselinu ef þær gætu, svo ekki sé minnst á kettina sem athvarf fengu í bílskúrnum heima.

Minnisstæðar eru ferðir sem við fórum saman innanlands og utan. Þegar við hittumst með gönguhópnum okkar var tækifærið oft notað til að ferðast. Þannig var Tröllaskaginn fínkembdur sem og Vestfirðirnir. Þau Brynja ferðuðust alltaf í „Hilton“, bláa húsbílnum sem hann hafði innréttað á þann hátt sem honum einum var lagið.

Við Halldóra hins vegar með aftanívagn sem sjaldnast fékk sömu umhirðu og natni og sá blái. Enda reyndist vestfirski holuþjóðvegurinn vagninum ofviða og braut hann niður. Þá kom sér vel rólyndi og verklagni Guðmundar.

Þegar mín fyrsta hugsun var að panta kranabíl til að flytja vagninn á ruslahaugana lagðist Guðmundur á veginn, kíkti undir vagninn og spurði hvort ekki væri ég með eitthvert band og tjakk.

Með þessu tvennu ásamt trékubb sem einnig var við höndina var svo vagninum lyft þannig að hægt var að koma honum á verkstæði á Tálknafirði þar sem viðgerð var framkvæmd undir árvökulu auga Guðmundar. Í framhaldinu áttum við svo góðar stundir saman og kvöddumst í ferðalokin á vegamótum þar sem þau héldu til síns heima í Reykjavík en við austur á Eskifjörð.

Einnig fórum við öll saman á sólarstrendur meðan báðir voru yngri og sprækari. Í þeim gat ég ekki annað en dáðst að þoli hans í sólinni því oftar var það hún sem gafst upp á undan og settist. Annað atriði sem mér er einnig minnisstætt er hversu oft var beðið eftir honum þegar farið var út að borða eða annað. Hann tók tímann einfaldlega úr sambandi, þurfti ekkert á honum að halda.

Síðasta ferðin okkar Halldóru með þeim Guðmundi og Brynju, sem var afmælisferð á skíði til Madonna í febrúar, verður mér alla tíð minnisstæð. Jákvæðni hans og ákveðni var ótrúleg.

Það gat engum dulist sem til þekkti að hann var orðinn mjög veikur en hann ætlaði sér í þessa ferð og fór. Vissulega gerði hann ekki sömu hluti í fjöllunum sjötugur og hann hafði gert í ferðum þar áður, en hann sannaði fyrir sjálfum sér fyrst og fremst að hann gæti það sem hann ætlaði sér.

Nú þegar leiðir skilur að sinni þökkum við Halldóra og fjölskyldan öll fyrir allan þann tíma sem við eyddum með þér og þínum og minningin um góðan dreng mun aldrei hverfa úr hugum okkar. Elsku Brynja, Magga, Jónína, Daníel og fjölskyldur. Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum Guð að styrkja ykkur á þessum erfiðu stundum.

Hilmar Sigurjónsson.

Í dag kveðjum við kæran vin, mág og svila, Guðmund Jónsson, sem látinn er eftir rúmlega árs baráttu við krabbamein. Við áttum heima í sama stigaganginum í Maríubakkanum fyrstu hjúskaparárin okkar og þar var gott að vera. Þar ólust börnin okkar upp saman og þar mynduðust sterk tengsl og góð vinátta sem hefur haldist alla tíð síðan.

Guðmundur var með eindæmum hjálpsamur og nutum við þess á árum áður. Hann var alltaf boðinn og búinn til að hjálpa okkur, bæði með lagfæringar á bílum okkar og við hús- og sumarbústaðabyggingar. Guðmundur var með eindæmum laginn og kunni ekki að kasta til hendinni.

Allt sem hann gerði var gert af vandvirkni og fagmennsku og ekki laust við að stundum þætti manni nóg um. Óhætt er að segja að vinurinn hafi verið með bíladellu enda bifvélavirki og átti hann margan flottan eðalvagninn um dagana.

