Úrslitakeppnin í handknattleik, sem lýkur á laugardaginn með hreinum úrslitaleik Stjörnunnar og Vals í kvennaflokki, hefur verið safarík veisla fyrir áhugamenn um handknattleik.
Úrslitakeppnin í handknattleik, sem lýkur á laugardaginn með hreinum úrslitaleik Stjörnunnar og Vals í kvennaflokki, hefur verið safarík veisla fyrir áhugamenn um handknattleik.

Úrslit réðust ekki í undanúrslitum í karlaflokki fyrr en í oddaleikjum þar sem sekúndur réðu því hvorum megin sigurinn í annarri rimmunni lenti. Spennan var e.t.v. ekki eins mikil í kvennaflokki fyrr en komið var í úrslitarimmuna sjálfa, á milli Stjörnunnar og Vals, þar sem tvo af fjórum leikjum sem að baki eru í keppninni um Íslandsmeistaratitilinn, hefur þurft að framlengja til þess að knýja fram úrslit. Ég hlakka til að fylgjast með úrslitaleiknum á laugardaginn í Mýrinni.

Rimma Hauka og ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn var leidd til lykta í gærkvöldi á viðeigandi og eftirminnilegan hátt. Stuðningsmenn liðanna troðfylltu íþróttahús Hauka og skemmtu sér vel þrátt fyrir að ekki hafi allir getað farið með bros á vör heim. En þannig eru íþróttirnar og sú staðreynd laðar meðal annars áhorfendur á kappleiki.

Sumir segja að önnur eins stemning fyrir úrslitaleik á Íslandsmótinu í handknattleik karla hafi ekki myndast síðan Valur og KA háðu eftirminnilegt einvígi um titilinn 1995 og hið gamla íþróttahús Vals var svo troðfullt á oddaleiknum að menn telja að útveggirnir hafi færst úr stað, svo hressilega var troðið í húsið.

Hvað sem því líður er ljóst að úrslitakeppnin í ár er mikill sigur fyrir handknattleikinn sem úrtölumenn hafa talið að þjáðist af uppdráttarsýki. Allar sögur um slíkt er stórlega ýktar, svo ekki sé tekið dýpra í árinni.