Gestur Gunnarsson fæddist í Reykjavík 27. febrúar 1942. Hann lést á heimili sínu, Flókagötu 8, 28. apríl 2014.
Útför Gests fór fram frá Hallgrímskirkju 9. maí 2014.
Nú er hann Gestur Gunnarsson vinur minn fallinn frá, góður maður. Ótrúlega gáfaður og minnugur var hann, sannkallaður sagnasjóður og ljúfur á sinn hátt en gat verið hvass eins og stormar hafsins, ofurmenni misskilinn af mörgum. Enda var fyrirmyndin að James Bond skyld honum. Gestur var lögfróður maður sem las reglulega upp lagadóma fyrir sjóndapran afa sinn í æsku.
Gestur var tæknifræðingur og hafði fljótt lært á yngri árum margt af föður sínum. Hann vissi allt um byggingu flugvallarins enda ólst hann upp í næsta nágrenni hans á Hörpugötu. Hann var fús að fræða alla sem áhuga höfðu á ýmsum sviðum ekki síst tæknilegum bæði í orðum og táknum. Gestur vann í mörg hjá Vita- og hafnamálastofnun og síðan var hann kennari við Iðnskólann í Hafnarfirði. Gestur hafði áhuga á endurnýtingu hluta og kunni aðferð við að smíða sólarsellur úr ýmsum efnisafgöngum. Hann var virkur áhugamaður í félagsskap nýrrar hugsunar um nýtingu landsins. Á fundum hjá félagsskapnum okkar „Nýjum sólum“ fór hann á kostum.
Gestur var sjómaður um tíma og þekkti öll skip og aflaði sér vitneskju um sögu þeirra. Gestur var vel ritfær og gaf út bókina „Mis sannar sögur á sjó og landi“ árið 2010 og seldist hún vel. Hann skrifaði einnig fjölmargar greinar í Morgunblaðið á liðnum árum og bauð fram ýmsar vel útfærðar lausnir á vandamálum dagsins.
Í kringum 1977 hittumst við í sambandi við Dale Carnegie-félagsstarfið og urðum strax góðir vinir og hlustaði hann með athygli á sögur mínar og hugmyndir. Hann var um skeið einn aðalmaðurinn í félagi uppfinningamanna sem við báðir höfðum mikinn áhuga á.
Eftir missi konu sinnar, Sigrúnar, blessuð sé minning hennar, hittumst við á hverjum þriðjudegi saman í mat og fórum þar á eftir út í Örfirisey og önduðum að okkur ilmi hafsins, horfðum á skipin og fuglana og komum gjarnan við hjá Billy í verslun Hjálpræðishersins. Í eftirmiðdaginn var förinni heitið á Skólavörðustíginn þar sem hann rétti frænku sinni, Fjólu í Antikhúsinu, oft tæknilega hjálparhönd. Einnig settumst við þó nokkuð oft niður á Mokka Kaffi og brá Gestur sér þá á leik og lék frænda jólasveinsins og hlógu þá ungir jafnt sem aldnir.
Ég sendi systrum, mágkonu, dætrum og dóttursyni mínar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu hans Gests Gunnarssonar.
Ketill Larsen.
Eftir nokkra daga kemur hann til mín og er frekar létt yfir honum og segir: „Ég er búinn að athuga þetta með Nixon og þetta passar allt. Það er allt svona þetta fólk.“ Mér láðist að vísu að spyrja hvort hann ætti við útlitið eða innrætið því ég var svo glaður að fá þetta vottorð frá Gesti. Síðan hef ég talið Richard Nixon býsna skyldan mér. Eftir að leiðir okkar skildi á Stöð 2 strjáluðust samverustundir. Við reyndum þó að taka kaffispjall svona einu sinni á ári og var þá setið lengi. Ég ætlaði einmitt að láta hann segja mér aftur söguna um þýsku flugvélina á Kili en það verður víst ekki því nú hefur forsjónin undið upp seglið og vinur minn verið munstraður á nýja ævintýraskútu og kannar nú straumlagið í nýjum höfnum. Ég efast ekki um að hann fær góðan byr.
Eyþór Árnason.