Johanna E. Van Schalkwyk
Johanna E. Van Schalkwyk
Eftir Johönnu E. Van Schalkwyk: "Mér finnst að Morgunblaðið eigi að fara varlega í að draga illa ígrundaðar ályktanir og nota misvísandi fyrirsagnir."

Síðastu daga hefur Morgunblaðið upplýst okkur mjög vandlega í nokkrum greinum um væntanlegt atvinnuvandamál í byggingariðnaði og blómstrandi viðskipti í tungumálakennslu í Dósaverksmiðjunni. Nema hvað, fólk sem er kannski ekki að falla á því að lesa allar greinarnar mun kannski ekki vera vel upplýst um málefnin, þar sem fyrirsagnir eru: „Margir innflytjendur eru án vinnu“ (bls. 6, 30. apríl) og „Straumur innflytjenda til Íslands“ (bls. 14, 29. apríl).

Skoðum þetta aðeins betur. Það eru 11 málsgreinar í fyrrnefndu greininni, fyrir utan lítinn kassa með upplýsingum um hvernig atvinnuþátttaka erlendra ríkisborgara er flokkuð og töflu um atvinnulausa eftir ríkisfangi. Þrjár fyrstu málsgreinarnar greina í stuttu máli frá atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara á Íslandi. Hinar átta málsgreinarnar fjalla um fyrirhuguð aukin umsvif í byggingariðnaði og þá áhættu að fluttir verði inn réttindalausir iðnaðarmenn og möguleiki að brotið verði á réttindum þeirra. Það er í raun mjög mikilvægt að varpa ljósi á það að erlent vinnuafl getur lent í vondri stöðu í byggingargeiranum og er maður þakklátur fyrir það ef Morgunblaðið langar að skoða þetta betur. En lesendur eiga mjög erfitt með að sjá hvernig þetta mál tengist atvinnuleysi meðal innflytjenda almennt, eins og fyrirsögnin gefur í skyn.

Á sömu nótum var það afar skemmtilegt að lesa um algjöra sprengingu í íslenskukennslunni í tungumálaskólanum hennar Sigrúnar Gígju Svavarsdóttur, Dósaverksmiðjunni. Tíu af sextán málsgreinum í fréttinni fjalla um starfsemi þessa eina skóla. En ég óttast að mjög margir lesendur nenni ekki að lesa lengra en fyrirsögnin: „Straumur innflytjenda til Íslands“. Þar missti Morgunblaðið nú af glæsilegu tækifæri til að greina frá vaxandi áhrifum innflytjenda á íslensku og íslenskunám. Því miður valdi Morgunblaðið þá leið, sem er þekkt í frekar lélegri blaðamennsku, að setja tilkomumikla fyrirsögn fyrir ofan eitthvert allt annað lesefni.

Það má færa rök fyrir því að blaðamennska í þessum tveimur tilfellum bjóði upp á svipaða upplifun og það sem karakter Stephens Reas upplifði í kvikmyndinni The Crying Game – hann hélt að hann væri ástfanginn af konu þangað til hann afklæddi hana og hennar karlmennsku. Semsagt, fyrirsagnir í þessari grein eru allt annað „kyn“ en greinarnar sjálfar. Það má kannski líka færa rök fyrir því, samkvæmt vali á fyrirsögn miðað við efni greinarinnar, að Morgunblaðið sé andvígt erlendum íbúum á Íslandi. En ég ætla ekki að leyfa mér að draga slíkar ályktanir, alveg eins og mér finnst að Morgunblaðið eigi að fara varlega í að draga illa ígrundaðar ályktanir og nota misvísandi fyrirsagnir sem geta að óþörfu kynt undir vantrausti á milli innfæddra og aðfluttra íbúa á Íslandi.

Höfundur er kennari.

Höf.: Johönnu E. Van Schalkwyk