Harmleikur Duygu Colak syrgir eiginmann sinn Ugur við útför hans í borginni Soma í gær.
Harmleikur Duygu Colak syrgir eiginmann sinn Ugur við útför hans í borginni Soma í gær. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is Fyrstu útfarir fórnarlamba námuslyssins í Soma í Tyrklandi fóru fram í gær. Um er að ræða mannskæðasta iðnaðarslys í sögu landsins; að minnsta kosti 282 eru látnir og 142 enn saknað.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Fyrstu útfarir fórnarlamba námuslyssins í Soma í Tyrklandi fóru fram í gær. Um er að ræða mannskæðasta iðnaðarslys í sögu landsins; að minnsta kosti 282 eru látnir og 142 enn saknað. Mikil reiði ríkir í landinu vegna slyssins og í gær efndu tyrknesk verkalýðsfélög til eins dags verkfalls til að mótmæla slæmu ástandi öryggismála í námuiðnaðinum. Fjöldi fólks mótmælti í borgunum Ankara, Istanbul og Zonguldak og í Izmir beitti lögregla táragasi og vatnsbyssum gegn þúsundum mótmælenda sem söfnuðust saman á götum úti.

Krufningar hafa leitt í ljós að mennirnir létust úr kolsýringseitrun en eldar hafa geisað í námunni frá því sprenging varð á þriðjudag og hamla reykur og eiturgufur björgunarstarfi. Vonir voru bundnar við að finna einhverja á lífi í „öruggum“ klefum námunnar, þar sem er að finna súrefnisbirgðir og ýmis aðföng, en í gær fundust fjórtán látnir í einum slíkum klefa.

Sorg og reiði

Ættingjar og vinir grétu við útfarir fórnarlambanna í gær en sorg blandaðist reiði vegna viðbragða stjórnvalda. Í ávarpi sínu til ástvina námuverkamannanna á miðvikudag kom forsætisráðherrann Recep Tayyip Erdogan sér undan því að fjalla um öryggismál í námum landsins en sagði harmleiki á borð við þennan fylgifisk hættulegs iðnaðar. Slíkur var tilfinningahitinn meðal viðstaddra að ráðherrann neyddist til að leita skjóls í stórvörumarkaði þegar fólkið gerði aðsúg að honum.

Reiði og hneykslan landsmanna jókst enn í gær þegar tyrknesk dagblöð birtu myndir af jakkafataklæddum manni sparka í mótmælanda sem lögregluþjónar halda niðri. Blöðin nafngreindu manninn, Yusuf Yerkel, en hann er einn aðstoðarmanna Erdogan. Ekki leið á löngu þar til myndirnar höfðu vakið ofsaleg viðbrögð á samskiptamiðlum. Yerkel hét því að útskýra atvikið en hafði ekki tjáð sig frekar um málið seint í gær.

Fjölmiðlar sögðu frá því í gær að náman í Soma hefði verið í eigu ríkisins en leigð til einkafyrirtækis. Verkalýðsfélög kröfðust þess að öryggi námumanna yrði bætt og sögðu að eftirlit ætti að vera í höndum óháðra aðila en ekki námufyrirtækjanna. Talsmaður bandalags framsækinna verkalýðsfélaga sagði mennina vinna langa vinnudaga, vera án starfsöryggis og að flestir þeirra væru óskráðir. Hann sagði að einkavæðing námaiðnaðarins í Tyrklandi hefði leitt til mikillar fjölgunar slysa, þar sem ágóðinn væri alltaf settur ofar mannslífum í einkageiranum.