Hæstiréttur hefur dæmt fjárfestinn Bjarna Ármannsson í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum.

Hæstiréttur hefur dæmt fjárfestinn Bjarna Ármannsson í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum. Bjarna var einnig gert að greiða tæpar 36 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns og áfrýjunarkostnaðar. Áður hafði Bjarni verið dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hann var sakfelldur fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2007, 2008 og 2009 vegna tekjuáranna 2006, 2007 og 2008. Verulegur hluti þeirra tekna sem um ræðir var hagnaður vegna sölu á hlutabréfum í Sjávarsýn ehf. Brotið var ekki virt Bjarna til ásetnings.

Í viðtali við mbl.is í gær sagðist Bjarni fyrir löngu hafa greitt viðkomandi skatta. og þá refsingu sem skattayfirvöld bættu við í formi skattálags. „Ég tel því að með dóminum sé verið sé að refsa mér í annað sinn fyrir sama brotið,“ segir Bjarni.

Bjarni segir málið aðallega hafa snúist um málsmeðferð og tvöfalda refsingu. Fyrir héraðsdómi sagði verjandi Bjarna að verulegur vafi ríki um refsiheimildina í málinu og óskaði eftir að því yrði frestað þar til dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli, þar sem reynir á sama ágreiningsefni, lægi fyrir. Það mál var höfðað af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.