Íslandsmeistarar Eyjamenn með markvörðinn Kolbein Aron Ingibjargarson í broddi fylkingar fagna Íslandsmeistaratitlinum á gólfinu á Ásvöllum í leikslok í gærkvöld.
Íslandsmeistarar Eyjamenn með markvörðinn Kolbein Aron Ingibjargarson í broddi fylkingar fagna Íslandsmeistaratitlinum á gólfinu á Ásvöllum í leikslok í gærkvöld. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ásvöllum Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is ,,Ég á ekki orð í eigu minni og þetta er algjörlega mögnuð stund. Ég er búinn að vinna með þessum drengjum í fjögur ár og við höfum á þessum tíma gengið í gegnum allan andskotann.

Á Ásvöllum

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

,,Ég á ekki orð í eigu minni og þetta er algjörlega mögnuð stund. Ég er búinn að vinna með þessum drengjum í fjögur ár og við höfum á þessum tíma gengið í gegnum allan andskotann. Núna stöndum við uppi sem Íslandsmeistarar og ég er algjörlega búinn á því,“ sagði Arnar Pétursson, annar af þjálfurum ÍBV, við Morgunblaðið eftir leikinn. Arnar gat ekki leynt sigurtárum sínum en undir hans stjórn og Gunnars Magnússonar tryggðu Eyjamenn sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í sögunni. „Væntanlega hafa einhverjir verið búnir að afskrifa okkur þegar við lentum fjórum mörkum undir í seinni hálfleik en karakterinn í þessum drengjum er ótrúlegur. Þeir gefast aldrei upp og viljinn í þessu liði er hreint magnaður. Ég er svo stoltur af liði mínu og að hafa þessa frábæru stuðningsmenn með okkur var ólýsanlegt. Við ætlum ekkert að fara fram úr okkur við þessi tímamót. Næsta ár verður erfitt en við erum komnir til að vera,“ sagði Arnar, sem varð Íslandsmeistari með Haukum árin 2008 og 2009.

Þetta mun styrkja okkur

,,Það er auðvitað hrikalega erfitt að sætta sig við þetta en svona eru íþróttirnar,“ sagði stórskyttan Sigurbergur Sveinsson við Morgunblaðið eftir leikinn. Sigurbergur var niðurbrotinn eins og eðlilegt er en hann átti frábæran leik og skoraði 11 mörk og átti fjölda stoðsendinga. „Þegar við vorum komnir fjórum mörkum yfir í seinni hálfleik gáfum við eftir í sókn og vörn og hleyptum Eyjamönnunum inn í leikinn í stað þess að halda áfram að keyra á þá. Það er erfitt að segja hvort þetta sé sárasta stundin á mínum ferli en vissulega er maður gríðarlega vonsvikinn með þessa niðurstöðu. En það getur líka verið hollt að tapa. Ég er stoltur af liðinu þrátt fyrir þessi úrslit. Það voru allir búnir að afskrifa okkur þegar við lentum 2:0 undir á móti FH en komumst engu að síður í þetta úrslitaeinvígi. Þetta mun styrkja okkur og við mætum sterkari til leiks á næsta tímabili.

Ég hélt að við værum að taka þetta þegar við náðum fjögurra marka forskoti í seinni hálfleik en þú getur aldrei leyft þér að slaka á gegn liði eins og ÍBV. Ég er afar vonsvikinn en um leið er ég stoltur af mínu liði. Við uppskárum þrjá titla á tímabilinu og vorum hársbreidd frá því að landa þeim stóra. Ég vil nota tækifærið og óska Eyjamönnum til hamingju með árangurinn en við Haukamenn látum þetta ekkert slá okkur út af laginu. Við mætum sterkari til leiks á næsta tímabili,“ sagði Sigurbergur.