Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Sumarið er tími framkvæmda í borgum og bæjum. Í Reykjavík er unnið að úrbótum á götum og á lóðum einkafyrirtækja á nokkrum stöðum.
Pósthússtræti tekur stakkaskiptum við endurnýjum á milli Austurstrætis og Tryggvagötu. Ístak hóf framkvæmdir í apríl og á þeim að ljúka í júlí. Þessa dagana er unnið að endurnýjun fráveitu- og kaldavatnslagna.
Gangstéttir á þessum kafla götunnar verða hellulagðar og einnig akbrautin á milli Austurstrætis og Hafnarstrætis en kaflinn að Tryggvagötu malbikaður. Gangstéttir breikka, snjóbræðsla kemur undir götuna og nýir ljósastaurar rísa. Við Tryggvagötu verður gerður haus að vestan og upphækkuð hellulögð gönguleið yfir Tryggvagötu.
Í þessum áfanga endurbóta á Pósthússtræti er ekki gert ráð fyrir framkvæmdum við torg á mótum Pósthússtrætis og Tryggvagötu, þar sem pylsuvagn Bæjarins bestu er. Áformað er að rífa geymsluskúra sem tilheyrðu verslun Ellingsen á sínum tíma en leigubílastöðin Borgarleiðir notaði í mörg ár. Á lóðinni sem telst til Hafnarstrætis 17-19 á að byggja hótel og er ætlunin að byrja í sumar. Á teikningum er gert ráð fyrir því að Bæjarins bestu standi á sínum stað á umræddu torgi.