Vinnufélagi minn sparkaði í mig, tók matardiskinn minn og henti honum í vegginn með öskrum og óhljóðum. Þegar ég sagði yfirmanni frá þessu, sagði hann mér hastur í bragði að láta ekki svona.

Vinnufélagi minn sparkaði í mig, tók matardiskinn minn og henti honum í vegginn með öskrum og óhljóðum. Þegar ég sagði yfirmanni frá þessu, sagði hann mér hastur í bragði að láta ekki svona. Ég ætti að vita að vinnufélaginn ætti stundum svolítið erfitt með að stjórna sér. Ég yrði að vera tillitssamari í framtíðinni. Finnst ykkur þetta í lagi?

Sko... reyndar var þetta ekki alveg svona. Enginn af vinnufélögum mínum hagar sér svona og ég er næsta viss um að yfirmaðurinn myndi bregðast á annan hátt við slíkri uppákomu. Við skulum skipta persónum og leikendum út fyrir nemendur og starfsfólk í íslenskum grunnskóla. Uppákomur eins og sú sem að framan er lýst og sumar miklu alvarlegri, eru síður en svo sjaldgæfar í íslenskum grunnskólum. Allt of mörg börn verða fyrir áreitni af ýmsum toga af hendi annarra barna á vinnustaðnum sínum (eða er skólinn annars ekki vinnustaður um 43.000 barna?) og er þannig gert að vinna við aðstæður sem við fullorðna fólkið myndum aldrei láta bjóða okkur. Þegar gerðar eru athugasemdir er svarið gjarnan að sá sem áreitninni veldur eigi erfitt og að sá sem fyrir henni verður verði að taka tillit til þess. Þetta þekkja margir foreldrar grunnskólabarna.

Börn, rétt eins og allt annað fólk, geta átt við margvíslega erfiðleika að stríða. Öll börn eru skólaskyld og flest ganga þau í almenna grunnskóla sem starfa undir merkjum skólastefnunnar Skóli án aðgreiningar. Það er erfitt fyrir barn að sæta árásum á vinnustað sínum og það er líka erfitt fyrir barn sem á í alvarlegum erfiðleikum að vera gert að mæta á hverjum degi í aðstæður sem það ræður engan veginn við í 180 daga á ári í tíu ár.

Tölur sýna fjölgun barna með ýmis alvarleg vandamál, m.a. geðræn. Meðferðarúrræði eru fá, biðlistar langir og samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins fyrr í vikunni er einungis einn barna- og unglingageðlæknir starfandi utan höfuðborgarsvæðisins.

Þessi grein er ekki um að börnin sem eiga erfitt eigi að vera einhvers staðar annars staðar en í almennum grunnskólum. Hún er heldur ekki um grunnskólakennara, sem eina ferðina enn eru komnir í hart við hið opinbera vegna lágra launa og mikils vinnuálags. Þessi grein er um þær starfsaðstæður sem við bjóðum börnunum okkar upp á á hverjum degi í nafni Skóla án aðgreiningar, sem út af fyrir sig er góð og gild hugmyndafræði. En til þess að framkvæma hana þarf miklu meira fjármagn, fleira fólk og meiri sérþekkingu þeirra sem starfa í skólakerfinu. Það er ekki nóg að lengja kennaramenntunina í fimm ár og halda að þar með sé verkið unnið. Þessi skólastefna krefst fagfólks úr ýmsum stéttum. Og það er ekki eins og börnin okkar geti hætt í vinnunni eða skipt um vinnu. Þau eru skólaskyld.

Í gær lögðu grunnskólakennarar niður störf og kröfðust betri kjara og vinnuaðstæðna. Hvenær skyldu börnin okkar gera slíkt hið sama? annalilja@mbl.is

Anna Lilja Þórisdóttir

Höf.: Anna Lilja Þórisdóttir