Fordinn góði var þar fremstur í flokki enda ferðuðust þau Brynja og fjölskyldan mikið á honum um allar trissur. Guðmundur var sérstaklega góður við börn enda hændust þau að honum og hann var alltaf tilbúinn að hlúa að gamla fólkinu og spjalla við þau.

Dýrin fóru heldur ekki varhluta af góðmennskunni og man ég eftir er hann var að hjálpa okkur við bygginguna í Gljúfraselinu og við sátum í vinnuskúrnum og drukkum kaffi að mús stökk úr fatahenginu og á öxlina á Guðmundi. Flestir hefðu nú hrist hana af sér með látum en Guðmundur sagði: „Ertu þarna blessunin“ og hjálpaði henni svo út.

Villikettirnir voru líka velkomnir í bílskúrinn hjá honum og passaði hann að hafa rifu fyrir þá þannig að þeir kæmust í skjól ef illa viðraði.

Kæri Guðmundur, við vitum að þú ert kominn á góðan stað og þegar þú ert búinn að heilsa upp á þau sem á undan fóru þá ferð þú að kíkja eftir eðalvagni svo þú getir rúntað um aðra heima.

Elsku Brynja, Magga, Jóní, Danni og fjölskyldur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð, megi algóður Guð vera með ykkur og styrkja.

Blessuð sé minning góðs drengs.

Guðmundur og Helga.

Ég var alin upp í litlum botlanga í Seljahverfinu þaðan sem ég á endalausar minningar um það góða fólk sem þar hefur búið frá upphafi byggðar í götunni. Einn af þeim var Guðmundur, oft kenndur við 11.

Síðustu daga hafa runnið í gegnum huga minn minningar tengdar honum, þessum hlýja, ljúfa manni sem að alltaf hafði eitthvað fyrir stafni.

Ef ekki var verið að sinna garðinum þá voru það bílarnir eða að dytta að húsinu en engu að síður hafði hann alltaf tíma til að spjalla við mig ef ég stoppaði hjá honum til að forvitnast hvað væri verið að gera . Svona gæti ég haldið lengi áfram þar sem ég man ekki lífið öðruvísi en með Guðmund sem fjölskylduvin og nágranna. Allar útilegurnar, ferðalögin, afmæli, jól og áramót þar sem fjölskyldurnar ásamt fleirum áttu góðar stundir saman.

Í dag minnumst við Guðmundar með söknuð í hjarta en vissu um að hann er í góðum höndum.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesús, í þína hönd,

síðast þegar ég sofna fer

sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgrímur Pétursson)

Við viljum votta Brynju og fjölskyldum hennar samúð okkar.

Agnes Ósk, Ágústa

og Guðjón.

Okkar góði félagi í Kiwanisklúbbnum Jörfa, hann Guðmundur Jónsson, er látinn, langt fyrir aldur fram. Laut í lægra haldi fyrir vágesti sem fáum eirir og sem hann barðist af hörku gegn uns yfir lauk, þar sem Brynja kona hans stóð við hlið hans sem klettur. Guðmundur góði var hann stundum kallaður til aðgreiningar frá öðrum Guðmundum í klúbbnum.

Það var ekki að ástæðulausu. Hann var einstaklega góður félagi, hlýr og glaður á hverju sem gekk. Óspar á faðmlögin og ötull til verka þegar taka þurfti til hendinni. Hann var líklega fyrstur eða einn af þeim fyrstu sem gekk í klúbbinn að stofnfélögunum undanskildum. Alla tíð virkur og virtur félagi sem tók þátt því sem klúbbfélagar tóku sér fyrir hendur, hvort sem var í fjáröflun eða skemmtunum. En eitt var það sem einkenndi hann.

Hann tranaði sér aldrei fram. Sóttist ekki eftir vegtyllum eða embættum en var síst minna metinn fyrir það. Guðmundur og Brynja voru ómissandi félagar í ferðalögum hópsins, innan lands sem utan.

Við Jörfafélagar söknum góðs félaga og vinar en minningin um hann er okkur mikils virði og þar mun hann lifa. Við sendum Brynju eiginkonu hans, börnum, tengdabörnum og barnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Kiwanisklúbbsins Jörfa,

Baldur Árnason,

Haraldur Finnsson.