Evrópuríki komast vart hjá því að leita nýrra lausna til að tryggja næga orku

Um það er nú rætt í mörgum ríkjum Evrópu hvernig best sé að koma í veg fyrir að ríki álfunnar verði of háð Rússum um orkugjafa. Bretar hafa þar gengið í fararbroddi, en William Hague, utanríkisráðherra Breta, hefur varað við því í ræðu og riti að Rússar hafi nú þegar náð nokkurs konar fantataki á ríkjum Evrópu með orkubirgðum sínum. Sex þjóðir Evrópu treysta nú algjörlega á rússneskan útflutning, og margar í viðbót kaupa meira en helming af því eldsneyti sem þær brenna á hverju ári frá Rússum. Fyrirsjáanlegt er að aðrar þjóðir, eins og Þjóðverjar og jafnvel Bretar, muni að óbreyttu þurfa að treysta sífellt meir á rússneskan innflutning til að mæta orkuþörfum sínum.

Þetta væri ekki vandamál ef það hefði ekki sýnt sig að Pútín Rússlandsforseti er óhræddur við að beita þessu taki sínu til þess að fá sínu framgengt. Þær þjóðir sem standa í orkuskuld við Rússa eiga því erfiðara um vik að verjast ágengni þeirra, þegar viðbúið er að Rússar geti valdið stórkostlegum búsifjum, annað hvort beint með hækkun orkuverðsins, eða óbeint með því að tefja fyrir afhendingu eldsneytisins, t.d. með „ófyrirséðum bilunum“, eins og brögð voru að í Úkraínu.

Á sama tíma er ljóst að Evrópa situr nú á miklum birgðum af jarðgasi og olíu, sem situr í leirsteinslögum sem ekki hefur áður verið hægt að ná í, fyrr en á síðustu árum með tilkomu nýrra aðferða við olíuborun, svonefndri vökvaborun eða „fracking“.

Samskipti ríkja Evrópu og Rússlands hafa breyst til hins verra á síðustu mánuðum og fátt sem bendir til að þau muni lagast um fyrirsjáanlega framtíð. Af þeim sökum er líklegt, jafnvel þótt boranirnar séu umdeildar og afleiðingar þeirra ekki að fullu þekktar, að kannað verði til hlítar hvort hægt sé að nýta þessar birgðir. Þó að einungis brot af þeim væri sótt myndi það breyta vígstöðu Evrópu til hins betra.