Með stútfullan munninn af súkkulaði gat hann varla sagt hæ, hvað þá tekið ástríðufullan koss.

Lífið er ekki eins og bíómynd, allavega ekki glansmyndaútgáfan. Þetta veit ég eftir að hafa ítrekað en árangurslaust reynt að skapa endurfundasenu sem væri verðug nokkurra vasaklúta. Ég er að tala um svona „ pabbi kemur heim frá Afganistan og fær fjölskylduna grátandi í fangið “-senu. Eða eins og í Love Actually þegar sæta aðstoðarkonan kemur hlaupandi í eldrauðri kápu og stekkur í fangið á forsætisráðherranum.

Ég á frekar stæðilegan mann svo tæknilega séð gætum við alveg gert þetta, og höfum tekið stökkæfingu heima þar sem hann grípur mig með sóma. Nema að mómentið er aldrei svona þegar á reynir.

Þegar við byrjuðum saman vann hann á frystitogara með skóla svo ég fékk það erkirómantíska hlutverk að vera stúlkan sem starir á hafið. Fyrsta sumarið ætlaði hann að koma mér á óvart eftir 5 vikna fjarveru og birtist allt í einu með blómvönd.

Eflaust sá hann fyrir sér þá að ég myndi fljúga upp um hálsinn á honum, en þar sem systkini mín og mamma fylgdu mér öll í halarófu til dyra kunni ég einhvern veginn ekki við það svo viðbrögðin voru meira á þessa leið: „Komdu sæll, Önundur, og velkominn í land. Má ekki bjóða þér að ganga í bæinn?“ Svo hringdi ég í vinnuna í von um að geta losnað undan kvöldvakt því sjómaðurinn hafði óvænt boðið mér út að borða, en nei, það kom ekki til greina. (Þarna lærðist mér að stundum borgar sig ekki að segja heiðarlega frá, heldur ljúga frekar veikindum.)

Nokkrum árum síðar fór ég í skiptinám til Bandaríkjanna og um vorið kom hann að heimsækja mig. Ég fór í fínum kjól til móts við hann á flugvöllinn, gott ef ég hélt ekki á bandaríska fánanum líka til að skapa réttu stemninguna, en þegar við mættumst hafði hann nýsett ferðatöskuna sína á færiband fyrir millilandaflug svo í stað fagnaðarfunda fórum við í stressi að endurheimta farangurinn.

Tvisvar hefur hann sótt mig í Leifsstöð eftir nokkurra mánaða fjarveru, nú síðast í mars þegar ég hafði verið á bakpokaferðalagi um Afríku. Ég setti bakpokann á kerru, frekar en að bera hann, ef þetta skyldi nú loksins verða Hollywood-mómentið. Það hafði orðið töf á fluginu mínu og hann beðið lengi eftir mér. Tilhlökkunin var því mikil, en greinilega hungrið líka því þegar ég gekk út úr tollinum sá ég hann strax, takandi risastóran bita af súkkulaðistykki. Með stútfullan munninn af súkkulaði gat hann varla sagt hæ, hvað þá tekið ástríðufullan koss, enda hefði það verið til lítils, því ég sprakk úr hlátri. Sem betur fer rúlluðu engar myndatökuvélar þá.

Kannski er niðurstaðan sú að ég hafi reynt að staðsetja mig í rangri grein kvikmynda. Líf mitt er greinilega ekki rómantísk ástarmynd í rósrauðum bjarma, en kannski nær því að vera einhvers konar farsi. Best er þó að vera þakklátur fyrir það sem maður fær, og á meðan ég ranka ekki við mér í miðjum splatter kvarta ég ekki.

Una Sighvatsdóttir una@mbl.is

Höf.: Una Sighvatsdóttir una@mbl.is