Baldur Arnarson baldura@mbl.is Alls seldust 2.543 nýir bílar á fyrstu fjórum mánuðum ársins og er það ríflega 22% aukning frá fyrra ári. Bílaumboðið BL seldi flesta bíla, eða 567, og jók sölu sína um ríflega 54% frá því í fyrra.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Alls seldust 2.543 nýir bílar á fyrstu fjórum mánuðum ársins og er það ríflega 22% aukning frá fyrra ári.

Bílaumboðið BL seldi flesta bíla, eða 567, og jók sölu sína um ríflega 54% frá því í fyrra. Er salan einstakra umboða sýnd hér til hliðar.

Toyota er söluhæsta bílategundin á þessu tímabili og tekur við keflinu af Volkswagen frá sömu mánuðum árið 2013. Athygli vekur að sala á Nissban-bílum margfaldast, fer úr 48 bílum 2013 í 199 bíla í ár.

Það vekur einnig athygli að sala á Mercedes-Benz eykst talsvert, fer úr 64 bílum í 99 bíla. Sala á BMW eykst líka, fer úr 23 bílum í 30 bíla.

Sala á Audi dregst hins vegar saman, fer úr 36 bílum í 32 bíla. Þá minnkar sala á Jaguar Land Rover limited, fer úr 17 bílum í 12 bíla.

Lúxusbílar í sókn

Má flokka þessar fjórar tegundir sem lúxusbílategundir. Salan á þeim eykst úr 140 bílum í 173 bíla og eykst því um tæp 24%, eða svipað og sala nýrra bíla almennt. Er hér ekki tekið tillit til sölu á dýrari bílum af gerðinni Toyota, þar með talið Land Cruiser, né er hér horft til sölu á Lexus-bílum, sem eru lúxusmerki.

Til marks um verðlagningu lúxusbifreiða kosta nýir Mercedes-Benz E-Class bílar frá 7,4 og upp í 26,6 milljónir, samkvæmt vef Öskju.

Bílaleigur keyptu 621 nýja bifreið á fyrstu fjórum mánuðum síðasta árs en 786 þessa mánuði í ár. Fer hlutur þeirra úr 29,9% í 30,9% af heildarsölu nýrra bifreiða.

Sveiflur í sölu einstakra tegunda milli ára geta verið miklar. Má þar nefna að í ár seldust 54 nýir Peugeot-bílar en 15 sömu mánuði í fyrra. Er það hlutfallslega mesta aukningin, ef frá er talin söluaukning á Nissan.

Sala á Dacia dregst mest saman, fer úr 36 nýjum bílum 2013 í 21 nýjan bíl í ár og er það tæplega 42% samdráttur. Þá minnkar sala á Honda talsvert, fer úr 114 nýjum bílum niður í 74 nýja bíla og minnkar um 35%. Loks eykst salan í flokknum aðrar tegundir úr 59 nýjum bílum í 108 bíla og er það ríflega 83% aukning.

Hlutdeild bifreiða í þessum flokki af heildarsölunni eykst líka, fer úr 2,8% árið 2013 í 4,2% árið 2014.