Tóbak Börnin hafa aldrei reykt en þjást engu að síður af nikótíneitrun.
Tóbak Börnin hafa aldrei reykt en þjást engu að síður af nikótíneitrun. — AFP
Ekki eru til nákvæmar upplýsingar um hversu mörg börn starfa við tóbaksræktun í Bandaríkjunum en af 150 viðmælendum, sem tóku þátt í könnun mannréttindasamtakanna Human Rights Watch, reyndust 75% sýna einkenni bráðrar nikótíneitrunar. Börnin sögðust...

Ekki eru til nákvæmar upplýsingar um hversu mörg börn starfa við tóbaksræktun í Bandaríkjunum en af 150 viðmælendum, sem tóku þátt í könnun mannréttindasamtakanna Human Rights Watch, reyndust 75% sýna einkenni bráðrar nikótíneitrunar.

Börnin sögðust m.a. þjást af ógleði, uppköstum, lystarleysi, höfuðverkjum, svima og öndunarerfiðleikum en þau reyndust einnig hafa orðið fyrir áhrifum skordýraeiturs frá nærliggjandi ökrum og hafa slasað sig á beittum verkfærum sem notuð eru við uppskeruna.

Varnarlaus fyrir eitrun

Rannsókn HRW tók til fjögurra ríkja þar sem tóbak er ræktað: Norður-Karólínu, Kentucky, Tennessee og Virginíu. Yngstu börnin sem samtökin ræddu við voru aðeins 11-12 ára gömul, flest afkomendur suðuramerískra innflytjenda í nærliggjandi bæjum, og unnu við tóbaksræktunina á sumrin til að drýgja tekjur fjölskyldunnar.

„Þegar skólaárinu lýkur halda börnin á tóbaksakrana, þar sem þau komast ekki hjá því að verða fyrir áhrifum hættulegs nikótíns, án þess þó að reykja eina einustu sígarettu,“ segir Margaret Wurth, einn höfunda skýrslu HRW. „Það kemur ekki á óvart að börnin, sem eru varnarlaus fyrir eitrun á tóbaksökrunum, séu að veikjast,“ er haft eftir henni í tilkynningu.

Mörg barnanna reyndust vinna langa vinnudaga án þess að fá greitt yfirvinnukaup né fengu þau tilskildan hvíldartíma. Höfundar rannsóknarinnar leggja til að sett verði 18 ára aldurstakmark á störf á tóbaksökrunum.